Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 75  —  75. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum
(leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Í stað „11%“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 13%.
     b.      Í stað „og 2013“ í 2. mgr. kemur: 2013 og 2014.
     c.      Í stað „sex ár“ í 3. mgr. kemur: sjö ár.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, þar sem mælt er fyrir um tímabundnar heimildir lífeyrissjóðs til þess að hafa aukinn mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun. Samkvæmt núgildandi ákvæði má munurinn ekki vera meiri en 11% fyrir árið 2013. Þess má geta að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga var rekin með –12,5% mun á því ári og A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var rekin með –11,7% mun. A-deildir sjóðanna eru því utan leyfilegra marka að óbreyttum lögum.
    Á undanförnum missirum hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og enn eru nokkur atriði óútkljáð í þeirri vinnu. Meðal atriða sem eru til athugunar er hvernig tryggingafræðileg staða opinberra lífeyrissjóða verði tryggð með tilliti til almennra viðmiða í lögum. Þykir rétt að veita aðilum aukinn tímafrest til þess að leggja lokahönd á tillögurnar.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilað að hafa allt að 13% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2013 í stað 11%.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að heimilt verði að miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í tiltekin sjö ár í röð og í c-lið er sjöunda árinu bætt við.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum
(leyfilegur munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvær efnisbreytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilað að hafa allt að 13% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2013 í stað 11%.
    Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilt að hafa meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í tiltekin sjö ár í röð frá og með árinu 2008 í stað sex ára.
    Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í lok árs 2013 var heildarstaða hennar neikvæð um 11,7% og er það sjötta árið sem tryggingafræðileg staða sjóðsins er neikvæð um meira en 10%. Með þeirri lagabreytingu sem lögð er til í frumvarpinu er því varnað að grípa þurfi til ráðstafana á næsta ári vegna neikvæðrar stöðu A-deildarinnar með öðrum hætti, eins og með hækkun á iðgjöldum sem ríkissjóður greiðir af launum opinberra starfsmanna. Í reglum um A-deild sjóðsins er kveðið á um að deildin skuli á hverjum tíma eiga eignir til að mæta skuldbindingum sínum. Samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, ákveður stjórn sjóðsins árlega iðgjald launagreiðenda þannig að eignir dugi til greiðslu á skuldbindingum í samræmi við niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar. Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum hefði þurft að hækka iðgjaldið úr 15,5% í a.m.k. 16,2% eða um 0,7 prósentustig til að ná tryggingafræðilegri stöðu A-deildar inn fyrir 10% markið á árinu 2015. Árlegur kostn­aður hins opinbera af 0,7 prósentustiga hækkun iðgjalds vegna þeirra opinberu starfsmanna sem aðild eiga að sjóðnum nemur tæplega 1 milljarði kr. Þar af væri hlutur ríkissjóðs nálægt 70% eða um 700 m.kr. Um 30%, eða 300 m.kr., kæmu í hlut sveitarfélaganna. Velta má upp fleiri leiðum til að rétta við tryggingafræðilega stöðu A-deildar en hækkun iðgjalds en erfitt er að leggja mat á hver kostn­aðurinn yrði fyrir ríkissjóð við útfærslu annarra leiða.
    Með þessari frestun gefst meiri tími til að vinna að varanlegri úrlausn á stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í heildstæðu samhengi við lífeyrisréttindi og kjaramál á vinnumarkaði. Að undanförnu hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins unnið að tillögum um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Sú vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og enn eru nokkur atriði óútkljáð í þeirri vinnu. Meðal atriða sem eru til athugunar er hvernig tryggingafræðileg staða opinberra lífeyrissjóða verði tryggð með tilliti til almennra viðmiða í lögum. Þykir rétt að veita aðilum aukinn tímafrest til þess að leggja lokahönd á tillögurnar. Lögfesting þessa frumvarps hefur í för með sér að engin útgjöld ættu að falla á ríkissjóð á árinu 2015 vegna A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, t.d. í mynd hærri lífeyrisiðgjalda, fremur en hingað til. Eftir sem áður þarf að ráða bót á fjárhagsstöðu deildarinnar til lengri tíma litið.