Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
2. uppprentun.

Þingskjal 899  —  67. mál.
Undirskriftir.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um samningu stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna.

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Helga Kristinsson, Hafstein Þór Hauksson, Pál Þórhallsson, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Hafdísi Ólafsdóttur.
    Framsögumaður málsins er Willum Þór Þórsson.
    Í þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að ráðherrar hennar feli viðkomandi þingnefndum, meiri hluta þeirra eða formanni ásamt hugsanlega öðrum þingmönnum að semja og ritstýra stefnumarkandi frumvörpum og þingsályktunartillögum sem þeir hyggjast flytja á Alþingi.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um áhrif þjóðkjörinna fulltrúa og hlutverk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds á lagasetningu og gæði lagasetningar. Fram kom að mun meiri breytingar eru gerðar á þingmálum í meðförum Alþingis en í þjóðþingum annarra Norðurlanda og að þar virðist ríkari áhersla lögð á að lagasetning sé samvinnuverkefni og meira lagt í undirbúning mála áður en unnið er að gerð lagafrumvarps.
    Nefndin telur mikilvægt að skoðað verði hvernig auka megi hlut Alþingis, þingflokka, þingnefnda og þingmanna við undirbúning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna sem leggja á fyrir Alþingi, m.a. í þeim tilgangi að auka gæði lagasetningar og skapa meiri sátt um málin. Nefndin telur einnig nauðsynlegt að auka eftirlit með innleiðingu og framkvæmd nýrra heildarlaga og telur nefndin mikilvægt að skoðað verði hvernig þingnefndir geti sem best sinnt því eftirlitshlutverki og veitt framkvæmdarvaldinu þannig meira aðhald.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd að skipa hóp sérfræðinga, þar á meðal fulltrúa þingflokka, sem kanni og komi með tillögur um hvernig auka megi hlut Alþingis, þingflokka, þingnefnda og þingmanna, við undirbúning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna sem leggja á fyrir Alþingi, svo og hvernig Alþingi og þingnefndir geti fylgst með og haft eftirlit með innleiðingu og framkvæmd nýrra heildarlaga á viðkomandi málefnasviði.

    Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk afgreiðslu málsins.


Alþingi, 13. maí 2014.

Ögmundur Jónasson,
form.
Brynjar Níelsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Karl Garðarsson. Pétur H. Blöndal. Sigrún Magnúsdóttir.
Valgerður Bjarnadóttir. Sigurður Páll Jónsson.