Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 954  —  556. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stofnun leigufélaga á vegum sveitarfélaga.


Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Edward H. Huijbens, Katrín Jakobsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að skoða með hvaða hætti hægt er að gera sveitarfélögum kleift að stofna leigufélög um íbúðarhúsnæði, ein eða í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra aðila, svo sem stéttarfélög, lífeyrissjóði eða Íbúðalánasjóð.

Greinargerð.

    Staðan á leigumarkaði hefur verið mjög til umræðu undanfarin missiri, og staða leigjenda oft á tíðum erfið. Þetta hefur stafað af því að oft á tíðum er leiguhúsnæði ótryggt, leigt er til skamms tíma og á verði sem fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar eiga erfitt með að standa undir. Þá hefur þrýstingur á félagsleg úrræði, eins og félagslegt leiguhúsnæði sveitarfélaganna aukist, enda leiga þar að jafnaði mun lægri en á almennum markaði.
    Leigufélög sveitarfélaga gætu verið með a.m.k. tvennum hætti:
    Annars vegar byggðasamlög nokkurra sveitarfélaga, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu þar sem allar félagslegar íbúðir viðkomandi sveitarfélags kæmu saman í einu félagi, með einni stjórn og sömu reglum. Staða íbúa með tilliti til aðgengis og umsókna um slíkt húsnæði væri þá sú sama hvar sem þeir byggju á svæðinu og flutningur innan svæðis hefði ekki áhrif á stöðu manna með tilliti til umsóknar. Kópavogsbúi gæti t.d. sótt um félagslegt húsnæði í Garðabæ og öfugt án þess að skipta um búsetu fyrst. Löng hefð er fyrir öflugu samstarfi sveitarfélaga víða um land í byggðasamlögum og nægir þar að nefna byggðasamlög um sorphirðu víða um land, Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu, slökkviliðið o.fl.
    Hins vegar er mikilvægt að skoða með hvaða hætti sveitarfélög, ein eða í samstarfi við önnur, geta komið að stofnun leigufélaga á almennum markaði með framlagi í formi lóða til að lækka íbúðaverð í byggingu eða með framlagi í öðru formi. Skoða þyrfti sérstaklega hvort hægt væri að stofna félög á svipuðum grunni og húsnæðissamvinnufélög og með hvaða hætti hægt væri að binda íbúðir í slíkum félögum til langs tíma til að tryggja búsetuöryggi.
    Á Íslandi er ekki löng hefð fyrir leigumarkaði, en á seinni árum er það farinn að vera valkostur í hugum margra að búa frekar í leiguhúsnæði en að freista þess að binda meginhluta fjár síns í fasteign. Slíkt er mun algengara í nágrannalöndum okkar og mikilvægt að skoðað sé af alvöru hvernig sveitarfélögin geta hjálpað til við að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði.