Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 41  —  41. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (endurbygging og viðhald kirkna).


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller, Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015 skal endurgreiða þjóðkirkjusöfnuðum og skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við endurbyggingu og viðhald kirkna eða samkomuhúsa þar sem formlegar athafnir á vegum safnaðanna eða félaganna fara fram. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Jafnframt skal endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög hafa greitt fyrir þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með endurbyggingu eða viðhaldi kirkna eða samkomuhúsa. Sú endurgreiðsla skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 30 dögum eftir að ríkisskattstjóra berst erindið.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi í sama búningi en kom of seint fram til að hljóta umræðu (353. mál 143. þings).
    Hér er lagt til að við lög um virðisaukaskatt bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbyggingu og viðhald kirkna og húsakynna þar sem formlegar athafnir fara fram á vegum þjóðkirkjusafnaða og annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Ákvæðið er hliðstætt ákvæði til bráðabirgða XV sem fyrir er í lögunum og kveður á um endurgreiðslu vegna vinnu við viðhald og endurbyggingu íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða.
    Í því augnamiði að ýta undir aukna starfsemi á byggingarmarkaði og sporna við svartri atvinnustarfsemi í kjölfar bankahrunsins samþykkti Alþingi á 136. löggjafarþingi lög nr. 10/ 2009, um breyting á lögum um virðisaukaskatt, sem mæltu fyrir um fyrrgreinda endurgreiðslu vegna íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða. Í kjölfar samþykktar frumvarpsins var átakinu „Allir vinna“ hleypt af stokkunum í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Markmið ákvæðisins var að hvetja landsmenn „til þátttöku í stórum sem smáum verkum og til að beina viðskiptum sínum að innlendri vöru og þjónustu, fjárfesta í viðhaldi íbúðarhúsnæðis/sumarhúsa og leggja þar með sitt af mörkum til atvinnusköpunar á Íslandi“. Átakið þótti heppnast vel, full endurgreiðsla virðisaukaskatts leiddi til þess að landsmenn réðust í umfangsmiklar framkvæmdir sem skapaði mikilvæg störf, ekki síst fyrir iðnaðarmenn. Í ljósi árangurs af bráðabirgðaákvæðinu hefur gildistími þess því verið framlengdur ítrekað. Endurgreiðsluheimildin hefur nú verið í gildi um hartnær fimm ára skeið.
    Sársaukafullur niðurskurður í kjölfar bankahrunsins kom óhjákvæmilega niður á öllu þjóðfélaginu og íslenska þjóðkirkjan og söfnuðir fóru ekki varhluta af honum. Á síðasta kjörtímabili setti innanríkisráðherra á laggir nefnd til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar og afleiðingar þess að haldið yrði áfram á sömu braut. Í skýrslu nefndarinnar, sem kom út árið 2012, kemur glöggt fram að niðurskurður hefur leitt til þess að endurbygging og viðhald kirkna hefur setið á hakanum. Leiða má að því líkur að sú staða sé alvarleg, enda skapast undir slíkum kringumstæðum veruleg hætta á eyðileggingu verðmæta. Tilgangur þessa frumvarps er ekki síst að koma í veg fyrir það með því að ýta undir að ráðist verði í viðhald slíkra bygginga og nauðsynlega endurgerð þeirra.