Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 960  —  434. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um aðlögun að Evrópusambandinu.


     1.      Hvaða breytingar sem orðið hafa á lögum á málefnasviði ráðherra eða á stofnunum sem heyra undir hann frá 2009 má rekja til aðlögunar að Evrópusambandinu?
    Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár, er vísað til stefnumörkunar um persónuvernd á vettvangi Evrópusambandsins og sagt frá samstarfi um að stuðla að samræmingu persónuverndarlöggjafar í Evrópu.
    Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 121/2013, um breytingu á lögum um geislavarnir, nr. 44/2002, sagði m.a. um tilefni og nauðsyn lagasetningar: „Frumvarpið tekur einnig mið af breyttum áherslum í geislavörnum innan Evrópusambandsins og með því er haldið áfram aðlögun og framkvæmd íslenskrar löggjafar á sviði geislavarna að tilskipunum Evrópusambandsins um geislavarnir og framkvæmd þeirra.“

     2.      Hvaða breytingar voru eingöngu vegna aðildarumsóknar og viðræðna við ESB?
    Engar.

     3.      Hvaða breytingar urðu á sama tíma fyrst og fremst vegna aðildar Íslands að EES?
    Með lögum nr. 33/2009, um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, var ráðherra m.a. falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um merkingar tóbaksvara. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að breytingarnar séu taldar nauðsynlegar til að mæta skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum.
    Með lögum nr. 20/2013, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, var ráðherra veitt heimild til að innleiða ákvæði tilskipunar ráðsins 90/167/EBE frá 26. mars 1990 um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs í bandalaginu sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 frá 26. október 2007.