Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 251. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1097  —  251. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996,
með síðari breytingum (fækkun lögregluumdæma, aðskilnaður
embætta lögreglustjóra og sýslumanna, hæfiskröfur).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Frumvarpið gekk til nefndar eftir 2. umræðu. Nefndin ræddi sérstaklega umsögn Persónuverndar, þ.e. öflun málaskrárupplýsinga.
    Í 7. gr. frumvarpsins er fjallað um öflun málaskrárupplýsinga, þ.e. vegna ráðningar lögreglumanna og reglubundins mats á því trausti sem bera megi til þeirra. Fram kemur í umsögn Persónuverndar að mikilvægt sé að gæta meðalhófs við öflun umræddra upplýsinga, m.a. í tengslum við það hvaða upplýsinga sé aflað og hversu langt aftur í tímann, sem og að umsækjendum og starfsmönnum sé greint frá því fyrir fram að þeim verði flett upp. Þá sé einnig mikilvægt að mönnum sé veitt færi á að koma að skýringum við skráningu færslna í málaskrá. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu að um öflun málaskrárupplýsinga, þar á meðal umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skuli nánar mælt fyrir í reglugerð.
    Í 10. gr. frumvarpsins er einnig fjallað um öflun málaskrárupplýsinga um inntöku nýnema og námstilhögun, sbr. 38. gr. laganna. Þar er kveðið á um heimild til öflunar upplýsinga úr málaskrá um þá sem sækja um skólavist í Lögregluskólanum. Nefndin telur að hér þurfi einnig að gæta meðalhófs og andmælaréttar með sama hætti og þegar um ræðir lögreglumenn og umsækjendur um störf þeirra. Leggur nefndin því til þá breytingu að um öflun slíkra málaskrárupplýsinga skuli nánar mælt fyrir í reglugerð.
    Nefndin áréttar að í framkvæmd er öflun málaskrárupplýsinga með þessum hætti en með þessum breytingum eru settar skýrari reglur fyrir framkvæmdinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 4. efnismgr. 7. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Um öflun málaskrárupplýsinga, þar á meðal umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skal nánar mælt fyrir í reglugerð.
     2.      Við d-lið 10. gr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Um öflun málaskrárupplýsinga, þar á meðal umfang upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skal nánar mælt fyrir í reglugerð.
    Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.
Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.