Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 934  —  385. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni um afnám gjaldeyrishafta.


     1.      Hvenær var formlega samþykkt í ríkisstjórn að stofna ráðgjafarhóp um afnám gjaldeyrishafta?
    Ráðherranefnd um efnahagsmál samþykkti á fundi sínum 18. október 2013 að kveðja sér til ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga um afnám fjármagnshafta. Ráðgjafar voru skipaðir af forsætisráðherra 27. nóvember 2013.

     2.      Hvert er erindisbréf hópsins og hvar hefur það verið birt?
    Forsætisráðherra skipaði sex ráðgjafa í ráðherranefnd um efnahagsmál til ráðuneytis um afnám fjármagnshafta. Ráðgjafar voru ekki skipaðir í nefnd eða starfshóp og var í sjálfsvald sett hvort þeir ynnu einir sér eða saman í smærri hópum eða allir sameiginlega að viðfangsefni sínu. Af þessum sökum var í skipunarbréfi til ráðgjafanna hvorki kveðið á um formann né nöfn annarra ráðgjafa.
    Skipunarbréf ráðgjafanna hefur ekki verið birt opinberlega. Það er svohljóðandi:
    „Ríkisstjórnin samþykkti í mars 2011 áætlun um losun fjármagnshafta, sem unnin var af Seðlabanka Íslands í samráði við stjórnvöld. Áætlunin skiptist í tvo áfanga og er markmið fyrri áfanga að lækka stöðu aflandskróna, en í seinni áfanga að losa höft á aðrar krónur. Áætlun sú sem kynnt var í mars 2011 var samin þegar ekki hafði náðst full yfirsýn yfir þann vanda sem við var að eiga og umfang hans var um margt óþekkt eða vanmetið, einkum með tilliti til stöðu þrotabúa gömlu bankanna. Mun betri upplýsingar liggja nú fyrir um skulda- og eignastöðu þeirra og sérstök greining hefur verið gerð á innlendri eignastöðu búanna. Undirbúningur að endurskoðun áætlunarinnar hefur staðið yfir allt frá hausti 2012 af Seðlabankanum, og hefur verið fjallað um þá endurskoðun í samráðsnefnd þeirra aðila sem að þessu máli koma.
    Á fundi sínum þann 18. október sl. ákvað ráðherranefnd um efnahagsmál að skipulag um afnám fjármagnshafta verði á þann veg að yfirstjórn verkefnisins verði hjá stýrinefnd um afnám hafta sem verði undir forsæti fjármála- og efnahagsráðherra. Í nefndinni situr jafnframt annar fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis, tveir fulltrúar tilnefndir af forsætisráðherra og einn tilnefndur af Seðlabanka Íslands. Nefndin mun með reglubundnum hætti eiga sameiginlega fundi með ráðherranefnd um efnahagsmál og leggja tillögur sínar fyrir hana.
    Þá ákvað ráðherranefndin að kveðja sér til ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga sem búi yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármála, gjaldeyrismála og gjaldþrotaréttar. Hlutverk þeirra verði m.a. að vinna úr tölfræðilegum upplýsingum um stöðu þjóðarbúsins, leggja heildarmat á stöðuna og koma með tillögur til ráðherranefndar um efnahagsmál og stýrinefndar. Ráðgjafar geti leitað sér upplýsinga úr stjórnkerfinu eftir þörfum og geti einnig leitað eftir aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga, innlendra eða erlendra.
    Þér eruð hér með skipaðir sem ráðgjafi um afnám fjármagnshafta. Ráðgjafar um afnám fjármagnshafta skulu gæta fyllsta trúnaðar og undirrita yfirlýsingu þar að lútandi. Sérstaklega skal gæta að því að í tengslum við störf ráðgjafanna kunna þeir að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljast þar með innherjar, sbr. XIII. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.“

     3.      Af hverju hefur ekki verið birt opinberlega tilkynning um stofnun hópsins?
    Ráðherranefnd um efnahagsmál og stýrinefnd um afnám fjármagnshafta vinna að undirbúningi afnáms fjármagnshafta með ýmsum hætti. Meðal annars þarf að vinna ítarlega vinnu við að greina greiðslujöfnuð Íslands til langs tíma með hliðsjón af mögulegum sviðsmyndum vegna uppgjörs slitabúa fallinna banka. Vinna ráðgjafanna er hluti af þessum undirbúningi. Ekki var talið rétt að greina opinberlega frá undirbúningi ráðherranefndar og stýrinefndar. Æskilegt er að ráðgjafar og aðrir þeir sem að undirbúningnum koma geti unnið verk sitt án utanaðkomandi áhrifa og þrýstings. Langtímahagsmunir þjóðarinnar fara ekki saman við hagsmuni margra þeirra aðila sem eiga kröfur í íslenskum krónum og tengjast hruni íslenska fjármálakerfisins árið 2008. Íslensk stjórnvöld telja því ekki rétt að greina opinberlega frá hverju skrefi sem tekið er í því skyni að leysa úr þeim greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að þjóðarbúinu, sbr. 1. tölul. 6. gr. og 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem sérstaklega er veitt heimild til að takmarka aðgang að upplýsingum sem varða efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Tilteknar upplýsingar um vinnu ráðgjafanna hafa hins vegar birst opinberlega á síðustu vikum, m.a. í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta.

     4.      Hvort er um að ræða tímabundið verkefni eða ótímabundið?
    Framangreint skipunarbréf til ráðgjafanna kveður ekki á um tímafresti í vinnu þeirra fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál. Í samningi sem gerður hefur verið við einstaka ráðgjafa segir hins vegar að verktími skuli vera frá 27. nóvember 2013 til 31. mars 2014. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvort framhald verði á starfi ráðgjafanna og þá í hvaða formi.

     5.      Eru ritaðar fundargerðir af fundum hópsins?
    Í þeim tilvikum þar sem ráðgjafar hafa kosið að hittast sameiginlega til að ræða einstök mál hefur fulltrúi ráðuneytisins setið fundina jafnframt. Hefur hann ritað minnispunkta um það sem fram hefur komið á þeim fundum til afnota fyrir ráðuneytið, en ekki er um eiginlegar fundargerðir að ræða. Ekki hefur verið haldið utan um fundi einstakra ráðgjafa við þriðju aðila eða fundi ráðgjafa í smærri hópum.

     6.      Hvort er um að ræða starfsnefnd, starfshóp eða ráðgjafa ríkisstjórnarinnar? Ef um óformlegan hóp er að ræða, hver er þá stjórnsýsluleg staða hans?
    Ráðgjafar um afnám fjármagnshafta þjóna því hlutverki að vera uppspretta hugmynda um þjóðhagslega hagkvæmt afnám fjármagnshafta og skulu jafnframt smíða tillögur í kringum þær hugmyndir. Þeir eru ráðgjafar ráðherranefndar um efnahagsmál en hafa ekki verið skipaðir í nefnd eða starfshóp. Ráðgjafar hafa ekki ákvörðunarvald í neinum málum er viðkoma afnámi hafta og eru ekki opinberir starfsmenn. Þeir hafa fengið í hendur skipunarbréf auk þess sem gerður hefur verið samningur við einstaka ráðgjafa. Í samningi og þagnarheiti sem þeir hafa skrifað undir er gerð grein fyrir stöðu þeirra og meðhöndlun upplýsinga.

     7.      Mun hópurinn skila skýrslu og til hvaða ráðherra?
    Ráðgjafar hafa skilað forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra tillögum sínum.

     8.      Hafa verið gerðir ráðningarsamningar við einstaklinga í hópnum og hver eru laun þeirra?
    Ráðningarsamningar hafa verið gerðir við einstaka ráðgjafa með verktíma frá 27. nóvember 2013 til 31. mars 2014. Þóknun er tvískipt. Annars vegar er kveðið á um fastan tímafjölda á mánuði og hins vegar er greitt sérstaklega fyrir skýrsluskrif og sérstakar athuganir umfram fastan tímafjölda. Tímagjald er 17 þús. kr.

     9.      Hversu margar konur og hversu margir karlar eru í hópnum? Samræmist skipan einstaklinga í hópinn ákvæðum jafnréttislaga um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera og stefnu ríkisstjórnarinnar um jafna stöðu kynjanna?
    Þeir ráðgjafar sem samið var við í nóvember sl. eru sex talsins, allt karlar. Ákvæði 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, á ekki við um samninga þá sem gerðir voru við ráðgjafana.

     10.      Telur ráðherra hugsanlegt að það sé ekki í samræmi við góða stjórnsýslu að láta hjá líða að kynna viðeigandi fagnefndum Alþingis stofnun ráðgjafarhóps sem á að gera ríkisstjórninni tillögur um verkefni sem hún hefur skilgreint sem eitt hið mikilvægasta sem við blasir, afnám gjaldeyrishafta?

    Vinna ráðgjafanna er liður í umfangsmiklum undirbúningi ráðherranefndar og stýrinefndar að afnámi fjármagnshafta. Annar liður í þessum undirbúningi er samráð á milli Alþingis og framkvæmdarvalds í nefnd fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Skipulag vinnu við afnám hafta, m.a. aðkoma ráðgjafanna, var kynnt á fyrsta fundi þessarar nefndar 1. nóvember 2013. Vinna ráðgjafanna var síðan kynnt sérstaklega á fundi samráðsnefndarinnar 4. febrúar sl.