Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 555. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 953  —  555. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um jákvæða hvatningu til íslenskra matvælaframleiðenda um að draga úr umbúðanotkun.


Flm.: Margrét Gauja Magnúsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Frosti Sigurjónsson, Björt Ólafsdóttir, Páll Valur Björnsson,
Birgitta Jónsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir,
Katrín Jakobsdóttir, Willum Þór Þórsson, Óttarr Proppé,
Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að hvetja til þess að íslenskir matvælaframleiðendur dragi úr notkun umbúða utan um vörur sínar og nýti sér frekar efni sem eyðast fljótt og örugglega í náttúrunni, eru umhverfisvæn og taka ekki óþarfa rými. Í þeirri vinnu leiti ráðherra samráðs við hagsmunaaðila, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Ráðherra skili tillögum fyrir árslok 2014.

Greinargerð.

    Tillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ráðherra að veita íslenskum matvælaframleiðendum jákvæða hvatningu til að draga úr notkun umbúða utan um vörur sínar og móti tillögur um aðgerðir til að auka umhverfisvitund í matvælaframleiðslu á landinu á næstu árum. Mótaðar verði tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum sem ráðast þurfi í til að ná markmiði þingsályktunartillögunnar. Nýsköpun, markaðs- og sölumál verði einnig skoðuð sérstaklega og lagðar fram tillögur um aðgerðir.
    Íslenskar landbúnaðarafurðir eru hágæðaframleiðsla og er vaxandi eftirspurn eftir íslenskum hágæðamatvælum um heim allan. Matvælaframleiðsla á Íslandi býr við aðstæður sem eru að mörgu leyti sérstakar. Svalt loftslag leiðir til þess að lítið er af skaðvöldum og því þarf minna af varnarefnum en hjá flestum öðrum þjóðum. Strjálbýli, víðlend beitilönd og tiltölulega lítill iðnaður stuðlar að lítilli mengun miðað við stærð landsins. Hreint loft og gnægð hreins vatns skiptir einnig miklu máli. Búfjárræktin býr við stranga lyfjalöggjöf og lagt er bann við notkun vaxtarhvetjandi hormóna og íblöndun sýklalyfja í fóður. Þá er landið laust við ýmsa búfjársjúkdóma og því þarf ekki að nota lyf gegn þeim. Sérstaða íslenskra matvæla og ímynd þeirra felst í lítilli mengun náttúrunnar, hreinleika afurðanna, góðri meðferð og góðum aðbúnaði. Út á þessa sérstöðu gengur markaðssetning og út á hana fæst hærra verð. Með þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og grunnrannsóknum í samvinnu margra stofnana er reynt að skýra þessa sérstöðu á vísindalegan hátt og styðja þannig við kynningar- og sölustarf innan lands og á erlendum mörkuðum. Þannig er reynt að styrkja bæði gæðaímynd, gæðastýringu og góða framleiðsluhætti. Með framangreint að leiðarljósi skýtur skökku við að ekki sé lögð meiri áhersla á umhverfisvænar umbúðir utan um vörur og umhverfisvitund almennt.     Í dag stækkar sá markhópur sem gerir kröfur um vörur sem byggjast á góðri hönnun, gæðum, rekjanleika og umhverfisvitund. Íslensk matvælaframleiðsla getur verið í hæsta gæðaflokki. Hér leynist fjöldinn allur af tækifærum sem kalla á samstarf og þverfaglega samvinnu ólíkra aðila til að koma matvöru í hæsta gæðaflokki til neytenda á sem umhverfisvænastan hátt.