Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 568. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1202  —  568. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, með síðari breytingum (veiðigjöld 2014/2015, afkomustuðlar).

(Eftir 2. umræðu, 16. maí.)


1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi kýs nefnd þingmanna úr öllum þingflokkum til að fjalla um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar um sérstakt veiðigjald. Störf í nefndinni eru ólaunuð.

2. gr.

    Í stað orðanna „afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: aflamagn hvers gjaldskylds aðila.

3. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Við álagningu sérstaks veiðigjalds á gjaldskyldan aðila skal álagning sem ekki nær 250.000 kr. felld niður og þá skulu 250.000 kr. dregnar frá reiknuðu gjaldi sem fer umfram þau mörk áður en til álagningar þess kemur.

4. gr.

    Í stað orðanna „hvert þorskígildi“ í 6. mgr. 14. gr. laganna kemur: það aflamagn.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað fiskveiðiársins „2017/2018“ í 1. og 2. mgr. kemur: 2016/2017.
     b.      Á undan orðinu ,,aflahlutdeildum“ í 1. mgr. kemur: íslenskum.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem verða 6. og 7. mgr., svohljóðandi:
                      Ef aðili sem sótt hefur um lækkun sérstaks veiðigjalds fær eða hefur fengið skuldir felldar niður, þ.m.t. vegna skilmálabreytinga, að einhverju leyti á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. desember 2016 skal endurreikna lækkun skv. 1. og 2. mgr. þannig að niðurfelldar skuldir á umræddu tímabili, reiknaðar til verðlags í desember 2011 miðað við vísitölu neysluverðs, verði dregnar frá vaxtaberandi skuldum í árslok 2011 og vaxtagjöld samkvæmt skattframtali fyrir árið 2011 lækkuð í sama hlutfalli. Þessi málsgrein gildir um lækkun sérstakra veiðigjalda fyrir fiskveiðiárin 2014/2015 til 2016/2017. Þrátt fyrir ákvæði 117. gr. laga um tekjuskatt skal ríkisskattstjóri veita Fiskistofu upplýsingar um niðurfellingu skulda samkvæmt framtölum umsækjenda um lækkun fyrir árin 2012– 2016.
                      Niðurfelling skulda sem stofnað var til eftir 5. júlí 2012 hefur engin áhrif á rétt til lækkunar sérstaks veiðigjalds, enda skili umsækjandi um lækkun sérstaks veiðigjalds greinargerð til Fiskistofu um viðkomandi skuldaniðurfellingu ásamt öllum gögnum sem Fiskistofa telur nauðsynleg til þess að sannreyna stofntíma skuldarinnar. Ef um er að ræða endurfjármögnun á skuld sem var til staðar 5. júlí 2012 leiðir niðurfelling á henni til endurútreiknings skv. 6. mgr.

6. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (III.)
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. skulu veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2014/ 2015 vera sem hér segir, í krónum á hvert kíló aflamarks (slægðan afla og slitinn humar):

Almennt gjald Sérstakt gjald Alls
Blálanga 4,58 2,21 6,79
Búrfiskur 26,98 12,99 39,97
Djúpkarfi 7,17 3,45 10,62
Grálúða 12,75 6,14 18,89
Grásleppa 4,21 2,03 6,24
Gullkarfi 6,93 3,34 10,27
Gulllax 2,43 1,17 3,60
Hlýri 10,00 4,81 14,81
Humar 23,69 11,40 35,09
Keila 3,74 1,80 5,54
Kolmunni 1,00 1,33 2,33
Langa 5,93 2,85 8,78
Langlúra 2,64 1,27 3,91
Litli karfi 2,48 1,19 3,67
Loðna 1,50 2,52 4,02
Lýsa 3,33 1,60 4,93
Makríll 2,32 3,92 6,24
Rækja 1,00 0,00 1,00
Sandkoli 1,38 0,66 2,04
Síld 3,00 5,06 8,06
Skarkoli 6,91 3,33 10,24
Skrápflúra 1,29 0,62 1,91
Skötuselur 15,62 7,52 23,14
Steinbítur 9,57 4,61 14,18
Ufsi 5,84 2,81 8,65
Úthafskarfi 8,98 4,32 13,30
Ýsa 12,28 5,91 18,19
Þorskur 8,98 4,32 13,30
Þykkvalúra/Sólkoli 16,86 8,11 24,97
Öfugkjafta 1,09 0,15 1,24

    Af öðrum nytjastofnum en í töflunni greinir skal greiða 1 kr. í almennt veiðigjald.
    Ráðherra skal vinna tillögur að endurskoðun þessara laga sem lagðar verði fram á Alþingi á löggjafarþinginu 2014–2015.

    b. (IV.)
    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr., sbr. 1. málsl. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr., skal fella niður álagningu almenns og sérstaks veiðigjalds á eftirfarandi tegundir:
     1.      Þorsk og meðafla hans í rússneskri og norskri lögsögu vegna almanaksársins 2014.
     2.      Úthafskarfa sem veiddur er á ICES-svæði I og II (í Síldarsmugunni) vegna almanaksársins 2014.
     3.      Dohrnbankarækju, úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes vegna fiskveiðiársins 2013/2014.
     4.      Lindýr og skrápdýr vegna fiskveiðiársins 2013/2014.
    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr., sbr. 1. málsl. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr., skal lækka álagt almennt og sérstakt veiðigjald vegna veiðiheimilda í kolmunna vegna almanaksársins 2014 um 50%.
    Endurgreiða skal öll innheimt veiðigjöld skv. 1. mgr. og helming innheimts veiðigjalds skv. 2. mgr. innan tveggja mánaða frá gildistöku laga þessara.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 2.–4. gr. og a-liður 5. gr. koma til framkvæmda við álagningu veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2014/2015 sem hefst 1. september 2014.
    Um álagningu og lokainnheimtu veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2013/2014 fer þó samkvæmt ákvæðum laganna óbreyttum, sbr. lög um breytingu á þeim nr. 84/2013.