Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 585. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1049  —  585. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013 (matsverð og lagaskil).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist: enda endurspegli matsverðið byggingarstig eignar við afhendingu.
     b.      Við 1. málsl. 10. mgr. bætist: og hvort matsverð endurspegli byggingarstig eignar við afhendingu.

2. gr.

    Við 3. málsl. 15. gr. laganna bætist: enda leiði það ekki til þess að skjöl sem voru undanþegin gjaldskyldu fyrir gildistöku laga þessara verði gjaldskyld eða að greiða þurfi hærra gjald vegna gjaldskyldra skjala sem sannanlega voru gefin út fyrir gildistöku laga þessara.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Lög um stimpilgjald, nr. 138/2013, tóku gildi 1. janúar 2014. Þau fólu í sér umtalsverða breytingu á lagaumhverfi stimpilgjalds. Með lögunum var m.a. stefnt að einföldun álagningar stimpilgjalds og framkvæmdar innheimtu án þess að tekjur ríkissjóðs yrðu skertar. Frá gildistöku laganna hefur fengist nokkur reynsla af framkvæmd þeirra. Í ljós hafa komið agnúar sem skapa óvissu og gera greiðsluskyldum og framkvæmdaraðilum erfitt fyrir. Frumvarp þetta er lagt fram til þess að draga úr óvissu og stuðla að því að markmiðum laganna verði náð.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 4. gr. verði þannig orðað að engum vafa verði undirorpið að gjaldstofn vegna eignaryfirfærslu fasteigna skuli vera matsverð fasteignar eins og það er skráð við afhendingu eignar. Í þeim tilvikum sem matsverðið endurspeglar ekki hið raunverulega byggingarstig eignar eins og það verður við afhendingu skuli hins vegar það frávik gilda að miða eigi gjaldstofninn við áætlað matsverð sem tekur mið af byggingarstigi viðkomandi eignar við afhendingu. Mismunandi matsverð er á fasteignum eftir því á hvaða byggingarstigi eignirnar eru og er ákvæðinu ætlað að tryggja að greiðsla stimpilgjalds miðist við raunverulegt byggingarstig eignar við afhendingu. Til skýringar á því hvað teljist matsverð vísast til ákvæða laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Þá er einnig lagt til að breytingar verði gerðar á ákvæði 10. mgr. til samræmis þannig að ljóst sé að sýslumaður hafi heimild til að gera breytingar á gjaldskyldri fjárhæð skv. 11. mgr. endurspegli matsverð ekki raunverulegt byggingarstig eignar við afhendingu. Forsaga tillögunnar er að nefndinni var bent á að ákvæði 2. mgr. 4. gr. gæti tekið á sig sérkennilega mynd þegar fullbúin nýbygging væri seld og skráð fasteignamatsverð hennar tæki mið af öðru byggingarstigi, t.d. fokheldri byggingu. Slíkt fyrirkomulag er ekki líklegt til að stuðla að jafnræði auk þess sem það er í ósamræmi við markmið laga um stimpilgjald.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á lagaskilaákvæði 15. gr. Eftir breytinguna mun koma skýrt fram að óstimpluð skjöl sem eru gefin út og/eða undirrituð fyrir gildistöku laganna um stimpilgjald séu gjaldskyld samkvæmt gildandi lögum enda leiði það ekki til þess að skjöl sem undanþegin voru gjaldskyldu fyrir gildistöku laganna verði gjaldskyld eða að greiða þurfi hærra gjald vegna gjaldskyldra skjala sem sannanlega voru gefin út fyrir gildistöku laganna. Með breytingunni er hnykkt á því að lagaskilaákvæðinu var ekki ætlað að kveða á um greiðsluskyldu stimpilgjalds umfram það sem kveðið var á um í lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978. Með þessum breytingum ætti það ekki að verða neinum vafa undirorpið að lagaskilaákvæðinu er ekki ætlað að gera það að verkum að skjal sem varðar breytingu á eigendaskráningu fasteigna í kjölfar samruna eða skiptingar félags sem fram fór í tíð laga nr. 36/1978 yrði gjaldskylt samkvæmt gildandi lögum þrátt fyrir að slíkt eignaryfirfærsluskjal sé ótvírætt gjaldskylt eigi samruni eða skipting sér stað eftir gildistöku gildandi laga 1. janúar síðastliðinn. Þá var lagaskilaákvæðinu ekki ætlað að hafa það í för með sér að um gjaldhlutfall vegna eignaryfirfærslu sem átti sér stað í tíð laga nr. 36/1978 færi skv. 5. gr. gildandi laga heldur aðeins samkvæmt ákvæðum laga nr. 36/1978.