Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1161  —  568. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012,
með síðari breytingum (veiðigjöld 2014/2015, afkomustuðlar).


Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson, Hinrik Greipsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnar Haraldsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Ólaf Darra Andrason og Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Snorra Björn Sigurðsson, Aðalstein Þorsteinsson og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Almar Guðmundsson og Björgu Á. Þórðardóttur frá Félagi atvinnurekenda, Guðmund Ragnarsson og Guðmund Helga Þórarinsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Guðjón Bragason og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólaf Arnarson frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Grétar Mar Jónsson frá Samtökum íslenskra fiskimanna, Elliða Vignisson fyrir hönd Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og Vestmannaeyjabæ, Drífu Snædal frá Starfsgreinasambandi Íslands og Friðrik Má Baldursson, Indriða H. Þorláksson og Þórólf Matthíasson.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fjarðabyggð, Grindavíkurbæ, Hafrannsóknastofnun, Indriða H. Þorlákssyni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fiskvinnslustöðva, Landssambandi línubáta, Landssambandi smábátaeigenda, ríkisskattstjóra, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Félagi atvinnurekenda, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum íslenskra fiskimanna, Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, Sjómannasambandi Íslands, Vestmannaeyjabæ, Viðskiptaráði Íslands og Vinnslustöðinni hf.
    Í frumvarpinu felast þrenns konar breytingar: Í fyrsta lagi er lagt til að á fiskveiðiárinu 2014/2015 verði veiðigjöld ákveðin sem föst krónutala á afla úr sjó. Í öðru lagi að veiðigjöldum verði jafnað niður á grundvelli útreiknings á afkomustuðlum nytjastofna. Í þriðja lagi er lögð til breyting á frítekjumarki og á ákvæðum um lækkun veiðigjalda vegna kvótakaupa.
    Við samþykkt laga um veiðigjöld, nr. 74/2012, var lögfest ákvæði til bráðabirgða þess efnis að sérstök veiðigjöld yrðu fyrsta árið fest í krónutölu fyrir annars vegar botnfiskveiðar og hins vegar uppsjávarveiðar. Einnig var í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir ákveðnum aðlögunartíma þannig að sérstaka veiðigjaldið yrði lægra fyrstu tvö árin eftir gildistöku laganna. Lögum um veiðigjöld var breytt með lögum nr. 84/2013, þar sem veiðigjöld yfirstandandi fiskveiðiárs (2013/2014) voru ákveðin með ákvæði til bráðabirgða. Í frumvarpinu er byggt á því að álagning verði sambærileg þeirri sem var lögfest fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en að teknu tilliti til ytri aðstæðna í sjávarútvegi. Verðvísitala sjávarafurða hefur lækkað síðustu missiri auk þess sem horfur á mörkuðum eru slæmar miðað við síðustu mánuði.
    Lagt er til í 5. gr. frumvarpsins að veiðigjöld á komandi fiskveiðiári (2014/2015) verði enn ákvörðuð með ákvæði til bráðabirgða sem verði ákveðin fjárhæð á hvert kíló afla upp úr sjó, skipt eftir nytjastofnum. Gert er ráð fyrir því að heildarfjárhæð veiðigjalda verði ákveðin sem 35% af grunni sem er allur hagnaður við veiðar og 20% af hagnaði fiskvinnslu. Gjaldið er annars vegar lagt á botnfisktegundir og hins vegar uppsjávartegundir. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að verði það óbreytt að lögum verði heildarfjárhæð veiðigjalda á næsta fiskveiðiári (2014/2015) um 9,45 milljarðar kr. en að teknu tilliti til frádráttar, þ.e. frítekjumarks og skuldalækkunar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II, er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum á næsta fiskveiðiári verði um 8 milljarðar kr.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að álagning veiðigjalda og innheimta þeirra verði ekki til þess að skapa óstöðugleika og óvissu í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Umræða um auðlindagjald og sanngjarnan hlut þjóðarinnar í afrakstri sjávarútvegsins er áralöng. Hugmyndafræðin um álagningu veiðigjalda á svokallaðan umframarð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið deilumál og skapað átök um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjávarútvegur er. Meiri hlutinn telur að hugmyndafræðilegur ágreiningur megi ekki leiða til þess að skapa óvissu í sjávarútvegi og því telur meiri hlutinn nauðsynlegt að ná frekari sátt um framtíðarfyrirkomulag þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir. Mikilvægt er að hafa í huga að há álagning gjalda af þessu tagi vinnur gegn því markmiði laga um stjórn fiskveiða að standa vörð um fjölbreytta útgerð og öflug byggðarlög.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni hefur áætlaður afli verið endurmetinn og í ljósi þess hafa forsendur frumvarpsins breyst. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að vinna úttekt á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja árið 2013 og á mati á markaðshorfum. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til endurskoðun gjaldsins enda kemur fram í úttekt Hagfræðistofnunar að framlegð sjávarútvegsfyrirtækja frá árinu 2012 hafi minnkað um 20–25%. Þar sem áætlaður afli hefur verið endurmetinn verður því um óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs að ræða. Breytingartillaga meiri hlutans við 5. gr. frumvarpsins lýtur að því að miðað verði við að veiðigjald leggist á kíló afla úr sjó (óslægður afli og slitinn humar). Líkt og framar er getið er gjaldið endurreiknað í ljósi nýrra upplýsinga um aflahorfur í makríl, loðnu og þorski á næsta fiskveiðiári. Verði breytingartillagan samþykkt verða tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi svipaðar og gert er ráð fyrir í frumvarpinu eða um 8 milljarðar kr. Séu þau gjöld skoðuð í samhengi við tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja í sjávarútvegi undanfarin ár má sjá að tekjur ríkissjóðs af sjávarútvegi hafa sjaldan verið hærri.
    Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum um veiðigjöld er kveðið á um tímabundinn rétt útgerða til lækkunar sérstaks veiðigjalds vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeild til ársloka 2011, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Getið er um það í ákvæðinu við hvað lækkun miðast en hún verður aldrei hærri en sem svarar til 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali. Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að niðurfelldar skuldir á tilteknu tímabili leiði til þess að afsláttur sem hefur verið gefinn af veiðigjaldi verði endurreiknaður. Fram kom við umfjöllun um málið að skýra þyrfti hvað átt væri við með orðunum „niðurfelldar skuldir“. Til viðbótar við lækkun skulda vegna rekstrar- og greiðsluerfiðleika er átt við lækkun vegna endurreiknings og skilmálabreytinga. Meiri hlutinn leggur til viðbót við ákvæðið til að taka af allan vafa um að lækkun skulda vegna skilmálabreytinga og/eða endurreiknings í kjölfar dómsmála falli þarna undir. Jafnframt leggur meiri hlutinn til viðbót við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum sem felst í því að binda lækkun sérstaks veiðigjalds vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum við það að um sé að ræða kaup á íslenskum aflahlutdeildum. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á 4. gr. til lagfæringar á ártali í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum.
    Á yfirstandandi þingi hefur verið mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld þar sem lögð er til breyting á 5. gr. þeirra (372. mál). Í breytingunni felst að fjöldi fulltrúa í samráðsnefnd þingmanna um veiðigjöld ráðist af fjölda þingflokka á Alþingi en takmarkist ekki við fimm manns eins og samkvæmt gildandi lögum. Einnig er mælt fyrir um að störf í nefndinni séu ólaunuð. Meiri hlutinn leggur til að ákvæði þetta bætist við frumvarpið.
    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Þar er kveðið á um annars vegar niðurfellingu veiðigjalda og hins vegar lækkun veiðigjalda eftir atvikum á yfirstandandi fiskveiðiári eða á almanaksárinu 2014. Í fyrsta lagi er með breytingartillögunni gert ráð fyrir því að veiðigjöld á þorsk og meðafla hans í rússneskri og norskri lögsögu verði felld niður fyrir almanaksárið 2014. Helstu rökin fyrir þeirri ákvörðun eru að sókn á þessi fjarlægu mið er kostnaðarsöm. Auk þess háttar þannig til um veiðar á þorski og þann meðafla sem þar kemur að olíuverð og annar kostnaður við sóknina hefur hækkað mikið og enn fremur hefur afurðaverð á þessum fisktegundum á alþjóðamarkaði lækkað töluvert eins og sjá má á þróun undirvísitalna um botnfiskafurðir sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir. Því leggur meiri hlutinn til að veiðigjöld vegna þessara veiða verði felld niður tímabundið, enda er talið mikilvægt að veiðireynsla viðhaldist.
    Jafnframt leggur meiri hlutinn til að veiðigjöld fyrir almanaksárið 2014 verði ekki reiknuð á úthafskarfa sem er veiddur á ICES-svæði I og II (Síldarsmugunni). Um þennan karfa gilda enn sem komið er ekki strandríkjasamningar, heldur er veiðum stjórnað af NEAFC með hámarkskvóta sem fyrir árið 2014 er ákveðinn 19.500 tonn. Veiðireynsla íslenskra skipa er afar takmörkuð og því mikilvægt að þessi karfi sé undanþeginn veiðigjöldum sem að öðrum kosti gætu tekið alfarið fyrir nýtingu þessa möguleika þegar stofninn verður hlutasettur milli veiðiþjóða.
    Veiðar á úthafsrækju voru gefnar frjálsar að tilteknu heildarhámarki árið 2010/2011 og hafa frá þeim tíma verið stundaðar af ýmsum skipum, bæði skipum sem höfðu hlutdeild og öðrum sem ekki höfðu hlutdeild í úthafsrækju. Ljóst er samkvæmt gögnum sem ráðuneytið hefur aflað sér að afkoma veiðanna hefur ekki verið þannig að hún standi undir veiðigjöldum. Dohrnbankarækja veiðist á svæði milli Íslands og Grænlands norður af Vestfjörðum. Stefnt hefur verið að samningi milli landanna um nýtingu stofnsins sem finnst báðum megin miðlínu. Sókn Íslendinga í stofninn hefur verið mjög lítil frá 2006. Hér er lagt til að álagning veiðigjalda fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 á úthafsrækju og Dohrnbankarækju verði felld niður.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að veiðigjöld á lindýr og skrápdýr verði felld niður vegna fiskveiðiársins 2013/2014, enda um brautryðjendastarf að ræða sem nauðsynlegt er að styðja við til þess að auka fjölbreytni veiða í tegundum sem eru utan hinna hefðbundnu fiskstofna. Hér er t.d. átt við sæbjúga. Afkoma veiðiskipa er á þann veg að þetta er talið nauðsynlegt.
    Veiðar á kolmunna hafa verið stundaðar um alllangt árabil. Sókn í þennan fiskstofn hefur byggst á strandríkjasamkomulagi frá árinu 2005. Heildarveiði Íslands í kolmunna hefur verið í tonnum sem hér segir. Árið 2005 265.515 tonn, árið 2006 314.768 tonn, árið 2007 237.854 tonn, árið 2008 163.793 tonn, árið 2009 120.202 tonn, árið 2010 87.908 tonn, árið 2011 5.882 tonn, árið 2012 63.056 tonn, árið 2013 104.918 tonn og áætlað útgefið magn árið 2014 er 154.000 tonn. Stærstur hluti aflans er veiddur í færeyskri lögsögu, sem þýðir að sóknarkostnaður er mjög mikill. Nauðsynlegt þykir að nýta þær veiðiheimildir sem Ísland fær úr þessum deilistofni og því er rétt að leggja til lækkun á veiðigjöldum ársins 2014 um 50%. Afkoma veiðanna hefur verið með þeim hætti að lækkun er talin nauðsynleg til þess að veiðar haldi áfram.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. maí 2014.

Jón Gunnarsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson.
Haraldur Einarsson. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.