Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 519. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 880  —  519. mál.
Fylgiskjal.




Tillaga til þingsályktunar


um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beita sér fyrir gerð sáttmála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum sem feli í sér hvenær og á hvaða forsendum megi safna eða vinna úr stafrænum upplýsingum um einstaklinga. Sáttmálinn kveði á um upplýst samþykki fyrir söfnun stafrænna upplýsinga, afturköllun samþykkis, hvaða gögnum megi safna, hver geymi þau og hvar og hvaða upplýsingar séu unnar úr þeim auk eyðingar þeirra.
    Við undirbúning slíks sáttmála verði leitað til þeirra ríkja sem byggja á mannréttinda- og lýðræðishefð.

Greinargerð.

Tækniþróun.
    Gífurleg þróun hefur átt sér stað í tölvuvinnslu, gagnageymslu og netvæðingu á undanförnum árum og áratugum. Leitarvélar, samfélagsmiðlar, gagnasendingar og myndsímar hafa opnað almenningi nýjar víddir og auðveldað upplýsingaöflun og samskipti. Tölvuafl hefur verið flutt í farsíma einstaklinga sem ásamt fullkomnum staðsetningarmöguleikum og aðgangi að netinu sparar einstaklingum tíma og fyrirhöfn. Mikill fjöldi forrita (e. app) hefur verið þróaður sem leysir mörg vandamál daglegs lífs og þau eru að mestu leyti ókeypis. Nýjasta þróunin eru bílar sem veita alls konar upplýsingar um ferðir bílsins og aksturslag ökumanns. Í vændum eru heimilistæki sem „tala“ saman og láta vita af venjum eigandans. Ekki verður séð fyrir endann á þessari byltingarkenndu og hröðu þróun.
    Margt er til mikilla, áður óþekktra, þæginda. Hægt er að hringja hvaðan sem er með rafrænum hætti. Leitarvélar eru orðnar snar þáttur í starfi og tómstundum nánast hvers manns og þær „muna“ að hverju einstaklingurinn leitar venjulega að. Staðsetningarforrit hjálpa fólki að rata um stórborgir, flóknar hraðbrautir, auðveldar björgunarsveitum að finna villt fólk og spara þannig mikið fé. Samfélagsmiðlar hjálpa fólki að hafa samskipti jafnt á milli herbergja sem og heimsálfa og eru orðnir stór þáttur í daglegu lífi þorra almennings. Þekkingar- og upplýsingaöflun, menntun og kennsla hefur tekið stórstígum breytingum og sér alls ekki fyrir endann á því. Almenningur hefur tekið þessum breytingum fagnandi og þær hafa náð fótfestu um allan heim með örfáum undantekningum.
    Flest forrit, samfélagsmiðlar og leitarvélar eiga það sammerkt að safna öllum mögulegum upplýsingum um notendur. Þannig meta leitarvélar, smáforrit og samfélagsmiðlar áhugasvið fólks og staðsetningu sem hjálpar til við að upplýsa einstaklinga um vörur og þjónustu sem vakið geta áhuga þess. Fyrir auglýsendur er verðmætt að vita um staðsetningu, hegðun og langanir viðtakenda. Þessar upplýsingar eru því verðmæti fyrir marga og fyrirtæki sem komast yfir miklar upplýsingar um milljónir manna ganga kaupum og sölum á áður óþekktum verðum. Upplýsingaþorstinn vex að sama skapi og flest smáforrit („öpp“), sem eru sum hver ótrúlega gagnleg eða veita afþreyingu eru flest ókeypis eða mjög ódýr en safna á bak við tjöldin miklum upplýsingum um notandann, svo sem um aldur, kyn, staðsetningu, hegðun og áhugamál. Þannig „greiðir“ notandinn fyrir forritið aðallega með upplýsingum um sjálfan sig. Gífurlegir gagnabankar eru speglaðir, afritaðir í sífellu, til að hraða vinnslu upplýsinga og tryggja öryggi, oft á milli heimsálfa.

Uppljóstranir Snowdens.
    Uppljóstranir Snowdens í júní 2013 sýndu aðra og dekkri hlið á þessari þróun. Leyniþjónustur allra ríkja hafa löngum tileinkað sér nýjustu tækni og vísindi til að afla upplýsinga um óvininn, þ.e. hernaðarleg ásókn í upplýsingar fylgir yfirleitt nýjustu tækni. Þeir möguleikar sem sífellt hraðari hugbúnaður, sífellt ódýrari geymslumöguleikar og flutningsgeta ásamt gervitunglum gefa leyniþjónustum áður óþekkta möguleika á að afla upplýsinga um gífurlegan fjölda fólks. Samkvæmt fyrstu uppljóstrunum njósnar NSA, bandaríska þjóðaröryggisstofnunin, um hundruð milljónir manna víða um heim. Samkvæmt bandarískum lögum, Patriot Act, ber bandarískum fyrirtækjum að afhenda NSA þau gögn sem hún krefst. Þar sem flestar leitarvélar, samfélagsmiðlar og gagnaflutningslínur eru bandarískar eða liggja um Bandaríkin hefur NSA aðgang að feiknarmiklum gögnum um hundruð milljóna eða milljarða einstaklinga.
    Uppljóstranir Snowdens ollu miklu fjaðrafoki í byrjun sem síðan hjaðnaði. Sagt var að það væri eðlilegt að njósna og njósnir hefðu ætíð fylgt mannkyninu og að flest ríki stunduðu þær. Þegar í ljós kom með frekari uppljóstrunum, að sími Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefði verið hleraður um árabil fór umræðan á fullt. Merkel, sem búið hafði í áratugi við Stasi- njósnir Austur-Þýskalands var greinilega mjög brugðið. Samskipti vinaþjóðanna kólnuðu verulega og krafist var úrbóta. Bandaríkjamenn lofuðu að hlera símann hennar ekki framar og þar við situr. Ekki hafa komið fram lausnir sem leysa þann vanda sem við er að etja, sem er hvernig verja má einstaklinginn fyrir upplýsingaþörf leyniþjónusta margra ríkja.
    Frekari uppljóstranir og upplýsingar hafa opinberað eftirfarandi:
          6. sept. 2013: Einföld dulkóðun í netsamskiptum er rofin með ýmsum aðferðum.
          18. mars 2014: Mögulegt er að afrituð séu og geymd öll stafræn símtöl eins (óþekkts) ríkis í allt að mánuð. Áframhald í þróun tækni í geymslu gagna leiðir til þess að slík tímamörkun og landamæri munu hverfa innan skamms tíma.
    Dæmi um viðbrögð við uppljóstrunum:
          13. mars 2014: Mark Zuckerberg, stofnandi samskiptavefsins Facebook, kvartar undan því við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, að bandarísk stjórnvöld grafi undan trausti fólks á netinu með því að fylgjast með nethegðun fólks.
          19. mars 2014: Yfirlögfræðingur NSA segir að tæknirisarnir hafi vitað af fjöldasöfnun NSA á gögnum.
          28. mars 2014: Forseti Bandaríkjanna ákveður að NSA takmarki eftirlit sitt með símtölum innan lands.

Þjóðlegur réttur og alþjóðlegt net.
    Vandinn við netið er að það er alþjóðlegt og alls ekki auðvelt að finna hvar gögn eru geymd. Hins vegar er lagasetning, framkvæmd hennar og eftirfylgni í eðli sínu staðbundin og takmarkast hverju sinni við eitt ákveðið ríki þó að alþjóðasamstarfi hafi verið komið á á sviði löggæslu og eftirlits. Þess vegna eru ríki varnarlaus þegar viðkvæmum gögnum um einstaklinga er stolið og þeim dreift á netið.
    Það hefur komið fram hjá nokkrum yfirmönnum leyniþjónustu að þeir telji sig ekki mega njósna um eigin borgara en það sé réttur þeirra og jafnvel skylda gagnvart ríki sínu að afla eins mikilla upplýsinga um erlenda borgara og nauðsyn krefur. Þar sem hver borgari er að jafnaði „innlendur“ í einu ríki en útlendingur í 190 ríkjum, telja mjög margar leyniþjónustur sig hafa heimild og að eigin mati ástæðu til að rannsaka hann. Þar sem netið er alþjóðlegt verður þessi gagnasöfnun yfirþyrmandi og heldur lítið eftir órannsakað hjá hverjum einasta borgara á jörðinni.
    Þessi opinbera ríkisgagnaöflun bætist við gífurlega söfnun gagna hjá einkafyrirtækjum sem ganga kaupum og sölum. Með þeim er unnt að kortleggja skoðanir fólks og spá fyrir um hegðun þess. Það getur verið vafasamt ef slíkar upplýsingar blandast inn í t.d. stjórnmáladeilur, kosningabaráttu eða framgang fólks í starfi eða námi. Ekkert virðist hægja á þróun gagnageymslu, tölvuvinnslu eða söfnun gagna, t.d. með gervitunglum. Þessi þróun stefnir í enn meiri möguleika á víðtækara eftirliti með einstaklingnum.
    Hakkarar eru enn einn áhættuþátturinn en þeir geta fræðilega séð brotist inn í hvaða gagnagrunn sem er. Það sem getur gerst mun gerast – einhvern tíma. Geymsla símafyrirtækja á símtölum í allt að 6 mánuði eru t.d. afskaplega viðkvæm og hættuleg gögn sem einhver ræður yfir núna og hefur aðgang að. Þó almannahagsmunir kalli á slíka geymslu til þess að geta rakið glæpastarfsemi er spurning hvort þeir hagsmunir blikni ekki við hliðina að því gífurlega tjóni sem stuldur eða óleyfileg notkun slíkra gagna getur valdið, hvort sem sá stuldur er opinber eða ekki. Það er þekkt úr alræðisríkjum sem stunduðu persónunjósnir á borgurum sínum, t.d. Sovétríkin eða Austur-Þýskaland, að slíkar njósnir höfðu mjög afdrifarík áhrif á samfélagið. Fólk treysti hvorki vinum sínum né ættingjum, jafnvel foreldrar treystu ekki börnum sínum eða börn foreldrum. Tortryggni varð yfirgnæfandi í samskiptum fólks. Hætt er við að slíkt gerist ef ekki tekst að finna lausn á þessu umfangsmikla eftirliti með einstaklingnum. Þar sem netið er alþjóðlegt verður lausnin líka að vera alþjóðleg, bundin í sáttmála sem gildir um alla jörð, fyrir öll ríki.

Lausnir til verndar borgaranum.
    18. desember 2013 samþykkti þriðja nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um félags- og mannréttindamál, drög að ályktun um friðhelgi einkalífs á tölvuöld (e. The right to privacy in the digital age). Þar kemur í fyrsta skipti fram á þeim vettvangi að mannréttindi séu óháð miðli og eigi jafnt við í rafrænum miðlum sem og samfélaginu öllu.
Í fréttatilkynningu frá 19. desember 2013 hvetur allsherjarþingið allar þjóðir til að vernda sömu réttindi til einkalífs í rafrænum miðlum og í samfélaginu.
    Slíkar ályktanir eru ekki bindandi og eins og áður segir eru staðbundin lög gagnslítil gagnvart internetinu, sem er alþjóðlegt.
    Hinn 18. nóvember sl. sagði dr. Frank-Walter Steinmeier (SPD), núverandi utanríkisráðherra Þýskalands, við umræðu á þýska sambandsþinginu: „Við þurfum virkilega eitthvað – ég hef þegar gefið það í skyn – eins og þjóðarétt á netinu. Við verðum að ná því. Til þess eru stjórnmálin.“
    10. desember sl. birtu 562 listamenn ákall sem þeir nefndu Í þágu lýðræðis á tölvuöld:
    „Á síðustu mánuðum hefur það komist á allra manna vitorð hve útbreiðsla eftirlits með almenningi er orðin mikil. Með fáeinum músarsmellum getur ríkið fengið aðgang að farsímanum þínum, tölvupóstinum þínum, félagslegu tengslaneti þínu og hverju þú leitar að á netinu. Það getur fylgst með stjórnmálaskoðunum þínum og athöfnum og í samvinnu við netfyrirtækin safnar það saman og geymir gögnin þín, og getur þannig spáð fyrir um neyslu þína og hegðun.
    Grundvallarstoð lýðræðis er órjúfanleg friðhelgi einstaklingsins. Friðhelgi mannsins nær út fyrir líkamann einan. Allir menn eiga rétt á því að hvorki sé fylgst með né abbast upp á hugsanir þeirra, persónulegt umhverfi þeirra og samskipti.
    Þessi grundvallarmannréttindi hafa verið gerð að engu með því að ríki og fyrirtæki hafa misnotað þróun tækninnar til þess að hafa eftirlit með almenningi.
    Sá sem er undir eftirliti er ekki lengur frjáls; samfélag undir eftirliti er heldur ekki lengur lýðræði. Til þess að lýðræðisleg réttindi okkar haldi einhverju gildi verða þau að taka til sýndarheimsins ekki síður en raunheimsins.
          Eftirlit brýtur gegn einkarými okkar og stofnar hugsana- og skoðanafrelsi í hættu.
          Með fjöldaeftirliti er komið fram við hvern einasta borgara sem mögulega grunaðan mann. Þar með er kollvarpað einum helsta sigri sögunnar, að gert sé ráð fyrir sakleysi hvers manns.
          Eftirlit gerir einstaklinginn gegnsæjan, á meðan ríkið og fyrirtækin starfa með leynd. Þessi völd hafa verið misnotuð með kerfisbundnum hætti, eins og við höfum séð.
          Eftirlit er þjófnaður. Þessi gögn eru ekki opinber eign: Þau tilheyra okkur. Þegar þau eru notuð til að spá fyrir um hegðun okkar, þá er öðru stolið frá okkur: Þeirri meginreglu að frjáls vilji sé grundvallaratriði í lýðfrelsi okkar.
    VIÐ GERUM KRÖFU til þess að allir menn, sem lýðræðislegir borgarar, hafi þann rétt að ákveða að hvaða marki safna megi saman, geyma og vinna úr persónugögnum þeirra, og hverjir megi gera það; að fá upplýsingar um það hvar gögn þeirra eru geymd og hvernig þau eru notuð; að fá því framgengt að gögnum þeirra verði eytt ef þeim hefur verið safnað saman og geymd með ólöglegum hætti.
    VIÐ SKORUM Á öll ríki og fyrirtæki að virða þessi réttindi.
    VIÐ SKORUM Á alla einstaklinga að stíga fram og verja þessi réttindi.
    VIÐ SKORUM Á Sameinuðu þjóðirnar að viðurkenna grundvallarmikilvægi þess að verja borgararéttindi á tölvuöld, og að semja alþjóðlega yfirlýsingu um stafræn réttindi.
    VIÐ SKORUM Á öll stjórnvöld að undirrita og hlíta slíkri yfirlýsingu.“
    Það er í anda þessa ákalls sem þingsályktunartillaga þessi er flutt.



Fylgiskjal.


Pétur H. Blöndal:

Skýrsla um ferð til Berlínar í þýska sambandsþingið,
Bundestag, 15. janúar 2014.

Um ferðina.
    Undirritaður fór á vegum Alþingis og í umboði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til Berlínar til að afla upplýsinga frá fyrstu hendi um hvernig þýska sambandsþingið, Bundestag, hygðist bregðast við uppljóstrunum um víðtækar njósnir Bandaríkjamanna á borgurum víða um heim. Þýskaland varð fyrir valinu því að í ljós höfðu komið áralangar njósnir Bandaríkjamanna um kanslara landsins auk þess sem þingmaður landsins hafði farið til Moskvu og hitt Edward Snowden, uppljóstrarann sem opnaði augu heimsins fyrir gagnaöflun Bandaríkjamanna.
    Í ferðinni hittum við þrjá þýska þingmenn í Bundestag bæði frá ríkisstjórnarflokkunum og einnig stjórnarandstöðunni, þá Hans-Christian Ströbele, þingmann Grænna, dr. Hans-Peter Uhl, þingmann CSU (bæversks systurflokks CDU Angelu Merkel) og Wolfgang Bosbach, þingmann CDU. Fundirnir voru haldnir 15. janúar 2014 og voru skipulagðir af Gunnari Snorra Gunnarssyni, sendiherra í Berlín, sem einnig tók þátt í þeim. Ég naut aðstoðar sonar míns, Davíðs Blöndal, í ferðinni en hann þáði hvorki dagpeninga né laun fyrir.

Fundur með Ströbele.
    Hans-Christian Ströbele er eini þingmaður Grænna sem náði beinni kosningu á þing í kjördæmi sínu (Kreuzberg í Berlín). Hann vakti mikla athygli þegar hann fór til Moskvu sl. haust til fundar við Edward Snowden og kom til baka með þau skilaboð að Snowden vildi gjarnan koma til Þýskalands til að bera vitni fyrir þýska þinginu en færi fram á það að fá dvalarleyfi og tryggingu fyrir að verða ekki framseldur til Bandaríkjanna. Ströbele situr einnig í þingnefnd sem fylgist með störfum þýsku leyniþjónustunnar og hefur haft sig mjög í frammi í umræðu um hlerunarmál á þýska þinginu og utan þess sem og unnið ötullega að því að upplýsa um hneykslið.
    Strax í upphafi fundar sagði Ströbele að það liti ekki vel út með að ná samningum við Bandaríkin um að láta af njósnum á þýskum ríkisborgurum. Bandaríkin virtust ekki reiðubúin til þess að skuldbinda sig með slíkum hætti og litu til fordæmisgildis gagnvart öðrum þjóðum. Þeir geti látið af hlerunum þýskra ráðamanna en erfiðara viðfangs er að setja þá skuldbindingu í lagalegan búning. Erfitt hefur verið að fá á hreint hvað gerst hefur, þýska þingið hafi sent spurningar til ráðamanna í Bandaríkjunum strax í júní en engin svör hafa borist. Í heimsókn Ströbele til Moskvu hefði hann spurt Snowden hvort hann gæti upplýst nánar og betur um bakgrunn hlerana en það sem komið hefði fram í fjölmiðlum og staðfesti Snowden að svo væri. Slíkar upplýsingar gæti hann hins vegar ekki gefið í fjaryfirheyrslu frá Rússlandi, sem óhjákvæmilega yrði undir rússnesku eftirliti.
    Ströbele taldi brýnt að setja upp sérstaka rannsóknarþingnefnd í þýska þinginu. (Slík nefnd hefur nú verið sett á laggirnar.) Stjórnarandstaðan hefði að vísu ekki þingstyrk til þess að þvinga fram að setja slíka nefnd á stofn en hljómgrunnur væri fyrir því í þinginu engu að síður. Ríkisstjórnin hefði ekki léð máls á því að veita Snowden hæli, sem væri miður því að Snowden vildi mjög gjarnan flytja sig um set og búa í lýðræðisríki. Ströbele vísaði einnig til þess að Ísland hefði komið til tals í þessu samhengi. Ströbele sagði að Snowden hefði ekki tekið gögn með sér og hann hefði ekki látið Rússlandi eða Kína nein gögn í té. Gögnin væru í höndum fréttamanna og það væri ekki nema eðlilegt að það tæki langan tíma að vinna úr þeim. Snowden væri mjög meðvitaður um þá áhættu sem hann hefði tekið. Í Þýskalandi væru 60% aðspurðra þeirrar skoðunar að hann væri hetja og hann sagðist sjálfur líta á sig sem sannan föðurlandsvin Bandaríkjanna.
    Þróun þessara mála í Bandaríkjunum er Ströbele mjög hugleikin og hann bindur nokkrar vonir við það að bandarískir dómstólar geti gripið í taumana. Þegar væru komnir dómar undirréttar um að starfsemi NSA bryti í bága við stjórnarskrárbundin réttindi. Gjarnan væri hent á lofti að starfsemin snúist um að koma í veg fyrir hryðjuverk en greinilegt væri að tilgangur að baki væri allur annar. Hann hefði sem meðlimur eftirlitsnefndar með þýsku leyniþjónustunni gengið eftir því hverju hleranir hennar hefðu skilað við að hafa hendur í hári hryðjuverkamanna. Fyrst var sagt að benda mætti á sjö til átta dæmi en við nánari skoðun var ekki hægt að benda á neitt ákveðið dæmi. Þýska leyniþjónustan hefði einnig verið beðin um svör við því hvernig NSA hafi getað komist svo langt án mótaðgerða eða án þess að Þjóðverjar gætu rönd við reist og svörin voru að þeir hefðu ekki viljað hlera vinaþjóð og því ekki fylgst með aðgerðum NSA.
    Undirritaður benti á þá stöðu sem uppi væri þegar öll ríki teldu sig geta njósnað um og hlerað ríkisborgara annarra þjóða. Sérhver væri erlendur í augum allt að 190 ríkja og innlendur hjá einu og því allir einstaklingar berskjaldaðir fyrir hlerunum meiri hluta ríkja heims.
    Í kjölfar heimsóknar Ströbele til Snowdens hafa nokkrir þingmenn komið að máli við hann, m.a. frá Svíþjóð, Bretlandi, Austurríki, Spáni og Ítalíu, og rætt um möguleika þess að standa fyrir sameiginlegum aðgerðum af einhverju tagi. Ef Ísland hefði hug á slíku væri hann persónulega því mjög hlynntur. Hann liti á Ísland sem Evrópuland, hvað sem liði umsóknarferli um ESB-aðild.

Fundur með dr. Hans-Peter Uhl.
    Næsti fundur var með dr. Hans-Peter Uhl, þingmanni CSU. Hann situr í utanríkismálanefnd, nefnd um kosningar og friðhelgi og í svonefndu öldungaráði sem er þingforseta til ráðgjafar um störf þingsins. Hann hefur og verið í eftirlitsnefnd með þýsku leyniþjónustunni og er sem stendur annar tveggja lögfræðilegra ráðgjafa þingflokks CDU/CSU.
    Undirritaður opnaði fundinn með því að segja að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði miklar áhyggjur af þeim uppljóstrunum sem fram hefðu komið og sérstaklega þeirri umræðu sem fram hefði farið í Þýskalandi. Honum hefði því verið falið að komast að því frá fyrstu hendi hvort Þjóðverjar hygðust gera eitthvað í málinu og þá hvað, hvaða stefnu þeir hygðust taka til framtíðar og hvernig þeir sæju tækniþróun næstu ára fyrir sér.
    Dr. Uhl hafði áhyggjur af því að allt málið í kringum Snowden gæti alið á andstöðu við Bandaríkin. Málið hefði fyrst komið upp í sumar eftir að Spiegel hefði gert umfangsmiklar hleranir NSA að forsíðufrétt. Þá þegar hefði verið efnt til funda í þinginu. Hann teldi hins vegar sjálfur að Snowden hefði ekki alltaf haft fullan skilning á því sem hann væri að greina frá. Hann væri verktaki fremur en starfsmaður NSA og hefði ekki alltaf haft forsendur til að greina rétt þau gögn sem hann hafði undir höndum. Þá hefði málið snúist um svokallaðar „metaupplýsingar“, þ.e. meira um það hver hringdi í hvern fremur en innihald símtala og hefðu eftirgrennslanir aðallega beinst að mönnum sem tengst höfðu Afganistan. Athugun hefði leitt í ljós að þýskir embættismenn hefðu ekki gert neitt rangt. Yfirmaður skrifstofu Þýskalandskanslara, Pofalla, hefði þá gefið yfirlýsingu um að málið væri afgreitt og reyndin væri sú að þetta hefði lítil áhrif haft á kosningar.
    Þegar upp hefði komist að farsími Angelu Merkel hefði verið hleraður blossaði umræðan aftur upp. Fremstir hafi farið þeir sem eru á móti Bandaríkjunum, en einnig þeir sem hafa áhyggjur af persónuvernd. Einnig hefði borið á óróa innan stjórnarliðsins. Spurningar hefðu vaknað um hvort Bandaríkin væru ekki einnig á höttunum eftir viðskiptatengdum upplýsingum. Það væri ekki hægt að útiloka það. Bandaríkjamenn sjálfir bera á móti því með þeim rökum að jafnvel þótt þeir hefðu viðskiptaupplýsingar undir höndum þá gætu þeir ekki látið þær ganga til fyrirtækja, því með því móti væru þeir að mismuna fyrirtækjum, og það kæmi ekki til greina, sem væri ekki ýkja sannfærandi.
    Viðræður um að láta gagnkvæmt af njósnum (no-spy-samningar) hefðu farið vel af stað en nú væri svo komið að allt stæði fast. Bandaríkjamenn virtust ekki vilja halda áfram að semja á þessum nótum. Almennt væri álitið að almennar yfirlýsingar dygðu skammt, meira þyrfti til og Bandaríkjamenn væru ekki reiðubúnir til að gera það sem þyrfti. Þeir hefðu til að mynda ekki gert slíka samninga við nánustu bandamenn sína, Bretland, Kanada, Ástralíu, eða Nýja-Sjáland. Sjálfur telur dr. Uhl takmarkað gagn vera að slíkum samningi þar sem ekki sé hægt að fylgjast með efndum eða draga fólk til ábyrgðar.
    Dr. Uhl mun ekki fallast á að bjóða Snowden til landsins því að þá væri hann á þeirra ábyrgð og það dæmi þyrfti að skoða til enda því að hann þyrfti vörð til framtíðar o.s.frv.
    Á milli Evrópu og Bandaríkjanna væru hins vegar í gildi samningar um gagnaöryggi, svonefndir Safe Harbour-samningar. Þeir skipta bandarísk fyrirtæki máli því að annars væri ekki hægt að senda persónulegar upplýsingar milli móðurfyrirtækja í Bandaríkjunum og dótturfyrirtækja í Evrópu. Spurningin væri hvort Bandaríkin væru „Safe Harbour“ í skilningi samningsins.
    Tækniþróunin væri hröð þegar kæmi að upplýsingaskiptum, Google, Facebook, meira að segja heimilistæki væru farin að tala saman og gætu gefið upplýsingar um lífsmunstur og hegðun hvers einstaklings, upplýsingar sem væru milljarða virði. Dr. Uhl kvaðst almennt hafa áhyggjur af þessari þróun. Einstaklingar fá frían aðgang að netmiðlum en borga í raun fyrir með því að gefa upplýsingar.
    Það er munur á upplýsingaöflun í ESB og Bandaríkjunum. Í ESB þarf leyfi til að safna gögnum hvað þá að vinna úr þeim en í Bandaríkjunum þyrfti ekki leyfi til að safna gögnum, sem allir gætu gert, en það þarf leyfi til að vinna úr þeim.
    Erfitt er að sjá hvernig hægt væri að fá fram lausn nema með því að Evrópuríkin stæðu saman. Á sínum tíma, upp úr 1970, hefði Franz Josef Strauss (flokksbróðir Uhl) bent á að Evrópa gæti ekki unað því að vera háð Boeing þegar kæmi að flugsamgöngum. Þá hefði verið sagt að það væri of seint að gera nokkuð í því, samkeppnisforskot Bandaríkjanna væri slíkt. Samt hefði tekist að koma Airbus af stað og væri það vel. Internetið væri að verða mikilvægara en flugsamgöngur og Evrópa þyrfti að efla aðkomu sína að internetinu og ekki vera algerlega háð bandarískum fyrirtækjum.
    Aðspurður hvernig hann sæi þróun tækni við geymslu og vinnslu gagna næstu árin og hvernig slík þróun léki einstaklinga sem opinberir aðilar vissu æ meira um sagðist dr. Uhl vissulega hafa af því þungar áhyggjur og að leita yrði leiða til þess að sporna við þeirri upplýsingagjöf sem við stæðum frammi fyrir. Það væri verkefni tækni, hugvits og löggjafar að finna leiðir að því marki. Enn hefði engin lausn fundist og flest ríki væru upptekin af því að afla enn meiri upplýsinga um einstaklinga og fyrirtæki. Þá væri spurning um hverjir stjórni heiminum.

Fundur með Wolfgang Bosbach.
    Síðasti fundurinn var með Wolfgang Bosbach, þingmanni CDU. Hann er formaður innanríkismálanefndar þýska þingsins.
    Bosbach hefur safnað miklum upplýsingum um Snowden-málið og NSA og sagðist reiðubúinn til að veita aðgang að því upplýsingasafni ef fram kæmi nákvæm fyrirspurn. Hann sagði strax í upphafi að í sínum huga væri ekki hægt að draga upplýsingar Snowdens í efa því að annars hefðu Bandaríkjamenn gagnrýnt upplýsingarnar miklu hraðar og harðar og vísað þeim á bug sem röngum. Með víðtækum njósnaprógrömmum hefðu Bandaríkjamenn greinilega farið yfir strikið hvað varðar löglega öryggishagsmuni. Í öllu falli væri ekki hægt að réttlæta svo umfangsmiklar njósnir með því að þeir væru að verjast hættu. Þar fyrir utan væri mjög erfitt að gera skuldbindandi no-spy-samning við Bandaríkin því að þau hefðu svo mikla hagsmuni af því að takmarka ekki um of njósnavirkni sína.
    Bosbach trúir ekki á fullyrðingar Bandaríkjanna að þeir stundi ekki viðskipta- og iðnaðarnjósnir. Hann hefur rætt við öll stærstu gagnafyrirtækin (Google, Facebook, Microsoft o.fl.). Bandarísku fyrirtækin hefðu fullyrt að þau hefði alls engan eigin áhuga á því að deila upplýsingum en bandarísk lög (Patriot Act) neyðir þau því miður til þess.
    Mikilvægt væri nú að fylgjast með pólitískri og félagslegri þróun í Bandaríkjunum og sjá hvaða hömlur dómstólar þar setja leyniþjónustum. Til framtíðar sér Bosbach tvær leiðir færar, að skrifa undir þolanlegan no-spy-samning eða halda áfram að veita pólitíska pressu, t.d. með Safe Harbour-samningnum og Swift-samningnum. Báðum samningunum hefði nýverið verið komið á til hagsbóta fyrir Bandaríkin og þess vegna gætu menn ekki hætt við að gera no-spy-samning eins og ekkert sé. Aðspurður um stofnun rannsóknarþingnefndar sem er til umræðu í þýska þinginu taldi Bosbach slíka nefnd ekki hafa mikinn tilgang hvað varðar NSA-njósnirnar, því að hvorki þýddi að krefjast gagna né fá vitni frá Bandaríkjunum. Fólk þaðan yrði boðað til yfirheyrslu en mundi varla mæta.
    Bæði Bandaríkin og ESB hefði mikinn áhuga á fríverslunarsamningi en ef ekki kæmi til nothæfur no-spy-samningur þyrfti slíkt samkomulag að hafa mikla kafla um gagnavernd og gagnaöryggi. Með hliðsjón af þeirri staðreynd að 80% af heildarinternetgagnaumferð Þjóðverja fara um gagnaver í Bandaríkjunum hefðu menn þar mikla tæknilega möguleika að ná í gagnastrauminn. Þess vegna væri svo mikilvægt að aðgangur og geymsla gagnanna færi eftir grunnreglum réttarríkisins. Auk þess væri mikilvægt að byggja upp evrópskt mótvægi við markaðsvægi bandarísku internetfyrirtækjanna.
    Þýskaland njósnar líka í útlöndum en ekki um vinaþjóðir. Þýsku leyniþjónustunni væri beinlínis bannað að njósna um símasamband þýskra borgara. Aðeins tvisvar hefði þýska leyniþjónustan veitt Bandaríkjunum upplýsingar um einstaklingsgögn. Í báðum tilvikum hafi verið um gögn um þýsk borgara að ræða sem hafði verið rænt. Menn hefðu vonað að Bandaríkjamenn hefðu tæknilega getu til að staðsetja viðkomandi einstaklinga sem gæti mögulega frelsað þá.
    Fram kom hjá Bosbach að NSA væri með yfir 70.000 starfsmenn og að þar hefðu menn tæknilega getu til að ná í og geyma gögn, getu sem alls ekki er til í Evrópu, að minnsta kosti ekki í Þýskalandi.
    Aðspurður hvernig Þýskaland mundi bregðast við njósnum Bandaríkjamanna taldi Bosbach að innan Evrópuþjóða sem og milli þeirra mætti greina þrjá stóra hópa. Um þriðjungur hefur alvarlegar áhyggjur og er tilbúinn að gera eitthvað á móti þessum njósnum. Annar þriðjungur hefur einfaldlega ekki áhyggjur og síðasti þriðjungur hefur kannski áhyggjur en vill alls ekki hætta á að trufla stjórnmálalegt og efnahagslegt samstarf við Bandaríkin. Mjög erfitt verður að ná sameiginlegri afstöðu ESB-ríkja í þessu máli, líka vegna þess að Bretland væri álíka virkt í njósnum og Bandaríkin.
    Bosbach var ekki bjartsýnn á lausn á vanda borgarans, þar sem hvorki bandarískar né breskar leyniþjónustur væru reiðubúnar til að takmarka njósnastarfsemi sína þannig að eingöngu yrðu sótt og geymd gögn sem skipta máli varðandi öryggi og væru nauðsynleg til að verjast hættu.

Reykjavík, 2. apríl 2014,
Pétur H. Blöndal.