Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1136  —  10. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um byggingu nýs Landspítala.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Geir Gunnlaugsson landlækni, Pál Matthíasson og Ingólf Þórisson frá Landspítala, Ólaf G. Skúlason frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ebbu Margréti Magnúsdóttur og Örn Þorvarð Þorvarðsson frá læknaráði Landspítalans, Dögg Pálsdóttur og Orra Ormarsson frá Læknafélagi Íslands, Eyjólf Eysteinsson og Hauk Ingimarsson frá Landssambandi eldri borgara, Ellen Calmon frá Öryrkjabandalagi Íslands, Dag B. Eggertsson og Sigurð Björn Blöndal frá Reykjavíkurborg, Þorbjörn Guðmundsson frá Samiðn, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Andrés Magnússon og Kristján Guðmundsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, fjárlaganefnd Alþingis, hjúkrunarráði Sjúkrahússins á Akureyri, landlæknisembættinu, Landspítalanum, læknaráði Landspítalans, hjúkrunarráði Landspítalans, Landssambandi eldri borgara, Læknafélagi Íslands, Reykjavíkurborg, Samiðn, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að ljúka við undirbúning að byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík svo fljótt sem verða má og hefja að því loknu byggingu hans. Lagt er til að Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður fái heimild til lántöku fyrri byggingarkostnaði. Ríkisstjórnin veiti fulla atbeina til að ljúka við bygginguna, inni af hendi stjórnvaldsathafnir og leggi nauðsynleg lagafrumvörp fyrir Alþingi til samþykktar.
    Mikil vinna hefur átt sér stað við hönnun á endurnýjun og endurbótum á húsakosti Landspítalans. Sagan er ágætlega rakin í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Frumhönnunarvinna er langt komin og þá hefur deiliskipulag verið samþykkt fyrir lóð spítalans við Hringbraut. Starfsemi Landspítalans er nú dreifð um alla borg í yfir 100 byggingum en í því felst mikið óhagræði fyrir rekstur spítalans sem og fyrir öryggi sjúklinga. Veigamiklar byggingar spítalans eru illa farnar og kemur það niður á aðstöðu starfsfólks og öryggi sjúklinga. Það er vandkvæðum bundið að kaupa sum af þeim tækjum sem þörf er á því núverandi byggingar bera ekki tækin. Það er aðkallandi að ráðist sé í endurnýjun og uppbyggingu húsnæðis Landspítala til að stuðla að áframhaldandi heilbrigðiskerfi sem stenst alþjóðlegan gæðasamanburð. Mikilvægt er að stjórnvöld haldi áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið og stefni að uppbyggingu sjúkrahússins á þeim grunni. Í svari heilbrigðisráðherra nýlega við fyrirspurn formanns velferðarnefndar kom fram að nú sé unnið að greiningu á því hvort hægt sé að áfangaskipta verkefninu frekar en gert hefur verið ráð fyrir hingað til með það fyrir augum að hægt verði að hefja uppbyggingu spítalans sem fyrst. Þá kemur fram að allar meginbyggingar séu nú forhannaðar og á fjárlögum fyrir árið 2014 var veitt 100 millj. kr. fjárheimild til að halda áfram með fullnaðarhönnun á sjúkrahóteli og munu á næstunni verða valdir aðilar til að klára þann hluta og ætti fullnaðarhönnun að vera lokið í mars 2015. Vaxandi stuðningur er við verkefnið eins og t.d. stofnun nýrra samtaka, Spítalinn okkar, ber vott um.
    Í greinargerð þingsályktunartillögunnar eru nefndir þrír möguleikar við fjármögnun verkefnisins. Í fyrsta lagi hefðbundin fjármögnun ríkisframkvæmda, í öðru lagi að ríkissjóður fjármagni framkvæmdina með lántöku og í þriðja lagi fjármögnun með sérstakri tekjuöflun, t.d. með sölu ríkiseigna. Í umsögn fjárlaganefndar til velferðarnefndar kemur fram að í bókum ríkisins yrði væntanlega ekki gerður greinarmunur á fyrstu tveimur leiðunum sem nefndar eru í þessu sambandi sem í báðum tilfellum hefðu í för með sér að ríkissjóður yrði að gjaldfæra fjárfestinguna eftir því sem framkvæmdum miðar áfram. Velferðarnefnd tekur ekki afstöðu til fjármögnunar og telur rétt að sérfræðingar stjórnvalda útfæri það með hvaða hætti best sé að tryggja fjárveitingu til verkefnisins svo ekki komi niður á mikilvægum þáttum í rekstri ríkissjóðs. Nefndin leggur því til að 2. og 3. málsl. tillögunnar falli brott.
    Nefndin telur mikilvægt að þverpólitísk samstaða ríki um Landspítalann og telur samþykkt þessarar tillögu til þess fallna að skýra stefnu stjórnvalda og að hraða uppbyggingu sjúkrahússins. Nefndin leggur því til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                      Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala.

    Elín Hirst og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. maí 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Þórunn Egilsdóttir. Björt Ólafsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Guðbjartur Hannesson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.