Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 581. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1305  —  581. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um reglur um urriðaveiði í Þingvallavatni .


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra tímabært, með tilliti til viðkvæmrar stöðu ísaldarurriðans í Þingvallavatni, að setja í krafti 3. tölul. 1. mgr. 53. gr. náttúruverndarlaga reglur um veiði í vatninu svipaðar þeim sem Þingvallanefnd hefur sett um veiði fyrir þinghelginni þar sem gert verði að meginreglu að stangveiddum urriða sé sleppt?

    Reglur varðandi veiðar og vernd urriða í Þingvallavatni er að finna í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, og einnig í lögum um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, nr. 85/2005, þar sem eru ákvæði um að vernda skuli lífríki vatnsins og gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna.
    Staða urriðans í Þingvallavatni er ekki nægjanlega þekkt, að mati Veiðimálastofnunar, en hún er þó talin vera betri nú en hún var fyrir þær aðgerðir sem gripið var til um og eftir síðustu aldamót. Skráningu á veiði urriða er einnig ábótavant að mati sérfræðinga og ástæða til að bæta hana. Verið er að skoða möguleika á að endurskapa aðstæður urriðans til hrygningar við útfall Þingvallavatns, sem skiptir líklega mestu varðandi vernd urriðans.
    Varðandi aðferðir við stangveiðar væri æskilegt að Veiðifélag Þingvallavatns taki það til skoðunar, sbr. 19. gr. laga um lax- og silungsveiði, og meti hvort ástæða sé talin til þess að setja reglur um vatnið í heild svipað því sem nú gildir í þinghelginni að ákvörðun Þingvallanefndar. Ef talin er ástæða til að takmarka veiðar í vatninu hefur Fiskistofa slíka heimild samkvæmt lögum um lax- og silungsveiðar, sem byggð skal vera á mati Veiðimálastofnunar.
    Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 53. gr. náttúruverndarlaga um tegunda- og búsvæðavernd henta einkum við heildstæða vernd tegunda eða búsvæða. Skoða þarf hvort ástæða sé til þess að skoða heildstæða vernd urriðastofnsins í Þingvallavatni á grundvelli þessa ákvæðis. Reglur um sleppingar á urriða við stangveiðar eru í höndum Veiðifélags Þingvallavatns, sbr. 19. gr. laga um lax- og silungsveiði.