Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 584. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1048  —  584. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi,
með síðari breytingum (uppgjör vátryggingastofns o.fl.).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Auk þess verður réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni félagsins á grundvelli eignarhluta sinna óvirkur.
     b.      Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skilastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag félagsins. Á meðan hún ræður yfir félaginu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal skilastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni félagsins að brýna nauðsyn beri til.
     c.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. 91. gr. a.
     d.      Í stað orðanna „Skilastjórn skal í samráði við Fjármálaeftirlitið“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Fjármálaeftirlitið skal í samráði við skilastjórn.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með slitum vátryggingafélags þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis þess.

2. gr.

    Á eftir 91. gr. laganna kemur ný grein, 91. gr. a, svohljóðandi:
    Telji Fjármálaeftirlitið að hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra verði best gætt með því að reka félagið áfram og ljúka uppgjöri vátryggingastofns skv. 1. málsl. 3. mgr. 91. gr. er skilastjórn félagsins undanþegin ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og 1. mgr. 105. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995.
    Skilastjórn skal leggja áætlun fyrir Fjármálaeftirlitið til samþykktar um með hvaða hætti skuli ljúka uppgjöri vátryggingastofns, þ.m.t. um uppgjör tjóna og áætluð tímamörk uppgjörs. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um gerð og inntak slíkrar áætlunar og hvaða gögn skuli fylgja henni.
    Miða skal við að uppgjöri verði lokið innan þriggja ára frá skipunardegi skilastjórnar skv. 91. gr. en Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að framlengja uppgjörslok um eitt ár í senn í tvígang.

3. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 93. gr. laganna orðast svo: Líftryggingafélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema að undangenginni kröfu Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi.

4. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 94. gr. laganna orðast svo: Vátryggingafélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema að undangenginni kröfu Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, um félagsslit vátryggingafélags. Fjármálaeftirlitið hefur orðið vart við ákveðna vankanta á lögum um vátryggingastarfsemi í eftirliti sínu og þá sér í lagi á ákvæðum er varða starf skilastjórna í tengslum við uppgjör vátryggingastofns og slit vátryggingafélaga. Að mati Fjármálaeftirlitsins torvelda núgildandi lög störf skilastjórnar. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem auk framangreinds eru til þess fallnar að auka samræmi við löggjöf nágrannaríkjanna og við þau markmið sem koma fram í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB.
    Ákvæði laganna er varða uppgjör og slit vátryggingafélaga eru takmörkuð og geta orðið þess valdandi að hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra er stefnt í hættu ef ekki verða gerðar breytingar á ákvæðum þeirra er það varðar. Frumvarpið hefur þann tilgang að styðja við bestu framkvæmd við uppgjör vátryggingafélaga í því augnamiði að vernda vátryggingartaka og vátryggða. Þá mun frumvarpið auka samræmi laganna við löggjöf nágrannaríkjanna.
    Með frumvarpinu er leitast við að skýra þann ramma sem gildir um uppgjör vátryggingafélaga í kjölfar afturköllunar starfsleyfis og áður en til mögulegra gjaldþrotaskipta kemur. Ákvæði 3. og 4. gr. fumvarpsins innleiða 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/ 17/EB.
    Frumvarpið varðar vátryggingafélög sem og eftirlit Fjármálaeftirlitsins.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni félagsins verði óvirkur þegar skipuð hefur verið skilastjórn yfir félaginu. Horft er til sambærilegs ákvæðis í 3. málsl. 1. mgr. 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem kveður á um áhrif afhendingar fjármálafyrirtækis til bráðabirgðastjórnar og að réttur hluthafa verði við það óvirkur til að taka ákvarðanir um málefni á grundvelli eignarhluta sinna. Sömu rök liggja hér að baki, sbr. frumvarp til laga nr. 44/2009 sem kvað á um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til sambærilegt ákvæði og er í 2. málsl. 2. mgr. 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki en sömu rök liggja að baki framangreindu ákvæði og tillögu a-liðar, sbr. frumvarp til laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í c-lið 1. gr. er að finna tilvísun í tillögu að nýju ákvæði laga um vátryggingastarfsemi.
    Í d-lið 1. gr. er gert skýrt að Fjármálaeftirlitið getur eitt gert kröfu um að vátryggingafélag verði tekið til gjaldþrotaskipta og er tillagan í samræmi við 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB.
    Í e-lið 1. gr. er áréttað sérstaklega að Fjármálaeftirlitinu er falið eftirlit með slitameðferð vátryggingafélags þrátt fyrir að starfsleyfi þess hafi verið afturkallað líkt og raunin er um fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Nauðsynlegt þykir að skýrt sé að Fjármálaeftirlitinu sé falið slíkt eftirlit vegna þeirra almannahagsmuna sem um ræðir við uppgjör vátryggingafélaga.
    Með 2. gr. frumvarpsins er leitast við að setja ramma utan um uppgjör vátryggingafélaga eftir að starfsleyfi þess hefur verið afturkallað en áður en til gjaldþrotaskipta kemur. Nauðsynlegt þykir að undanskilja skilastjórn frá ákvæðum laga er leggja þá skyldu á hana að beiðast gjaldþrotaskipta á vátryggingafélagi ef hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra er betur borgið með því að reka félagið áfram og leitast við að gera upp vátryggingaskuldbindingar með öðrum hætti. Í ákvæðinu er lagt til að miðað verði við að skilastjórn ljúki uppgjöri vátryggingafélagsins innan þriggja ára eftir skipunardag skv. 91. gr. Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að framlengja uppgjörslok um eitt ár í senn í tvígang þjóni það hagsmunum vátryggingartaka og vátryggðra.
    Mikilvægt er að skilastjórn hafi heimild til greiðslu og uppgjörs tjóna að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið sem samþykkir framkomna áætlun skilastjórnar um uppgjör vátryggingastofns. Tilgangur ákvæðisins er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra og skulu aðgerðir skilastjórnar miða að því að gæta þeirra hagsmuna.
    Með 3. og 4. gr. frumvarpsins er verið að innleiða 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB þar sem segir að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skuli ein hafa heimild til þess að taka ákvörðun um að hefja slitameðferð vátryggingafélags.