Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 987  —  554. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Margréti Gauju Magnúsdóttur
um heilsugæslustöðvar og heimilislækna.


     1.      Hvar á landinu verður næst byggð ný heilsugæslustöð?
    Engin ákvörðun liggur fyrir um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á Íslandi sem stendur.

     2.      Hver er stefna ráðherra í uppbyggingu heilsugæslustöðva?
    Bygging nýrra heilsugæslustöðva er fjárfrek framkvæmd. Í slíkar framkvæmdir verður ekki ráðist nema fyrir liggi fjárveitingar frá Alþingi, sem byggjast á raunhæfu mati á þeim þörfum sem fyrir liggja á hverjum stað á hverjum tíma. Í ráðuneytinu er verið að skoða ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar í heild sinni, þar með styrkingu heilsugæslunnar, framkvæmd hennar og rekstrarfyrirkomulag með styrkingu þessa þjónustustigs að leiðarljósi.

     3.      Hefur ráðherra hug á að setja á fót átak til að fjölga heimilislæknum?
    Ráðuneytið hefur markvisst unnið að því að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum, sem er ein mikilvægasta aðgerðin til að fjölga heimilislæknum þegar til lengri tíma er litið. Endurtekið hefur verið sótt um auknar fjárveitingar fyrir þessum námsstöðum og verður svo einnig fyrir næstu fjárlög. Þessar sérnámsstöður hafa reynst mjög vinsælar, verið nýttar víða um land og full ástæða til að stefna að fjölgun þeirra.