Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 485. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1102  —  485. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Fyrir alþingiskosningar 2013 lofaði Samfylkingin að áfram yrði haldið með afskriftir skulda heimila á grundvelli almennra leikreglna. Leiðrétta þyrfti ósanngjarnar byrðar þeirra sem keyptu húsnæði á versta tíma fyrir hrun og sitja uppi með stökkbreyttar skuldir verðtryggðra lána, umfram verðþróun fasteigna. Nota þyrfti skattkerfið til að mæta þessu fólki með sanngjörnum hætti. Þá þyrfti sérstaka úrlausn fyrir fólk með lánsveð. Að síðustu væri mikilvægt að tryggja Íbúðalánasjóði fjármagn til að mæta þörfum viðskiptavina sinna.
    Í umræðum um skuldamál heimilanna í aðdraganda kosninga lýsti Samfylkingin vilja til að leggja skatt á fjármálafyrirtæki til að fjármagna nauðsynlega úrlausn að þessu leyti. Mat á kostnaði var 60–80 milljarðar kr.
    Sú aðgerð sem ríkisstjórnin hefur nú lagt til er áþekk að umfangi og tillögur Samfylkingarinnar voru fyrir síðustu kosningar en gerólík að efni. Munurinn er sá að í tillögum ríkisstjórnarinnar er engin tilraun gerð til að beina aðgerðinni að þeim sem raunverulega hafa orðið fyrir tjóni, heldur er peningum dreift til skuldara fasteignalána óháð tekjum, óháð eignum og óháð því hvort þeir högnuðust á hruninu eða töpuðu. Margir munu sitja eftir með sinn forsendubrest óbættan. Tillögur Samfylkingarinnar fólust í því að leysa hinn raunverulega vanda sem við er að glíma, að afmarka þá hópa sem orðið hefðu fyrir einhverju sem kalla mætti forsendubrest og bæta vanda þeirra en ekki dreifa peningum til þeirra sem jafnvel hafa hagnast á þróun undanfarinna ára. Við í Samfylkingunni höfum djúpstæða tilfinningu fyrir því að það beri að afmarka aðstoð við þá sem hafa orðið fyrir meiri hækkun skulda en sem nemur hækkun eignaverðs. Engin tilraun er gerð til slíkrar afmörkunar af hálfu stjórnarmeirihlutans.
    Þetta frumvarp er með lögfræðilegum eindæmum. Í því felst heimild til útgreiðslu peninga úr ríkissjóði, án nokkurrar efnislegrar viðmiðunar. Í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var sumarið 2013 og lá til grundvallar við undirbúning frumvarpsins, var að finna skilgreiningu á forsendubrestinum. Það var það sem ríkisstjórnin sjálf kallaði verðbólguskot áranna 2007–2010. Í frumvarpinu er búið að breyta tímaviðmiðinu og engin tilraun er gerð til að skilgreina hugtakið forsendubrest sem forsendu peningaúthlutunarinnar. Hugtakið „forsendubrestur“ kemur fram í skýringum við þrjár greinar frumvarpsins og að því er virðist í ólíkri merkingu í hverju tilviki um sig.
    Forsendur peningaúthlutunarinnar eru ekki ákveðnar fyrir fram. Í 7. gr. frumvarpsins er að finna umfjöllun um hugtakið „viðmiðunarvísitölu“ og það er hvergi skilgreint í frumvarpinu. Það á að greiða mun á viðmiðunarvísitölu og raunverulegri vísitölu, en ráðherrann á að ákveða vísitöluna einhvern tímann seinna. Á grundvelli þessara laga mun enginn geta krafist jafnréttis fyrir dómstólum. Það er fullt valdframsal til ráðherra til að ákveða peningaútdeilingu úr ríkissjóði, til að ákveða með reglugerð eftir á hvað hver fær mikið, ekki á grundvelli verðleika eða réttar borgaranna sem hægt er að prófa fyrir dómstóli eða úrskurðarnefnd, heldur til að halda útgjöldum í skefjum að eigin geðþótta eða bara einhverju öðru. Engin lögmælt málefnaleg rök eða forsenda er gefin fyrir þessari viðmiðunarvísitölu. Þetta er undarlegt réttlæti og leikreglurnar eru engar.
    Í september 2013 samþykkti Alþingi frumvarp um fordæmalausar heimildir Hagstofu Íslands til að safna upplýsingum um skuldastöðu og tekjur einstaklinga, með þeim skýringum að þessi víðtæka upplýsingasöfnun ætti að vera forsenda ákvarðana um aðgerðir í skuldum heimilanna. Það var skynsamlegt, enda var ítarlega rakið í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar í nóvember 2013 hversu miklum árangri aðgerðir síðustu ríkisstjórnar skiluðu á liðnu kjörtímabili. Það var því full ástæða til að greina stöðuna upp á nýtt í ljósi þeirra og kanna hvar skórinn kreppti. Þegar horft er til þeirrar ófullkomnu aðferðafræði sem einkennir þetta frumvarp er algerlega óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin beið ekki eftir niðurstöðu greiningar Hagstofunnar á grundvelli þessara nýju lagaheimilda, áður en útfærsla var ákveðin með svo mörgum óvissuþáttum um forsendur og áhrif aðgerðanna.
    Ísland hefur um áratugi verið verðbólgusamfélag og verðbólga löngum verið miklu meiri en í öðrum vestrænum löndum. Gengi íslensku krónunnar hefur verið mjög óstöðugt. Allir viðurkenna að misgengi undanfarinna ára má fyrst og fremst rekja til gengisfalls krónunnar frá því óraunhæfa bólugengi sem var hér árin fyrir hrun. Sú ákvörðun stjórnvalda að ríkisvæða tjón af gengisfalli krónunnar með þessum hætti vekur margar spurningar og skapar varhugavert fordæmi. Ef tjón af gengisfalli og verðbólgu er bótaskylt tjón af hendi ríkisins hlýtur hagnaður af gengisfalli og verðbólgu að mega skattleggjast sérstaklega. Mörg fordæmi eru fyrir því í íslenskri sögu að sérstakir skattar séu lagðir á tímabundinn bólugróða. Ríkisstjórnin hefur ekki gert neina tilraun til að afla slíkra tekna og þvert á móti lagt sig fram um að létta álögum af þeim atvinnugreinum sem hafa hagnast sérstaklega á gengisfellingum síðustu ára. Í þessu er mikil ósamkvæmni fólgin.

Fjöldi heimila undanskilinn.
    Aðgerðin léttir skuldabyrði fasteignaeigenda. Hún bætir ekki með almennum hætti tjón af verðbólgu, enda hafa margir aðrir borið tjón af henni en skuldarar verðtryggðra fasteignalána. Nægir þar að nefna námsmenn sem skulda verðtryggð námslán. Ríkisstjórnin hefur enga úrlausn boðað fyrir þann hóp. Margir skuldarar verðtryggðra húsnæðislána hafa heldur ekkert tjón liðið vegna húsnæðiskaupa, svo sem þeir sem keyptu húsnæði fyrir síðustu aldamót. Verð hefur hækkað mun meira lán á því tímabili, en þessir skuldarar munu samt eiga rétt á „leiðréttingu“ samkvæmt þessu frumvarpi.
    Tillagan bætir ekki heldur með almennum hætti stóraukinn húsnæðiskostnað, því að úrlausnin er bundin við skuldara í eigin húsnæði.
    Stórir hópar í erfiðri stöðu fá enga leiðréttingu þó að húsnæðiskostnaður þeirra hafi vaxið með verðbólgu og sé meiri en eðlilegt getur talist.
    Nýleg úttekt Hagstofunnar sýndi að húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er mun þyngri hjá leigjendum en þeim sem eiga húsnæði. Árið 2013 var þróunin í þá átt að húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum jókst hjá leigjendum en minnkaði hjá húsnæðiseigendum.
    Auðvelt er að koma til móts við hópa sem leigja hjá lokuðum leigufélögum. Þar er oft um að ræða tekjulágt fólk: öryrkja, fólk sem fær félagslega aðstoð og námsmenn. Lækkun verðtryggðra skulda leigufélaga mun leiða beint til lækkunar á leigu. Óskiljanlegt er að þessir hópar fái ekki leiðréttingu, í ljósi þeirra greininga sem þó liggja fyrir um hversu mikill hluti leigjenda glímir við mikinn húsnæðiskostnað. Þessi hópur sem stendur höllum fæti á erfiðara en þeir sem eru tekjuhærri með að mæta sínum forsendubresti. Samt á hann að borga af almannafé fyrir skuldaniðurfellingar þeirra sem eru betur stæðir án þess að staða hans sé bætt. Það er ekki sanngjarnt eða réttlátt á neinn mælikvarða.
    Auðvelt og sanngjarnt er að bæta stöðu búseturéttarhafa sem eru félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögum. Þeir greiða af sérgreindum, verðtryggðum lánum sem hvíla á íbúðum þeirra og mynda stofn til vaxtabóta. Engin rök hafa verið færð fram um hvers vegna búseturéttarhafar skuli ekki njóta leiðréttingarinnar. Vafasamt er að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að skilja þann hóp undan framkvæmd leiðréttingarinnar. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins, sem undanskilja húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarfélög leiðréttingunni, eru fullkomlega órökstudd og byggjast ekki á efnislegri greiningu, heldur virðast fyrst og fremst stafa af á einhvers konar óvild stjórnarmeirihlutans í garð leiguhúsnæðis og búseturéttar og bitna þannig á leigjendum og búseturéttarhöfum.
    Frumvarpið felur í sér fleiri illskiljanlegar ráðstafanir. Þannig er gerð krafa um að lán hafi verið tekið sem verðtryggt lán. Því fá þeir skuldarar sem skulduðu lögleg gengistryggð lán hjá Íslandsbanka, SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankanum, en fengu þau endurútreiknuð með lögum nr. 151/2010, enga sambærilega leiðréttingu þótt lán þeirra séu nú að öllu leyti sambærileg við verðtryggð lán sem tekin voru fyrir hrun. Engin rök hafa verið færð fyrir þessari niðurstöðu. Lánsveðshópurinn er skilinn eftir og fær einungis takmarkaða úrlausn nú. Ríkisstjórnin hefur ekki efnt það samkomulag sem síðasta ríkisstjórn gerði við lífeyrissjóðina um úrlausn fyrir lánsveðshópinn og hefur þannig misst af því að fá aðkomu þeirra að því að kosta úrlausn fyrir lánsveðshafa. Með þessari aðgerð er veðstaða lífeyrissjóða með lánsveð styrkt umtalsvert og þeir því tryggðir enn frekar, án þess að leggja nokkuð á móti. Ríkisstjórnin hefur þannig klúðrað því að tryggja aðkomu lífeyrissjóðanna að úrlausn lánsveðsvandans, styrkt veðstöðu þeirra óumbeðið en ekki tryggt lánsveðsskuldurum sambærilega úrlausn og öðrum þeim sem skulda umfram verðgildi eigna.

Dreifing skuldaniðurfellinga.
    Ef aðeins er horft á þau heimili sem eru með fasteignalán vegna húsnæðiskaupa líkt og gert er í frumvarpinu kemur í ljós að dreifing niðurfellinganna er ósanngjörn. Aðgerðin tekur ekkert tillit til þess að margir sem keyptu húsnæði löngu fyrir hrun hafa hagnast á húsnæðiskaupum og eiga miklar uppsafnaðar eignir þess vegna. Nefndin fékk ekki fullnægjandi upplýsingar um hvernig niðurfellingarnar skiptast eftir eignarhlut í fasteign eða heildareignum.
    Sé horft fram hjá því hvernig niðurfellingarnar dreifast eftir eignum þá eru þær samt ósanngjarnar. Þær fela í sér flutning á peningum frá þeim fátækari til þeirra ríkari, frá ungu fólki og öldruðu til þeirra sem eru á besta aldri og frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
    Það er athyglisvert að óverulegar upplýsingar hafa komið fram um hversu hátt hlutfall stóreignafólks fær peninga, hversu hátt hlutfall af peningunum fer til þeirra sem eru með gríðarlega háar tekjur eða hversu hátt hlutfall það er sem fer til fólks sem ber mjög léttan húsnæðiskostnað, fólks sem keypti fyrir löngu og hefur aldrei orðið fyrir neinum forsendubresti því að verðmæti eigna þeirra hefur hækkað meira en lánið.
    Í septembermánuði 2013 veitti Alþingi Hagstofunni víðtækar heimildir til upplýsingasöfnunar. Forsendur þeirrar lagabreytingar var sú stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að upplýsingarnar ættu að verða grunnur ákvarðana um ráðstöfun fjár til leiðréttingar húsnæðislána. Óskiljanlegt er að ekki skuli beðið fyrstu greininga Hagstofunnar á grundvelli þessara aðgerða.
    Undirritaður óskaði við meðferð málsins í nefndinni eftir að upplýst yrði um eftirfarandi:
          Hversu stór hluti skuldaleiðréttingar fer til fólks með mjög lágan húsnæðiskostnað?
          Hvernig dreifist skuldaleiðréttingin á hópa eftir eign í húsnæði og heildareignum?
          Hversu margir sem nú eru í greiðsluvanda komast úr greiðsluvanda vegna aðgerðarinnar?
    Nefndin gekk ekki eftir því að fá þessar upplýsingar. Undirritaður hefur í tvígang spurt forsætisráðherra um dreifingu aðgerðanna, fyrst með skriflegri fyrirspurn 2. desember 2013 (þskj. 287 í 219. máli) og síðan með skýrslubeiðni 20. janúar sl. (þskj. 522 í 273. máli) en í hvorugt skiptið fengið þau sundurgreindu svör sem beðið var um. Heildardreifingin er því óljós og það er líka óvíst hversu stór hluti verður enn í vanda eftir þessar aðgerðir, sem og hvort ríkissjóður verður aflögufær um lausnir fyrir þann hóp þegar þessi peningagjöf verður fullnýtt.
    Gert er ráð fyrir að hámarksniðurfærsla verði 4 millj. kr. á heimili. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að örfáir munu njóta þeirrar skuldalækkunar, því að allt er dregið af þeim sem einhverja úrlausn hafa fengið. Hið sama á við um þær almennu aðgerðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili. Því munu einungis einstaklingar sem eiga yfir 20 millj. kr. skuldlausar eða hjón sem eiga yfir 30 millj. kr. skuldlausar fá allar 4 millj. kr. sem lofað hefur verið. Allir hinir munu fá hámarksupphæðina skerta.
    Þar við bætist að til stendur að draga frá allar sértækar úrlausnir ætlaðar heimilunum í mestum vanda sem ríkisstjórn jafnaðarmanna stóð fyrir á fyrra kjörtímabili. Þannig munu allar skuldalækkanir vegna sértækrar skuldaaðlögunar og greiðsluaðlögunar koma til lækkunar á leiðréttingunni. En einkasamningar einstaklinga við banka um aðrar afskriftir koma ekki til frádráttar. Sérstaklega var óskað eftir því að upplýst yrði um heildarfjárhæð skuldaafskrifta til einstaklinga í bankakerfinu frá 2009–2013, svo að unnt væri að greina hversu háar fjárhæðir hefðu verið afskrifaðar hjá einstaklingum sem engu síður munu njóta fulls og óskerts réttar samkvæmt þessu frumvarpi, en meiri hluti nefndarinnar var ekki tilbúinn að bíða niðurstöðu þeirrar beiðni. Fjöldamargir einstaklingar sömdu við bankann sinn um lækkun skulda utan ramma sértækrar skuldaaðlögunar eða greiðsluaðlögunar. Fjárhæðir slíkra afskrifta geta numið milljörðum og ríkisstjórnin hefur enga tilraun gert til að greina þessa upphæð. Þetta er stóralvarleg veila í framkvæmd leiðréttingarinnar. Þessi forréttindahópur – sem kannski átti meiri eignir, hafði hærri laun eða þekkti til í bankakerfinu og fékk þess vegna betri kjör – mun fá leiðréttinguna óskerta, en þeir sem fóru formlega leið, því að þeir fengu enga úrlausn aðra, verða skertir. Hér er því boðið heim þeirri hættu að fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu sem býr hlið við hlið og var í áþekkri skuldastöðu fái fullkomlega ósambærilega úrlausn. Ef Jón fór í gegnum 110% leiðina með formlegum hætti en Sigurður samdi við bankann sinn um hliðstæða úrlausn með óformlegum hætti kann Jón að eiga engan rétt en Sigurður fullan rétt til leiðréttingar. Almennt má því segja að af þeim takmörkuðu gögnum sem fyrir liggja má ráða að leiðrétting ríkisstjórnarinnar nýtist best þeim best settu og mismuni fólki í sambærilegri stöðu með einstaklega ósvífnum hætti.
    Sé horft fram hjá því hvernig niðurfellingarnar dreifast eftir eignum þá eru þær samt ósanngjarnar. Niðurfellingar fara að meðaltali vaxandi með hærri tekjum. Fjórðungur niðurfellingarinnar (20 milljarðar kr.) fer til heimila sem eru með árstekjur yfir 10 millj. kr. Þær tekjur duga í flestum tilvikum vel til að tryggja sómasamlegan húsnæðiskost. Minna en helmingur niðurfellingarinnar fer til þeirra sem eru yngri en 45 ára og eru líklegri en hinir eldri til að vera með mikla skuldabyrði og börn á framfæri. Sé dreifing skuldaniðurfellinganna skoðuð eftir því hvort börn séu á heimilinu kemur í ljós að aðeins tæplega 40 milljarðar kr. fara til barnlausra fjölskyldna sem að öðru jöfnu eiga auðveldara með að tryggja húsnæðisöryggi sitt og eiga í minni fjárhagsvandræðum en barnafjölskyldur. Engar greiningar komu fram um hvort og í hvaða mæli aðgerðin mundi hjálpa heimilum sem eiga í greiðsluvandræðum eða eiga erfitt með að ná endum saman, þrátt fyrir ítrekaða beiðni. Af gögnum sem þó liggja fyrir má vera ljóst að aðgerðunum er ekki beint þangað sem þeirra er helst þörf.

Slæm efnahagsleg áhrif.
    Efnahagsáhrif þessara aðgerða eru að mati greiningaraðila neikvæð og hafa í för með sér kostnað fyrir þjóðina.
    Ástæðan er sú að efnahagsbati undanfarinna ára hefur rutt burt slaka í hagkerfinu. Fyrir örfáum árum var höfuðviðfangsefni hagstjórnarinnar að verja kjör hinna verst stöddu, stöðva hrun í landsframleiðslu (neikvæðum hagvexti) og ná verðbólgu, atvinnuleysi og vöxtum niður úr hæstu hæðum. Þær aðgerðir sem þá var gripið til í því skyni að létta undir með skuldugum heimilum höfðu jákvæð efnahagsleg áhrif, enda studdu þær við getu heimila til að standa undir skuldbindingum sínum en var ekki beint að þeim sem höfðu full ráð á að standa undir skuldum. Efnahagsbati síðustu ára, sem núverandi ríkisstjórn reynir að eigna sér við hvert tilefni, hefur leitt til þess að mikilvægustu verkefnin í stjórnun efnahagsmála eru afnám gjaldeyrishafta og að skapa skilyrði fyrir meiri fjárfestingu. Skuldaniðurfellingin og aukin einkaneysla vinnur þvert á þessi markmið.
    Seðlabankinn telur að tími slaka í hagkerfinu sé liðinn og þar af leiðandi kalli þessar aðgerðir á viðbrögð af hálfu bankans, hærri vexti vegna meiri verðbólgu og vegna þrýstings á gengið og minni fjárfestingar. Þetta eru staðreyndir sem ríkisstjórnarmeirihlutinn virðist ekki hafa áttað sig á, sbr. ítrekaðar yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarflokkanna og meiri hluta nefndarinnar um jákvæð áhrif aðgerðanna.
    Efnahags- og viðskiptanefnd gerði enga greiningu á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna og ekki heldur eftir að hún ákvað að auka verulega umfang aðgerðanna með breytingartillögum við frumvarp um séreignarsparnað. Seðlabankinn lagði mat á hver áhrif frumvarpsins yrðu á hinar ýmsu efnahagslegu stærðir en gera hefði þurft kostnaðar- og ábatagreiningu á grunni þeirra gagna, sérstaklega í ljósi þess að niðurstöður Seðlabankans gáfu skýr viðvörunarmerki um slæmar efnahagslegar afleiðingar vegna aðgerðanna.
    Í niðurstöðum Seðlabankans segir að skuldaniðurfellingar muni auka einkaneyslu og verðbólgu. Þrátt fyrir að gera ráð fyrir mótvægisaðgerðum áætlar Seðlabankinn að uppsöfnuð verðbólga vegna aðgerðanna verði 1,5%. Það hækkar verðtryggð lán heimila um 22 milljarða kr. 72 milljarða kr. niðurfelling er lækkun sem nemur 5% af verðtryggðum skuldum eða einungis 3,5% lækkun sé hækkun vegna verðbólguáhrifa talin með. Þá eru ótalin áhrif verðbólgunnar á útgjöld heimila sem gætu hækkað á ársgrundvelli um tæpa 15 milljarða kr. (einkaneysla heimila var tæplega 1.000 milljarðar kr. árið 2013) og á verðtryggð lán fyrirtækja sem mundu hækka um 7 milljarða kr.
    Vaxtastig mun hækka vegna aðgerðanna. Það bitnar á kaupendum húsnæðis, skuldsettu atvinnulífi og skuldsettum ríkissjóði. Vaxtakostnaður fyrirtækja sem eru með óverðtryggð lán muni aukast um rúmlega 10 milljarða kr. vegna aðgerðanna og vaxtakostnaður ríkisins um 20 milljarða. Miðað er við að vextir á óverðtryggðar skuldir hækki í samræmi við spá Seðlabankans og óverðtryggðar skuldir verði þær sömu á næstu árum og þær eru í dag.
    Kostnaður Íbúðalánasjóðs sem mun falla á ríkissjóð gæti orðið 24 milljarðar kr.
    Þá er ótalið að fjárfesting verður minni sem mun hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og hægja á fjölgun starfa. Verst kemur það niður á langtímaatvinnulausum og ungu fólki sem er að fara á vinnumarkaðinn.
    Áætlað er að gengi íslensku krónunnar veikist um 3,4% með tilheyrandi launalækkunum á Íslandi samanborið við önnur lönd. Skýringin felst í aukinni einkaneyslu sem leiðir til meiri innflutnings. Það er óheppileg þróun sem mun torvelda afnám gjaldeyrishafta vegna mikils útflæðisvanda íslensku krónunnar. Þessi þróun kallar á aðhald í ríkisútgjöldum og frekari niðurskurð útgjalda ríkisins.
    Auk þess er rétt að taka fram að niðurfærsla er því langt frá því að leysa mikinn skuldavanda íslenskra heimila líkt og sagt var við kynningu á aðgerðunum. Heildarskuldir heimila voru 108% af landsframleiðslu árið 2013. 72 milljarða kr. niðurfelling lækkar heildarskuldir þeirra niður í 104% af landsframleiðslu (þá er ekki tekið tillit til hækkana skulda vegna þeirrar verðbólgu sem aðgerðirnar munu hafa í för með sér).
    Kostnaður vegna þeirra efnahagslegu áhrifa sem Seðlabankinn lýsir er margvíslegur. Í töflu hér á eftir er áætlaður kostnaður vegna hækkana á skuldum heimila, fyrirtækja við innlánsstofnanir og ríkisins vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ásamt kostnaði sem fellur á sveitarfélög og Íbúðalánasjóð samkvæmt innsendum umsögnum. Samantektin er ekki tæmandi umfjöllun um kostnað en sýnir 121 milljarða kr. kostnað vegna aðgerðanna. Sá kostnaður er um 50 milljörðum kr. hærri en þeir 72 milljarðar kr. sem fara í niðurfellingar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ekki hefur farið fram kostnaðar- og ábatagreining á aðgerðunum. Það hefði verið nauðsynlegt til gefa skýrari mynd af áhrifum aðgerðanna og veita sýn á hvað kostnaðurinn sem óneitanlega hlýst af aðgerðunum er mikill og hvernig hann skiptist á einstaka hagsmunaaðila. Skortur á þessum grundvallarupplýsingum um heildaráhrif aðgerðanna sýnir vel flumbrugang ríkisstjórnarinnar og meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í málinu.
    Eftir stendur að ef aðgerðin á ekki að verða til einskis er óhjákvæmilegt að aðhaldsstig ríkisfjármála verði aukið til að vinna gegn verðbólguþrýstingi. Ríkisstjórnin hefur ekki svarað því hvernig hún muni bregðast við í ríkisfjármálum til að þetta verði ekki til einskis. Hvaða skatta mun ríkisstjórnin hækka eða hvar verður skorið niður?

Framkvæmd.
    Skuldaniðurfellingarnar greiðast inn á lán á 1. veðrétti sem eru oftast þau lán sem eru á hagstæðustu kjörunum. Eðlilegt væri að skuldarar gætu valið hvaða lán þeir greiða niður. Þannig gætu þeir greitt niður óhagstæð lán án þess að þurfa greiða uppgreiðslugjald.
    Það sem gerir útfærsluna í frumvarpinu enn ósanngjarnari er að síðasta ríkisstjórn breytti lögum um greiðslujöfnun árið 2009. Þá var annars vegar kveðið á um að lánastofnunum væri skylt að þola það að lán lengdust að hámarki um þrjú ár við greiðslujöfnun þannig að sá hluti lánanna sem færi inn á greiðslujöfnunarreikning safnaðist upp. Nú er það einhliða ákvörðun ríkisstjórnarmeirihlutans að setja greiðslur á greiðslujöfnunarreikningum í forgang og hlífa fjármálafyrirtækjum við því að þurfa að geyma þessar afborganir og mögulega afskrifa það sem upp safnast ef lánin kunna að lengjast um meira en þrjú ár, algerlega án efnislegrar röksemdafærslu.

Engar breytingar á útfærslu skuldaniðurfellinga voru kannaðar.
    Hér hafa verið raktir margir gallar á frumvarpinu. Einnig hefur verið bent á að efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki kallað eftir fullnægjandi greiningu á dreifingu niðurfellinganna og ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur kosið að bíða ekki greiningar Hagstofunnar á skuldavandanum.
    Þær greiningar sem fyrir liggja sýna, þótt fátæklegar séu, að frumvarpið felur í sér flutning á peningum frá þeim tekjuminni og meðaltekjufólki til þeirra ríkari, frá ungu fólki og öldruðu til fólks á besta aldri og frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir þessa augljósu ágalla var ekki ráðist í neina vinnu til að leita sanngjarnari lausna og freista þess að skilgreina og afmarka raunverulegan forsendubrest og bæta hann, eins og áherslur Samfylkingarinnar í skuldamálum höfðu að markmiði í kosningabaráttunni 2013. Áhrif eigna- og tekjutenginga voru ekki könnuð, né heldur að beina stuðningi í auknum mæli til þeirra sem eru í greiðsluvanda. Hugmyndir um að niðurfellingarnar rynnu í auknum mæli til þeirra sem keyptu á versta tíma voru ekki heldur kannaðar.

Alþingi, 12. maí 2014.

Árni Páll Árnason.