Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 922  —  179. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og lögum
um vörugjald (staðgengdarvörur kúamjólkur).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands og Þórarin Egil Sveinsson frá Örnu ehf. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Astma- og ofnæmisfélaginu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, landlæknisembættinu, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og tollstjóra.
    Megintilgangur þessa frumvarps er að gera þann hóp fólks, sem ekki getur neytt mjólkur vegna mjólkurofnæmis eða mjólkuróþols, jafnsettan þeim sem neytir mjólkur. Fyrir fyrrgreinda hópinn eru staðgengdarvörur mjólkur mikilvægur þáttur þess að viðhalda eðlilegum lífsgæðum. Það sama á við um þá sem kjósa að neyta ekki mjólkur af öðrum ástæðum.
    Nefndin bendir á að verð á staðgengdarvöru mjólkur er margfalt hærra en verð kúamjólkur og því ljóst að mjólkurkaup koma hart niður á þeim sem neyta staðgengdarvara hennar. Nefndin telur tilefni til þess að draga úr þessum mun með því að fella niður tolla og vörugjöld á sojamjólk, hrísmjólk, hnetumjólk, möndlumjólk og haframjólk.
    Þær umsagnir sem nefndinni hafa borist eru almennt jákvæðar í garð málsins. Vakin er athygli á því í umsögn tollstjóra að í b-lið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrirsögn „vöruliðarins“ 2202.9040 muni orðast á ákveðinn hátt. Ekki er um að ræða vörulið í þessu tilviki heldur undirlið. Nefndin leggur til breytingu í samræmi við ábendingu tollstjóra.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðsins „vöruliðarins“ í inngangsmálslið b-liðar 1. gr. komi: undirliðarins.

    Árni Páll Árnason og Vilhjálmur Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir nefndarálit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 3. apríl 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Guðmundur Steingrímsson,


frsm.

Pétur H. Blöndal.



Willum Þór Þórsson.


Árni Páll Árnason.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Vilhjálmur Bjarnason.