Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 610. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1310  —  610. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni um áhrif Íslands
á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hyggst forseti Alþingis fylgja eftir þingsályktun nr. 15/141 um að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs?

    Þingsályktun sú sem fyrirspyrjandi vísar til var samþykkt á Alþingi 26. febrúar 2013. Tillagan tók mið af þverpólitískri samstöðu sem Evrópunefnd, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka, markaði með áliti sínu 7. mars 2007 en í álitinu var m.a. hvatt til aukinnar þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi.
    Í samræmi við þá meginreglu að það er í verkahring hlutaðeigandi ráðuneytis í Stjórnarráði Íslands, en ekki forseta Alþingis, að fylgja eftir ályktunum Alþingis var hún send utanríkisráðuneytinu til afgreiðslu með bréfi dags. 7. mars 2013.
    Forseti, sem á sínum tíma var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, telur að hér sé um brýnt hagsmunamál að ræða. Það er því sérstakt fagnaðarefni að í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var 11. mars 2014, er lögð áhersla á að efla hagsmunagæslu á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra gildandi samninga Íslands og Evrópusambandsins.
    Það er ljóst að nokkur kostnaður mun leiða af framkvæmd þingsályktunartillögunnar en með hliðsjón af eindregnum vilja Alþingis og þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin undir forustu utanríkisráðherra hefur markað er þess að vænta að málið komi til umfjöllunar á Alþingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.