Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1114  —  319. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem
tengjast fiskeldi (flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó.
     2.      2. tölul. 1. gr. orðist svo: Sjókvíaeldissvæði: Fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem gert er ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni og möguleiki er að fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldisstöðvar á sama svæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins. Afmörkun sjókvíaeldissvæða tekur á hverjum tíma mið af niðurstöðum rannsókna á dreifingu sjúkdómsvalda.
     3.      2. gr. orðist svo:
              Í stað orðsins „Fiskistofu“ í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 12. gr., 1. og 4. málsl. 2. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. 14. gr., 17. gr. og 2. mgr. 21. gr. laganna; og í stað orðsins „Fiskistofa“ í 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 14. gr., 2. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælastofnun.
     4.      Á eftir 2. málsl. 3. efnismgr. 3. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi innan mánaðar frá því að umsóknin berst stofnuninni.
     5.      Í stað orðanna „skal Matvælastofnun afla“ í fyrri málslið efnismálsgreinar 4. gr. komi: getur Matvælastofnun aflað.
     6.      Lokamálsliður 1. efnismgr. 5. gr. orðist svo: Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, nema fyrir liggi heimild Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 17. gr. þeirra laga til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
     7.      A-liður 7. gr. orðist svo: Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal kveðið á um skyldu til notkunar erfðavísa þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um utanáliggjandi merkingu á eldislaxi til að auðveldara sé að aðgreina hann frá villtum laxi.
     8.      Á eftir 7. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við fyrri málslið 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: og m.a. staðfest að því er varðar sjókvíaeldi laxfiska að framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó.      9.      B-liður 9. gr. (14. gr. b) orðist svo:

Trygging.

             Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal umsækjandi leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Ábyrgðartrygging takmarkast við að greiða þann kostnað sem til fellur við að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu, sbr. 21. gr. b. Ábyrgðartrygging skal gilda út gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár að gildistíma loknum. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um trygginguna í reglugerð.
     10.      Á eftir 1. málsl. efnismálsgreinar 10. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málsl. ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði.
     11.      11. gr. orðist svo:
            3. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.
     12.      Við 12. gr.
                  a.      A-liður (20. gr. a) orðist svo:

Umhverfissjóður sjókvíaeldis.

                     Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.
                  b.      1. og 2. málsl. b-liðar (20. gr. b) orðist svo: Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu frá ráðherra sem fer með umhverfismál.
                  c.      Í stað tölunnar ,,6“ í e-lið (20. gr. e) komi: 12.
     13.      Á eftir 12. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skyldu til notkunar geldstofns í sjókvíaeldi.
     14.      1. málsl. b-liðar 13. gr. (21. gr. b) orðist svo: Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað fiskeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, gera við búnað og hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi.
     15.      Efnismálsgrein 16. gr. orðist svo:
             Skipulagsstofnun er ekki skylt að taka til efnislegrar meðferðar tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu ef hin tilkynnta framkvæmd er fyrirhuguð á sama framkvæmdastað og önnur framkvæmd sem þegar er til efnislegrar málsmeðferðar á grundvelli laga þessara og þar sem fullnægjandi gögn liggja fyrir að mati Skipulagsstofnunar. Sama gildir þegar fyrir liggur ákvörðun samkvæmt þessari grein eða álit skv. 11. gr. um framkvæmd á sama framkvæmdastað. Ef hin tilkynnta framkvæmd er þauleldi á fiski í sjó á sama við ef hún er innan tiltekinnar fjarlægðar frá útmörkum eldissvæðis framkvæmdar, sbr. reglugerð um fiskeldi. Ákvæði þetta á ekki við ef ekki hefur verið gefið út leyfi fyrir þeirri framkvæmd sem var til efnislegrar meðferðar hjá Skipulagsstofnun innan þriggja ára frá því að framkvæmd var tilkynnt samkvæmt þessari grein eða tillaga að matsáætlun var lögð fram til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 8. gr.