Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 32  —  32. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.


Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Oddný G. Harðardóttir,
Páll Valur Björnsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Haraldur Einarsson,
Páll Jóhann Pálsson, Ásmundur Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að tryggja að á Hornafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 141. löggjafarþingi (174. mál) og 143. löggjafarþingi (334. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt.
    Hornafjarðarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið. Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að tryggja að til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi.
    Í janúar 2008 unnu Flugstoðir greinargerð að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn að millilandaflugvöllum og til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika og hver kostnaðurinn við breytingar af þessu tagi gæti verið. Í greinargerðinni kemur fram að gera þarf endurbætur á öryggis- og eftirlitsþáttum á umræddum flugvöllum þannig að hægt verði að taka á móti minni farþegaflugvélum í millilandaflugi og vélum í ferjuflugi. Í greinargerðinni eru möguleikar og kostnaðaráhrif þessara ráðstafana metin en í aðalatriðum eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til. Gera þarf örlitlar breytingar á viðauka 1 við reglugerð um útlendinga, nr. 53/2003, og bæta Hornafjarðarflugvelli við lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Auk þess þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 464/2007 um flugvelli vegna mannvirkja og vegna öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis og skilyrði reglugerðar nr. 985/2011 um flugvernd.
    Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 464/2007 skulu millilandaflugvellir falla undir flokkinn flugvöllur I í skilningi reglugerðarinnar. Hornafjarðarflugvöllur fellur nú undir flokkinn skráður lendingarstaður. Þegar flugvöllur er fluttur úr flokknum lendingarstaður til áætlunarflugs upp í flugvöll í flokki I og skilgreindur sem millilandaflugvöllur hafa ákvæði framangreindra reglugerða fyrst og fremst áhrif á kostnað. Kröfur reglugerðar nr. 464/2007 til mannvirkja fela einkum í sér stofnkostnað vegna mannvirkja, svo sem öryggissvæða. Kostnaður vegna krafna reglugerðar nr. 464/2007 til gæða- og öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis hlýst af starfsliði til að vinna við verkefnin, bæði á vellinum sjálfum og hjá miðlægum deildum Flugstoða. Stofnkostnaður sem hlýst af þeim kröfum sem gerðar eru í reglugerð nr. 985/2011 er vegna vopnaleitarbúnaðar, breytinga á aðstöðu o.fl. auk þess sem kostnaðarauki er vegna viðbótarstarfsliðs við vopnaleit og umsýslu vegna flugverndar bæði á flugvellinum sjálfum sem og hjá miðlægum deildum Flugstoða.
    Mikilvægt er að Hornafjarðarflugvöllur verði styrktur eins og lagt er til í þessari tillögu. Flutningsmenn leggja áherslu á mikilvægi þess að ráðist verði í þá vinnu sem fyrst til að treysta enn frekar atvinnulíf í Hornafirði og nágrenni og stuðla að frekari uppbyggingu og vexti Vatnajökulsþjóðgarðs.