Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1093  —  376. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða losun
og móttöku úrgangs frá skipum (EES-reglur, innleiðing).


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Á fundi nefndarinnar komu Hugi Ólafsson og Helga Jónsdóttir frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Sigurrós Friðriksdóttir frá Umhverfisstofnun, Gísli Gíslason frá Hafnasambandi Íslands, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðbergur Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Helgi Jensson frá Umhverfisstofnun og Rósa Magnúsdóttir og Ólöf Vilbergsdóttir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hafnasambandi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum verslunar og þjónustu, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun.
    Frumvarp þetta felur í sér nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, annars vegar svo að málið sem Eftirlitsstofnun EFTA hóf gegn íslenskum stjórnvöldum vegna rangrar innleiðingar á tilskipun 2000/59/EB þurfi ekki að koma til kasta EFTA-dómstólsins og hins vegar til að ljúka innleiðingu tilskipunar 2005/35/EB en stofnunin vísaði málinu til EFTA-dómstólsins í desember 2013 vegna vanefnda á innleiðingu. Frumvarpið hefur að geyma breytingar sem færa lögin til samræmis við ákvæði tilskipunar 2000/59/EB og tilskipunar 2005/35/EB og er, eins og áður sagði, lagt fram til þess að svara athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi innleiðingu tilskipana 2000/59/EB og 2005/35/EB hér á landi.
    Með frumvarpinu eru gerðar þær kröfur að komið verði upp aðstöðu fyrir móttöku úrgangs frá skipum í öllum höfnum á landinu eða að rekstraraðilar hafna tryggi að þjónusta sé til staðar fyrir móttöku á sorpi og skólpi frá skipum. Að sama skapi eru lagðar þær skyldur á skipstjóra allra skipa sem koma til hafnar að skila öllum úrgangi frá skipi í aðstöðu fyrir úrgang frá skipum í höfn, þó með þeim undantekningum sem getið er um í 2. mgr. a-liðar 4. gr. frumvarpsins (11. gr. a) og 3. mgr. c-liðar 4. gr. frumvarpsins (11. gr. c). Markmið frumvarpsins er hið sama og meginmarkmið tilskipunarinnar, þ.e. að koma í veg fyrir að skip losi úrgang í hafið og þar með að draga úr mengun hafsins.
    Í umfjöllun um málið kom fram að umsagnaraðilar telja mál er varða losun og móttöku úrgangs frá skipum nú þegar í góðum farvegi meðal flutningafyrirtækja og telja fyrirtækin hafa tileinkað sér ábyrga úrgangsstjórnun. Ólögleg losun á úrgangi frá skipum í sjó sé ekki vandamál og keypt sé þjónusta af til þess bærum aðilum sem sjái um móttöku og losun úrgangs. Nefndin tekur undir með umsagnaraðilum um að gæta þurfi að ákvörðunum einstakra hafna eða hafnasamlaga um gjaldtöku og að tryggja þurfi að gjaldtöku sé stillt í hóf, að hún sé sanngjörn, gagnsæ og endurspegli kostnað frekar en að hún verði nýtt til óhóflegrar tekjuöflunar. Nefndin leggur áherslu á að gætt sé að því að nýttar séu þær undanþágur sem tilskipunin veitir, sbr. að Umhverfisstofnun geti veitt undanþágu fyrir skip í áætlunarsiglingum sem hafa reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs.
    Þá var athygli nefndarinnar beint að nokkrum atriðum sem umsagnaraðilar töldu að bæta mætti úr í frumvarpinu og tók nefndin undir nokkur þeirra.
    Bent var á að skilgreiningin á mengandi efnum í frumvarpinu sé of þröng þar sem lög nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, taka til mun fleiri mengandi efna en viðaukar I og II við MARPOL gilda um. Einnig stangast skilgreiningin á við skilgreiningu á mengun í lögunum, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 33/2004 sem vísað er til í b-lið 2. gr. frumvarpsins. Nefndin felst á þetta og leggur því til að í stað skilgreiningar á mengandi efnum verði skilgreiningu á mengun í núgildandi lögum breytt.
    Nefndin telur mikilvægt að ekki sé þrengt að samstarfi aðila og möguleika fyrirtækja til að bæta sig með íþyngjandi kostnaði og takmörkunum og tekur því undir tillögu Samtaka fiskvinnslustöðva um að bætt verði við skipum sem þjónusta fiskeldi í upptalningu undanþágutilvika 1. mgr. c-liðar 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram að hafnaryfirvöld skulu sjá til þess að viðeigandi upplýsingar berist Umhverfisstofnun, svo sem tilkynningar um úrgang og farmleifar auk yfirlits yfir magn og tegund þess úrgangs sem skal skilað. Samantekt á framangreindum upplýsingum skal skilað til Umhverfisstofnunar fyrir 1. mars ár hvert. Umsagnaraðilar bentu á að eðlilegt þætti að upplýsingar um magn og tegund úrgangs og farmleifa sem skuli skilað eigi einnig að senda til heilbrigðisnefnda viðkomandi sveitarfélaga. Þessar upplýsingar væru nauðsynlegar fyrir sveitarfélög til að halda utan um magn úrgangs sem fellur til í sveitarfélagi þar sem sveitarfélög eiga að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrganginn. Einnig var bent á að ákvæðið væri ekki nægilega skýrt. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á 5. gr. frumvarpsins þess efnis.
    Þar sem hafnaryfirvöld þurfa tíma til að koma á nýju verklagi í samræmi við ákvæði frumvarpsins telur nefndin rétt að taka tillit til þess varðandi tímasetningu á gildistöku laganna og leggur til að þau taki gildi 31. desember 2014.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      C-liður 1. gr. orðist svo: Á eftir orðinu „efnasambönd“ í 9. tölul. kemur: þ.m.t. efni sem falla undir I. og II. viðauka við MARPOL-samninginn.
     2.      Á eftir orðunum „hjálparskipum í flota“ í 1. mgr. c-liðar 4. gr. komi: skipum sem þjónusta fiskeldi og.
     3.      3. efnismgr. 5. gr. orðist svo:
             Hafnaryfirvöld skulu sjá til þess að viðeigandi upplýsingar berist Umhverfisstofnun, svo sem samantekt á tilkynningum um úrgang og farmleifar auk yfirlits yfir magn og tegund þess úrgangs sem skilað hefur verið. Samantekt á framangreindum upplýsingum skal skilað til Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda viðkomandi sveitarfélaga fyrir 1. mars ár hvert.
     4.      Á eftir orðunum „hjálparskipum í flota“ í 2. málsl. 1. efnismgr. 8. gr. komi: skipum sem þjónusta fiskeldi og.
     5.      10. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2014.

    Birgir Ármannsson, Jón Þór Ólafsson og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Haraldur Einarsson.
Brynjar Níelsson. Katrín Jakobsdóttir. Brynhildur S. Björnsdóttir.