Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 544. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 920  —  544. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Árnason,
Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Pétur H. Blöndal, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson, Haraldur Einarsson,
Karl Garðarsson, Þórunn Egilsdóttir, Willum Þór Þórsson.

    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að efla virkniúrræði fyrir atvinnuleitendur og fjölga slíkum úrræðum. Í þeirri vinnu leiti ráðherra samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Ráðherra skili tillögum fyrir árslok 2014.

Greinargerð.

    Íslenskt atvinnulíf hefur glímt við nokkurt atvinnuleysi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Nýjar tölur benda til að atvinnuleysi sé nokkuð á undanhaldi og að sjá megi fram á bjartari tíma í efnahagsmálum og atvinnumálum. Seint verður þó sigrast á öllu atvinnuleysi og reynsla okkar og annarra vestrænna ríkja sýnir að ávallt verður einhver hluti atvinnufærra manna atvinnulaus á hverjum tíma. Mikilvægt er að búa til gott umhverfi fyrir atvinnuleitendur þar sem þeir fá aðstoð við að finna nýja vinnu, atvinnutengda starfsendurhæfingu og virkniúrræði sem henta hverjum og einum. Atvinnuleitendur geta þá á meðan á atvinnuleit stendur haldið áfram að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Það leiðir til sterkara sjálfstrausts og eflds sjálfsmats sem hjálpar fólki að takast á við nýjar áskoranir í lífinu. Hér er lagt til að ráðherra efli það starf sem nú þegar er unnið í virkniúrræðum fyrir atvinnuleitendur og leitist jafnframt við að koma á nýjum virkniúrræðum í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.
    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið fyrir mörgum verkefnum og virkniúrræðum fyrir atvinnuleitendur. Sérstaklega hefur verið horft til ungs fólks og nauðsyn þess að virkja það með því að bjóða því upp á starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttöku í öðrum góðum verkefnum. Má í þessu skyni nefna verkefnin Ungt fólk til athafna, Atvinnutorg, sem var sérstaklega ætlað fólki yngra en 25 ára og var samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og tiltekinna sveitarfélaga, og fjölsmiðjur sem eru vinnusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16–24 ára og eru starfræktar á þremur stöðum á landinu, í Kópavogi, á Akureyri og í Reykjanesbæ. Mikilvægt er að ungu fólki sé boðið upp á virkniúrræði sem henta hverjum og einum og eru til þess fallin að auka hæfni í tengslum við þátttöku á vinnumarkaði. Almennt má skipta úrræðum í námsúrræði og atvinnutengd úrræði og fer val á úrræði eftir þörfum hvers og eins. Aðrar vinnumarkaðsaðgerðir, sem nefna má og farið hefur verið í síðustu ár, eru Þor – þekking og reynsla sem ætlað er fólki 30 ára og eldra, Nám er vinnandi vegur og ýmis úrræði á vegum Vinnumálastofnunar, en þar hefur m.a. verið boðið upp á námsúrræði, sjálfboðaliðastörf, atvinnutengda endurhæfingu, starfsþjálfun og fleira. Um þörf verkefni hefur verið að ræða sem margir hafa notið góðs af, en lengi má gott bæta. Flutningsmenn telja að horfa þurfi til þess í auknum mæli að atvinnuleitendum verði einnig boðið að stíga inn í ýmis þörf störf sem unnin eru samfélaginu öllum til góða og að þar megi lengi bæta við góðu fólki til að gera gott starf enn betra.
    Flutningsmenn horfa sérstaklega til ýmissa starfa er tengjast samfélagslegum málefnum, svo sem aðstoð við aldraða á dvalarheimilum, störf í umhverfismálum líkt og skógrækt o.fl., ýmiss konar verkefni á vegum sveitarfélaga, sjálfboðaliðastörf fyrir frjáls félagasamtök sem vinna að góðum málum, einnig má nefna aðstoð við ræstingar hjá íþróttafélögum, aðstoð í öðru æskulýðsstarfi við hæfi og fleiri störf þar sem lengi má bæta við góðu fólki. Í þessu skyni er nauðsynlegt að skoða að settar verði lagaheimildir um að það verði skilyrði greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði að atvinnuleitendur taki þátt í virkniúrræðum við hæfi og leggi á þau góða ástundun. Rétt er að atvinnuleitendur fái nokkurn tíma, 2–4 mánuði, til að leita nýrrar vinnu áður en skylda til þátttöku í virkniúrræðum verður virk. Að sjálfsögðu er einnig gert ráð fyrir því að á meðan á þátttöku í virkniúrræðum stendur leiti atvinnuleitendur áfram að atvinnu við hæfi. Eðlilegt er að horft skuli til samfélagslega mikilvægra verkefna af þessu tagi fyrir þá atvinnuleitendur sem kjósa að fara ekki í nám. Jafnframt þarf að huga að réttindum þeirra meðan á starfi stendur svo sem tryggingum og hæfilegum greiðslum og þá er eðlilegt að fólk sem stundar vinnu í gegnum virkniúrræði sem þessi njóti desemberuppbótar á hverju ári.
    Telja má að með þessari viðbót við þau virkni- og vinnumarkaðsúrræði, sem þegar eru til staðar, verði stuðlað að því að atvinnuleitendur verði virkir þátttakendur í samfélaginu með því að vinna að þörfum málefnum.