Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 368. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 932  —  368. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur
um afstöðu þingmanna við atkvæðagreiðslu á Alþingi 16. júlí 2009
um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.


     1.      Hvaða atkvæðaskýringar, yfirlýsingar eða önnur gögn búa að baki þeim staðhæfingum sem fram hafa komið hjá ráðherra um að leiða megi að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir ályktun Alþingis 16. júlí 2009 um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur hafi hún verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna?
    Á það skal bent að í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar hinn 16. júlí 2009 um þingsályktunartillögu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var gríðarmikill pólitískur þrýstingur í þá veru af hálfu annars þáverandi ríkisstjórnarflokka að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Líta ber til umræðna á Alþingi um tillöguna og aðdraganda þeirrar umræðu í því samhengi. Þá hefur ítrekað komið fram í skrifum, viðtölum og ræðum einstakra þingmanna og ráðamanna og í fræðigreinum að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið undir miklum þrýstingi í aðdraganda umræddrar atkvæðagreiðslu. Ekki telst ástæða til að tíunda frekar þá umræðu eða einstök ummæli, enda á almannavitorði. Auk þess má telja ólíklegt, þótt ekki sé með öllu óþekkt, að þingmenn greiði atkvæði á einn veg en lýsi svo yfir öndverðri sannfæringu síðar.
    Í 48. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Ekki eru efnislegar forsendur til að draga í efa að þorri þingmanna stjórnarmeirihlutans hafi fylgt sannfæringu sinni eins og hún birtist í atkvæðagreiðslu. Slíkt mun sjálfsagt verða rannsóknarefni þar til bærra fræðimanna á næstu missirum.

     2.      Ef ekki var meirihlutavilji á Alþingi 16. júlí 2009 fyrir ályktun þingsins um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu samkvæmt þeim gögnum sem ráðherra hefur, hver var þá hinn eiginlegi meiri hluti og hvernig var hann skipaður? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti um afstöðu einstakra þingmanna sem ráðherra telur hafa greitt atkvæði með öðrum hætti en afstaða þeirra í atkvæðagreiðslunni sagði til um.
    Vísað er til svars við fyrri tölulið og þá sér í lagi tilvísunarinnar í 48. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.