Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 36  —  36. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,
með síðari breytingum (vörugjald á jarðstrengi).

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á 143. löggjafarþingi (506. mál) og afgreitt til 2. umræðu með sameiginlegu nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar þar sem mælt var með samþykkt frumvarpsins er komið var að þinglokum. Ekki varð hins vegar af afgreiðslu þess í annríki lokadaga þingsins. Frumvarpið er því endurflutt í óbreyttri mynd og er þess vænst að það fái nú farsæla fullnaðarafgreiðslu, enda virðist orðin samstaða um efni þess.
    Með lagafrumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, sem felur það í sér að tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I við lögin. Breytingin felur það í sér að 15% vörugjald sem lagt er á vörur í umræddu tollskrárnúmeri fellur niður. Undanfarin þrjú ár hafa tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á tollskrárlið nr. 8544.6000 verið 108.844.044 kr. árið 2011, 126.632.362 kr. árið 2012 og 213. 512.533 kr. árið 2013.
    Undir tollskrárnúmerið 8544.6000 falla einangraðir rafmagnsleiðarar fyrir meira en 1000 V spennu. Er hér um jarðstrengi til raforkuflutnings að ræða sem er valkostur á móti loftlínum. Efni í loftlínur til raforkuflutnings ber ekki vörugjald og verður því 15% vörugjaldið sem lagt er á jarðstrengina til þess að bjaga forsendur vals á milli jarðstrengja og loftlína allverulega, en talið er að allt að 5% kostnaðar við lagningu jarðstrengja geti stafað af vörugjaldinu. *
    Engin eða að minnsta kosti minni sjónmengun hlýst að jafnaði af jarðstrengjum en loftlínum. Jarðstrengir eru varanlegasta og besta lausnin þar sem leiða þarf rafmagn um erfið veðursvæði og er nú svo komið að almennt fer öll endurnýjun dreifikerfis fram með lagningu jarðstrengja. Þá getur lagning jarðstrengja í stað loftlína í vissum tilvikum verið öryggismál, t.d. í nálægð flugvalla. Síðast en ekki síst er val milli jarðstrengja og loftlína iðulega mikið hitamál frá sjónarhóli umhverfisverndar. Vegast þá á annars vegar sjónarmið um að lágmarka sjónræn áhrif og annars konar umhverfisáhrif og hins vegar að velja ódýrari kostinn. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að slíkur samanburður fari fram á hlutlausum grunni hvað skattlagningu snertir. Ljóst er að jarðstrengir geta oft reynst heppilegur kostur við lagningu háspennulína og stuðlað að því að leysa deilur um slík mannvirki og er því með öllu ástæðulaust að heimta hærri gjöld af þeim en af loftlínuefni.
Neðanmálsgrein: 1
*     „Tillögur fulltrúa Landverndar og fulltrúa landeigenda í nefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um raflínur í jörð“, 11. febrúar 2013, bls. 8. Fylgigagn með skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014 (60. mál).