Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1286  —  557. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur
um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til gildandi varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma?
    Um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma gildir auglýsing nr. 793/2009. Á árinu 2007 hóf Matvælastofnun vinnu við endurskoðun á auglýsingu nr. 155/1987, um varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða, með það að markmiði að leggja niður þær línur þar sem sjúkdómastaða helstu sauðfjársjúkdóma beggja vegna línanna væri orðin sambærileg í kjölfar markvissra aðgerða þar að lútandi. Einnig var talið mögulegt að ná fram sparnaði með þessum aðgerðum sem hægt yrði að nýta til betra viðhalds á þeim girðingum sem eftir stæðu og voru metnar nauðsynlegar.
    Ekki er kunnugt um annað en að vel hafi tekist til með fækkun varnargirðinga á árinu 2009 í kjölfar auglýsingar nr. 793/2009 og unnið hefur verið að niðurrifi aflagðra girðinga í samræmi við fjármagn þar að lútandi. Matvælastofnun, sem annast alla framkvæmd við viðhald varnargirðinganna, hefur á undanförnum árum unnið að gerð gagnagrunns um legu og ástand núverandi varnargirðinga og verður þeirri vinnu væntanlega lokið á þessu ári.
    Fyrirhugað er að skipa starfshóp til að annast heildarendurskoðun á núverandi fyrirkomulagi vegna sauðfjárveikivarnarlína þar sem m.a. væri tekið tillit til sjúkdómasjónarmiða og hagrænna áhrifa.

     2.      Hyggst ráðherra vinna í samræmi við viljayfirlýsingu um viðhald varnargirðinga sem undirrituð var af þáverandi ráðherra 23. apríl 2013?
    Framangreind viljayfirlýsing var gerð af þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í tengslum við undirritun samkomulags um ráðstöfun sjóða sem innheimtu hafði verið hætt til, á grundvelli laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Framangreint samkomulag skilaði 40 millj. kr. til viðhalds varnarlína á árinu 2013 en tillaga Matvælastofnunar til fjárlaga fyrir árið 2014, þar sem gert var ráð fyrir að veitt yrði 35,5 millj. kr. framlag vegna varnargirðinga til að hefta útbreiðslu sauðfjársjúkdóma, náði ekki fram að ganga.
    Með vísan til svars við 1. tölul. telur ráðherra að fyrir þurfi að liggja áætlun um þörf á viðhaldi varnargirðinga.