Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 612. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1303  —  612. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um eftirlit með veiðum á hrefnu og langreyði.


     1.      Fylgjast eftirlitsmenn með þeim hrefnuveiðum sem hófust nú í vor?
    Fiskistofa sinnir reglubundnu eftirliti með hrefnuveiðum og hefur því verið sinnt nú í vor.

     2.      Hvernig verður eftirlitinu háttað í sumar, annars vegar varðandi hrefnuveiðar og hins vegar veiðar á langreyði?
    Eftirlit með hvalveiðum fer fyrst og fremst fram með skoðun á skipum og veiðibúnaði, veiðiaðferðum, mælingaraðferðum, sýnatöku og því hvort veiðarnar séu stundaðar á leyfilegum svæðum. Auk þess er gengið úr skugga um að um borð séu menn með tilskilda reynslu og leyfi.
    Í sumar mun norskur dýralæknir koma til landsins en hann mun fara í veiðiferðir með hvalveiðiskipum og mæla dauðatíma hvala, bæði hrefnu og langreyða. Hann mun verða við störf í 6–8 vikur.

     3.      Hvaða upplýsingum verður safnað og hvernig verða þær gerðar opinberar?
    Þegar útgerð veiðir hval ber að senda tilkynningu um það til Fiskistofu þar sem fram kemur veiðistaðsetning, kyn og lengd dýrs. Þeim upplýsingum er safnað og þær vistaðar á Fiskistofu. Upplýsingar um heildarfjölda veiddra dýra eru birtar í ársskýrslu Fiskistofu.
    Skýrslur vegna eftirlitsferða Fiskistofu verða vistaðar á Fiskistofu en ekki gerðar opinberar. Ef upp koma brotamál fá þau sína lögformlegu meðferð. Almennar upplýsingar vegna eftirlitsins eru gerðar aðgengilegar í ársskýrslu Fiskistofu.
    Í sumar verður dauðatími hvala mældur en þær upplýsingar verða ekki gerðar opinberar. Upplýsingarnar verða kynntar í nefnd Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) um veiðiaðferðir og bornar saman við niðurstöður sambærilegra mælinga annarra aðildarríkja NAMMCO.

     4.      Hvað mun eftirlitið kosta og hvernig verður það fjármagnað?
    Kostnaður eftirlitsins mun ráðast af umfangi þess en það er greitt af útgerðum hvalveiðiskipa. Leyfisgjald vegna hvalveiða mun verða að hluta nýtt til að kosta aðkomu norsks dýralæknis vegna mælinga á dauðatíma hvala. Einnig má geta þess að verið er að gaumgæfa hvernig leggja megi á veiðigjöld vegna veiða á hval.