Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1023  —  564. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja
um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2014.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Kristján Frey Helgason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2014 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 7. og 9. apríl 2014. Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2014. Hann er óbreyttur frá fyrri árum að öðru leyti en því að ekki er kveðið á um heimildir færeyskra skipa til loðnuveiða í íslenskri lögsögu á vertíðinni 2014/2015 heldur er tekið fram að ákvörðun þar að lútandi verði tekin á fundi aðila síðar á árinu 2014.
    Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að samningurinn gerir ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2014. Þá eru íslenskum skipum heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2014.
    Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2014. Heildarafli þorsks verður þó ekki meiri en 1.375 lestir, heildarafli keilu ekki meiri en 750 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu.
    Frá efnahagskreppunni sem reið yfir Færeyjar í byrjun níunda áratugar síðustu aldar hafa Færeyingar á hverju ári fengið heimild til að veiða innan efnahagslögsögunnar allt að 30 þúsund lestir af loðnu af leyfilegum hámarksafla með tilteknum takmörkunum. Eins og fyrr segir er ekki kveðið á um heimildir færeyskra skipa til loðnuveiða í íslenskri lögsögu á vertíðinni 2014/2015 heldur er tekið fram að ákvörðun þar að lútandi verði tekin á fundi aðila síðar á árinu 2014. Þetta var gert með þeim rökum að vegna vaxandi umhverfisbreytinga ríki meiri óvissa um veiði á loðnu en verið hefur og að fram hefur komið að Grænlendingar gætu mögulega sagt upp loðnusamningnum og farið fram á meiri hlutdeild vegna breyttrar göngu stofnsins í vesturátt undanfarin ár. Nefndin leggur áherslu á að ef veigamiklar breytingar á heimildum Færeyinga til loðnuveiða koma til álita af hálfu íslenskra stjórnvalda verði engar ákvarðanir teknar án samráðs við nefndina.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2014.


Birgir Ármannsson,


form.


Vilhjálmur Bjarnason,


frsm.


Ásmundur Einar Daðason.



Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Össur Skarphéðinsson.