Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1151  —  600. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða
Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Óumdeilt er að verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair hafa mikil og víðtæk samfélagsleg áhrif, ekki síst á ferðaþjónustu og fyrirtæki sem tengjast henni, en líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Verkföll hafa yfirleitt áhrif á þriðja aðila og á það við um verkfallsaðgerðir flugmanna hjá Icelandair eins og aðrar verkfallsaðgerðir. Víðtæk neikvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Slík áhrif þurfa því að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.
    Minni hlutinn leggur ríka áherslu á að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og telur ótvírætt að mjög þung rök þurfi til að grípa inn í hann með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans geta komið til álita. Fram hefur komið að þótt bil sé milli aðila séu samningar ekki fullreyndir og t.d. sé ekki enn komin fram miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara.
    Við sérstakar aðstæður, þegar um einstaka kjaradeilu er að ræða sem hefur mjög víðtæk áhrif og bil milli aðila er óbrúanlegt, getur inngrip löggjafans komið til álita. Slík réttlæting hefur í ýmsum tilvikum verið talin vera fyrir hendi, en þá hefur ávallt verið um að ræða einstakar deilur sem hafa verið úr samhengi við heildstæða kjaramálastefnu á vinnumarkaði.
    Nú horfir öðruvísi við. Sú deila sem hér um ræðir kemur beint í kjölfar lagasetningar á yfirvinnubann örfárra undirmanna á Herjólfi. Deilan nú er líka einungis sú fyrsta í langri röð kjaradeilna sem stefna í vinnustöðvanir að óbreyttu. Á afgreiðsludegi frumvarpsins stendur yfir daglangt verkfall grunnskólakennara, verkfallsaðgerðir sjúkraliða standa yfir og nýafstaðið er verkfall framhaldsskólakennara. Þá standa yfir kjaraviðræður við flugvirkja og flugliða hjá Icelandair svo dæmi séu tekin.
    Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu, svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu nr. 167/2002 þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar ítarlega vísað til lögskýringargagna. Í máli ASÍ fyrir nefndinni kom fram að þetta frumvarp stæðist ekki þá sáttmála sem við erum aðilar að, m.a. reglur Alþjóða Vinnumálastofnunarinnar, og sé brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Núverandi stjórnarmeirihluti hefur þegar samþykkt lög á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi á grunni staðbundinna hagsmuna, sem hæpið er að geti talist uppfylla þá ríku kröfu um skilgreiningu almannahagsmuna sem fram koma í fyrrnefndum dómi. Því er full ástæða til að gera athugasemdir við þá vegferð sem stjórnarmeirihlutinn virðist kominn á. Með lagasetningu á Herjólfsdeiluna gaf stjórnarmeirihlutinn skýr skilaboð til vinnuveitenda í greinum sem sinna mikilvægri þjónustu á borð við samgöngur um að gripið yrði inn í kjaradeilur við minnstu truflun á reglulegri starfsemi. Með því var samningsstaða launamanna veikt verulega og hún sett í mikla óvissu. Það er því komið á daginn að lögin á Herjólfsdeiluna voru mjög afdrifarík mistök, eins og minni hlutinn varaði við á sínum tíma.
    Minni hlutinn lýsir áhyggjum af því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar. Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda. Nú blasir við að fleiri stéttir gætu hafið verkföll á næstu vikum og mánuðum
    Minni hlutinn leggur því á það ríka áherslu að ekki verði gripið til neyðarlagasetninga af hálfu ríkisstjórnarinnar í því þinghléi sem framundan er. Lög á kjaradeilur virðast orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og eru því ekki réttlætanleg með neyðarréttarsjónarmiðum í þinghléi. Þau eru þvert á móti orðinn fyrirsjáanlegur þáttur kjaramálastefnu stjórnvalda. Það er fagnaðarefni að innanríkisráðherra hefur lýst því yfir fyrir sitt leyti að heimildir til setningar bráðabirgðalaga verði ekki nýttar í þinghléi vegna vinnustöðvana, en ekki eru allar deilurnar á sviði ráðherrans. Því er óhjákvæmilegt að forsætisráðherra veiti almenna yfirlýsingu um slíkt hið sama.

Alþingi, 15. maí 2014.

Katrín Júlíusdóttir,
frsm.
Katrín Jakobsdóttir. Brynhildur S. Björnsdóttir.
Jón Þór Ólafsson.