Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1008  —  315. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Annar minni hluti gerir almennt ekki athugasemdir við að ríkisstjórn greiði götu kjarasamninga með því að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Reyndar urðu viðtökur við þeim kjarasamningum sem gerðir voru í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 21. desember 2013 mjög blendnar. Nægir þar að benda á að um helmingur aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands felldi þá. Þróun kjaramála frá þeim tíma hefur einnig sett þessi mál í talsvert annað samhengi en upphaflega var gengið út frá. Eftir stendur að hér er á ferðinni útfærsla ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta á því hvar og í hve ríkum mæli dregið verði úr þegar ákveðnum gjaldskrárhækkunum eða verðlagsuppfærslu liða í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014. Við þá útfærslu hefur 2. minni hluti nokkuð að athuga.
    Í fyrsta lagi hefur orðið mikill dráttur á því að boðaðar lækkanir komi til framkvæmda. Virðist nú ekki útlit fyrir að lækkanirnar komi til framkvæmda fyrr en 1. júní 2014 eða þegar árið er nær hálfnað. Á þeirri töf ber ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn alla ábyrgð.
    Í öðru lagi ákvað ríkisstjórnin í frumvarpi sínu að bera fyrst og fremst niður í lækkun áfengis- og tóbaksgjalds, bensíngjalds, olíugjalds og kílómetragjalds. Um er að ræða litlar breytingar í krónum talið á hverjum lið fyrir sig og því með öllu óljóst hversu auðvelt verður að fylgjast með því að lækkanirnar skili sér raunverulega til neytenda. Eins er óhjákvæmilegt að spyrja sig hvers vegna þessir liðir eru lækkaðir sérstaklega en aðrar gjaldskrárhækkanir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir samhliða afgreiðslu fjárlaga eru látnar ósnertar. Má í því sambandi nefna mikla hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar, hækkun skrásetningargjalda í opinbera háskóla o.fl. Þá bendir 2. minni hluti á að lækkun bensíngjalds og umferðartengdra gjalda mun lækka enn frekar markaða tekjustofna sem runnið hafa til vegagerðar og þrengja því enn fremur að viðhalds- og framkvæmdaverkefnum.
    Afstaða 2. minni hluta er að um ómarkvissar aðgerðir sé að ræða sem óhóflegur dráttur hefur orðið á að komist til framkvæmda. Úr því sem komið er væri skárri kostur að velja færri og mikilvægari liði til að lækka álögur á þannig að það yrði sýnilegt í framkvæmd og meiri líkur á að það skilaði sér beint til lækkunar verðlags og til neytenda. Í því ljósi getur 2. minni hluti getur ekki stutt afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2014.

Steingrímur J. Sigfússon.