Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 943  —  360. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um rekjanleika í tölvukerfum ráðuneytisins.


     1.      Er rekjanleiki fyrir hendi í einhverjum þeirra kerfa sem ráðuneytið notar og er haldin „log“-skrá hjá ráðuneytinu?
    Í ráðuneytinu er haldin málaskrá yfir send og móttekin erindi, minnisblöð og önnur skjöl er varða afgreiðslu mála. Í henni má sjá lista yfir skjöl sem hver starfsmaður býr til. Ekki er haldin sérstök skrá (log) yfir allar aðgerðir hvers starfsmanns.
    Í bókhaldskerfi ríkisins er sömuleiðis hægt að rekja hver höfundur hverrar bókhaldsfærslu er. Ekki er sérstaklega haldið utan um aðgerðasögu hvers starfsmanns.
    Í tölvupóstkerfi ráðuneytisins eru upplýsingar um samskipti varðveitt í 1–3 vikur sem hér segir: Upplýsingar um sendanda, móttakanda, tíma og efnislínu tölvupósts eru geymdar í eina viku. Upplýsingar um netföng, sem sendur hefur verið tövupóstur á frá ráðuneytinu, og hvaða netföng fengu sendan sama póst, eru geymdar í þrjár vikur. Texti í meginmáli tölvupósts er ekki geymdur.

     2.      Hvernig er haldið utan um sögu aðgerða notenda í kerfunum, t.d. um það hvað notendur skrá, breyta eða skoða?

    Í málaskrá ráðuneytisins er haldið utan um breytingar í hverju skjali fyrir sig, hver höfundur þess er og hversu margar breytingar hver starfsmaður vistar hvern dag.
    Í bókhaldskerfi ríkisins er sömuleiðis haldið utan um breytingar á hverri færslu fyrir sig.