Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 328. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1020  —  328. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Ragnar Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti og Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama sem undirritaður var 24. júní 2013.
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Kostaríka og Panama kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig mun Panama fella niður alla tolla á sjávarafurðir frá Íslandi við gildistöku samningsins og Kostaríka fella niður tolla á sjávarafurðir frá Íslandi við gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili. Þá mun tollur á allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu aðlögunartímabili, í síðasta lagi fyrir árið 2029. Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.
    Þá kemur fram í athugasemdum við tillöguna að fríverslunarsamningur EFTA við Kostaríka og Panama er fyrsti fríverslunarsamningur sem EFTA-ríkin hafa undirritað sem tekur einnig til óunninna landbúnaðarvara, en fram að þessu hafa EFTA-ríkin alla jafna gert tvíhliða landbúnaðarsamninga samhliða gerð fríverslunarsamninga. Bæði Kostaríka og Panama fella m.a. niður tolla á íslenskt lambakjöt strax við gildistöku samningsins og þá fella ríkin einnig niður tolla á vatn að loknu fimmtán ára aðlögunartímabili. Ísland fellir m.a. niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna, svo sem ákveðnar tegundir afskorinna blóma, jólatré, ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.
    Í umsögn og máli fulltrúa ASÍ á fundi nefndarinnar kom fram að sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) hefur um skeið gert athugasemdir við Kostaríka og Panama um framkvæmd nokkurra grundvallarsamþykkta stofnunarinnar, þar á meðal um frelsi til stéttarfélagsaðildar annars vegar og um gerð kjarasamninga hins vegar. Mælist ASÍ gegn því að samningurinn verði fullgiltur án þess að hann verði uppfærður á þá leið að aðilar skuldbindi sig til að ræða um stöðu verkafólks og hvernig bæta megi stöðu þess í ríkjunum. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kom hins vegar fram eindreginn stuðningur við fríverslunarsamninga á þeirri forsendu að þeir væru mikilvægir til að tryggja hindranalausan aðgang vöru á gagnkvæma markaði. Með því batnar samkeppnisstaða atvinnulífsins og möguleikar til aukinna viðskipta milli ríkjanna skapast.
    Nefndin bendir á að í formálsorðum fríverslunarsamningsins árétta samningsaðilar virðingu fyrir grundvallarréttindum starfsmanna og meginreglunum sem eru settar fram í samningum ILO. Þá er með fríverslunarsamningi EFTA og Kostaríka og Panama komið á fót sameiginlegri nefnd EFTA og Kostaríka og Panama sem kemur saman á tveggja ára fresti og fjallar um framkvæmd samningsins. Á þeim vettvangi gefst stjórnvöldum EFTA-ríkjanna tækifæri til að taka upp mál er varða mannréttindi og verkalýðsmál eftir því sem þurfa þykir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé, framsögumaður nefndarinnar, voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2014.


Birgir Ármannsson,


form.


Ásmundur Einar Daðason.


Silja Dögg Gunnarsdóttir.



Vilhjálmur Bjarnason.


Össur Skarphéðinsson.