Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 35  —  35. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar,
Oddný G. Harðardóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna bætist: og þeim sem fá greiddan ellilífeyri skv. 17. gr. ef þeir hafa fyrir 67 ára aldur fengið greidda aldurstengda örorkuuppbót.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þeir sem fengu greiddan ellilífeyri fyrir gildistöku laga þessara og höfðu fengið greidda aldurstengda örorkuuppbót þar til þeir urðu 67 ára skulu einnig eiga rétt á aldurstengdri örorkuuppbót frá 1. janúar 2015, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er endurflutt óbreytt frá 143. þingi (498. mál).
    Með frumvarpinu er lagt til að örorkulífeyrisþegar sem fá greidda aldurstengda örorkuuppbót skv. 21. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, fái hana einnig greidda eftir að þeir hafa náð 67 ára aldri. Samkvæmt gildandi lögum er aldurstengd örorkuuppbót ekki greidd til ellilífeyrisþega sem veldur því að margir örorkulífeyrisþegar verða fyrir tekjutapi við það eitt að verða 67 ára þrátt fyrir að aðstæður þeirra breytist að öðru leyti ekki neitt við það aldursmark. Á það sérstaklega við um þá örorkulífeyrisþega sem verða öryrkjar og óvinnufærir ungir að árum. Aldurstengd örorkuuppbót er bótaflokkur sem er hugsaður sem uppbót fyrir þá sem verða öryrkjar ungir að árum og hafa því safnað sér litlum réttindum í lífeyrissjóðum og fá því lágar greiðslur þaðan. Fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar miðast við þann aldur sem einstaklingur er fyrst metinn 75% öryrki. Fjárhæðin lækkar síðan eftir því sem einstaklingur verður eldri þegar hann er metinn 75% öryrki. Sterk rök standa til þess að greiðslurnar haldi sér eftir 67 ára aldur enda engin hlutlæg ástæða fyrir því að tekjur öryrkja lækki við það eitt að verða 67 ára enda koma ekki til við þann aldur neinar auknar greiðslur á grundvelli annarra laga eða reglna.
    Um 16 þúsund einstaklingar fá nú greidda aldurstengda örorkuuppbót í hverjum mánuði. Mánaðarleg heildargreiðsla aldurstengdrar örorkuuppbótar er um 245 millj. kr. á mánuði og er því meðalgreiðsla til hvers einstaklings ríflega 15.000 kr. á mánuði að meðaltali. Ljóst er að þessi útgjöld munu aukast við samþykkt frumvarpsins en nú eru tæplega 7 þúsund einstaklingar ellilífeyrisþegar sem áður voru örorkulífeyrisþegar og fengu greidda aldurstengda örorkuuppbót. Ef miðað er við fjölda skráðra ellilífeyrisþega í janúar sem voru þar áður skráðir örorkulífeyrisþegar, og miðað er við hvenær þeir urðu öryrkjar, má gera ráð fyrir því að kostnaður við að halda áfram að greiða þeim einstaklingum aldurstengda örorkuuppbót sé um 20 millj. kr. á mánuði. Gróflega áætlað má gera ráð fyrir því að viðbótarkostnaður á næsta ár verði um 240–250 millj. kr. verði frumvarpið samþykkt. Í hinu stóra samhengi opinberra almannatrygginga er ekki um háar fjárhæðir að ræða en fyrir hvern einstakling sem byggir framfærslu sína á ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga skipta greiðslurnar verulegu máli og því um mikilvægt réttlætismál fyrir þann hóp að ræða.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeir ellilífeyrisþegar sem fengu greidda aldurstengda örorkuuppbót til 67 ára aldurs en hafa eftir þann aldur ekki fengið greidda uppbótina geti einnig átt rétt á aldurstengdri örorkuuppbót að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um almannatryggingar.