Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 413. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1044  —  413. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum (innheimta lífeyrisiðgjalda).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Lilju Sturludóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða. Þá barst nefndinni umsögn frá sömu samtökum.
    Samkvæmt athugasemdum frumvarpsins er það lagt fram til að taka af allan vafa um heimildir Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til þess að krefja þann sem innheimta sjóðsins beinist að um greiðslu kostnaðar, m.a. kostnaðar vegna aðkeyptrar innheimtuþjónustu.
    Fyrir nefndinni kom fram að smíði frumvarpsins ætti rót sína að rekja til álits umboðsmanns Alþingis frá 20. nóvember 2013 (UA nr. 7193/2012). Í því máli taldi umboðsmaður að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda væri ekki heimilt að fella kostnað af almennum innheimtuaðgerðum sínum, þ.m.t. vegna aðkeyptrar þjónustu, á greiðendur lífeyrisiðgjalda umfram þá hámarksþóknun sem kveðið væri á um í 8. gr. laganna.
    Skilningur meiri hlutans er að í tillögu frumvarpsins felist ítarlegri skýringar á því ákvæði sem gilt hefur, en í þeim tilvikum þegar Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda felur þriðja aðila að annast innheimtu iðgjalda fellur kostnaður sem hlýst af innheimtunni á þann aðila sem innheimtan beinist að, þ.e. þann sem er skyldur til að greiða iðgjaldið. Fjárhæð kröfu um innheimtukostnað sem fellur til hjá þriðja aðila er þannig óháð hinu innheimta iðgjaldi enda er ekki gert ráð fyrir að hámark 1. málsl. 8. gr. eigi við í þeim tilvikum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni Páll Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. maí 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Pétur H. Blöndal,


frsm.


Willum Þór Þórsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Vilhjálmur Bjarnason.