Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1033  —  428. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur um laun og hlunnindi
vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hafa verið laun og hlunnindi aðalsamningamanns og formanns samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið frá árinu 2009 og til dagsins í dag? Hver hafa verið laun og hlunnindi formanna tíu samningahópa, sjö annarra nefndarmanna í samninganefndinni, starfsmanns nefndarinnar og fulltrúa í hverjum samningahópi á sama tíma?
     2.      Hver hafa verið laun og hlunnindi formanns og tveggja varaformanna samráðshóps sem utanríkisráðherra skipaði á grunni ályktunar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu? Hver hafa verið laun og hlunnindi þeirra 24 einstaklinga sem voru skipaðir í þennan hóp?
     3.      Hver var starfsmannakostnaður við vinnu allra þessara hópa?


    Aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið er embættismaður í utanríkisþjónustunni og eru launakjör hans ákveðin af kjararáði. Aðalsamningamaður tók til starfa 15. janúar 2011 og 24. júní sama ár ákvað kjararáð að hann skyldi taka grunnlaun samkvæmt launaflokki 502-130 í launatöflu kjararáðs og fá greiddar 45 einingar á mánuði. 21. desember 2011 ákvað kjararáð breytingu á launum þeirra sem undir það heyra þannig að launin urðu sem næst því að verða eins og þau voru fyrir launalækkun embættismanna sem byggðist á lögum nr. 148/2008. Eftir þá breytingu fékk aðalsamningamaður greidd grunnlaun samkvæmt launaflokki 502-132 og 50 einingar á mánuði. Aðrar greiðslur sem endurgjald fyrir vinnu fékk hann ekki.
    Flestir fulltrúa í hinum tíu samningahópum, sem skipaðir voru vegna aðildarviðræðnanna, voru tilnefndir af opinberum aðilum, ráðuneytum eða stofnunum eða voru fulltrúar hagsmunasamtaka. Störf þeirra í samningahópunum töldust falla undir hefðbundnar starfsskyldur þeirra og var þeim því ekki greidd sérstök þóknun. Í samningahópunum voru einnig nokkrir einstaklingar utan hins opinbera stjórnkerfis sem skipaðir voru án tilnefningar vegna sérþekkingar sinnar. Þar sem ekki var hægt að líta svo á að störf þeirra í samningahópunum féllu undir hefðbundnar starfsskyldur þeirra gagnvart vinnuveitendum sínum var þeim greidd þóknun samkvæmt ákvörðunum þóknananefndar.
    Nánar tiltekið voru ákvarðanir þóknananefndar þannig að formaður lagahóps, sem jafnframt var annar tveggja varaformanna samninganefndar, fékk greiddar 300.000 kr. á mánuði fyrir bæði störfin að undanskildum júní–ágúst 2010, júlí–september 2011 og júní–ágúst 2012. Þá fékk formaður samningahóps um sjávarútvegsmál, sem jafnframt sat í samninganefndinni, greiddar 250.000 kr. á mánuði, formaður samningahóps um dóms- og innanríkismál, sem einnig sat í samninganefndinni, fékk greiddar 200.000 kr. á mánuði og varaformaður samningahóps um byggðamál fékk greiddar 85.000 kr. á mánuði. Sá síðastnefndi fékk þóknunina greidda frá 9. september 2010 til 1. júní 2013, en aðrir fengu greiddar þóknanir frá 1. janúar 2010 til 1. júní 2013. Þá fengu þrír meðlimir í samningahópi um utanríkismál, þrír meðlimir í samningahópi um gjaldmiðilsmál og einn meðlimur lagahóps greiddar 15.000 kr. í þóknun fyrir hvern fund.
    Í samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum áttu sæti aðalsamningamaður, formenn samningahópanna tíu og sjö aðrir nefndarmenn. Hið sama gilti um meðlimi samninganefndarinnar og samningahópanna að þeir sem voru tilnefndir til setu í nefndinni af opinberum aðilum og gegndu föstu starfi innan hins opinbera stjórnkerfis fengu ekki greidda þóknun vegna setu sinnar í nefndinni. Hér að framan var gerð grein fyrir þóknun annars tveggja varaformanna samninganefndar sem einnig gegndi formennsku í lagahópi og tveggja formanna samningahópa sem sátu sem slíkir einnig í samninganefndinni. Hinn varaformaður samninganefndarinnar fékk greiddar 150.000 kr. á mánuði fyrir sín störf, einnig samkvæmt ákvörðun þóknananefndar. Sömu upphæð, einnig samkvæmt ákvörðun þóknananefndar, fengu tveir aðrir meðlimir samninganefndar sem ekki gegna föstu starfi innan hins opinbera stjórnkerfis. Fastráðinn starfsmaður í utanríkisráðuneytinu gegndi því hlutverki að vera starfsmaður samninganefndar og fékk hann ekki greitt sérstaklega fyrir það enda taldist það óskilgreindur hluti starfsskyldna hans í ráðuneytinu.
    Þegar gert var hlé á aðildarviðræðum sl. vor tilkynnti ráðuneytið formönnum samningahópa og nefndarmönnum í samninganefndinni að mánaðarlegar þóknanir vegna starfa þeirra mundu falla niður frá 1. júní 2013.
    Formaður og tveir varaformenn samráðshópsins fengu greiddar mánaðarlegar þóknanir samkvæmt ákvörðun þóknananefndar frá 7. nóvember 2011 til 1. júní 2013. Formaður fékk greiddar 150.000 kr. á mánuði og varaformennirnir 100.000 kr. Aðrir meðlimir í samráðshópnum fengu ekki greiddar þóknanir fyrir störf sín í hópnum. Ferðakostnaður vegna fundarsóknar var greiddur eftir atvikum samkvæmt reglum um ferðakostnað ríkisins.
    Sérgreindur launakostnaður utanríkisráðuneytisins vegna samningaviðræðnanna að frátöldum kostnaði vegna þýðinga nam samtals 152,6 millj. kr. og sundurliðast sem hér segir:

Tímabundnar ráðningar til að mæta auknu álagi vegna viðræðnanna 32,2 millj. kr.
Launakostnaður samkvæmt ákvörðun kjararáðs 42,5 millj. kr.
Öll laun þriggja fastráðinna starfsmanna tímabundið 26,9 millj. kr.
Þóknanir samkvæmt ákvörðunum þóknananefndar 51,0 millj. kr.

    Hér er ekki talinn kostnaður vegna margra starfsmanna ráðuneytisins, annarra ráðuneyta, opinberra stofnana og hagsmunasamtaka sem störfuðu að viðræðunum með öðrum verkefnum. Meðan á samningaviðræðum stóð færði ráðuneytið starfskrafta frá öðrum verkefnum til þessa verkefnis og var þannig byggt á auknu vinnuframlagi lykilstarfsmanna sem sinntu viðræðunum samhliða öðrum venjubundnum störfum. Ekki er unnt að aðgreina þann launakostnað frá launakostnaði vegna annarra verkefna.