Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 96  —  96. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um stofnun áburðarverksmiðju.


Flm.: Þorsteinn Sæmundsson, Vigdís Hauksdóttir, Páll Jóhann Pálsson,
Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson,
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna svo fljótt sem verða má hagkvæmni og möguleika þess að reisa sem fyrst áburðarverksmiðju í Helguvík eða í Þorlákshöfn.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 143. löggjafarþingi (354. mál) og er nú endurflutt óbreytt.
    Undanfarin ár hefur heimsmarkaðsverð á áburði hækkað umtalsvert, einkum vegna aukinna áburðarkaupa Kínverja og Indverja. Heimsmarkaðsverð áburðar náði hámarki árið 2008. Síðan hefur verðið lækkað nokkuð en er nú heldur hærra en fyrir árið 2006. Ljóst er að áburðarverð mun að öllum líkindum haldast hátt í næstu framtíð vegna aukinnar ræktunar matvæla sem nauðsyn er á til að brauðfæða síaukinn mannfjölda. Þannig kemur fram í nýlegri skýrslu OECD að auka þarf matvælaframleiðslu í heiminum um 50% næstu 20 ár.

Nauðsyn atvinnuuppbyggingar.
    Brýn þörf er á að skapa ný vel launuð störf hér á landi til að vinna bug á atvinnuleysi, til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni. Öll skilyrði eru fyrir hendi hér á landi til uppbyggingar og rekstrar áburðarverksmiðju. Tiltölulega einfalt er að vinna köfnunarefni hér á landi. Einnig er nóg vatn og ódýr raforka til staðar til vetnisframleiðslu með rafgreiningu. Vinna má brennistein sem nægir fyrir framleiðslu verksmiðjunnar úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar sem nú sleppur út í andrúmsloftið til skaða fyrir fólk og náttúru. Vinnsla brennisteins er aukaafurð hugsanlegrar metanólframleiðslu á Hellisheiði. Með slíkri vinnslu má slá margar flugur í einu höggi, vinna verðmæti úr úrgangi, fullnýta auðlindir okkar og hlífa viðkvæmri náttúru.

Rekstur áburðarverksmiðju.
    Rekstur áburðarverksmiðju byggist einkum á tveimur forsendum, annars vegar nægu rafmagni og hins vegar miklu magni vatns. Einnig þarf að vera til staðar góð hafnaraðstaða sem getur þjónustað stór fragtskip. Auðvelt er að skipa málum þannig bæði í Helguvík og í Þorlákshöfn að framangreind atriði séu uppfyllt. Hópur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju hefur unnið frumáætlun um byggingu verksmiðju sem framleiða mundi 700 þúsund tonn af áburði og 700 þúsund tonn af kalsíumnítrati. Gert er ráð fyrir að 5–600 manns komi að byggingu verksmiðjunnar en að áburðarverksmiðjan skapi 150–200 hálaunuð framtíðarstörf, auk afleiddra starfa. Fjárfesting í verksmiðjunni mun nema rúmum 120 milljörðum kr. samkvæmt áætlunum. Áhugahópurinn kynnti verkefnið fyrir þáverandi stjórnvöldum fyrir u.þ.b. tveimur árum en fékk ekki hljómgrunn. Brýnt er að hefja nú þegar hagkvæmniathugun vegna byggingar áburðarverksmiðju sem lið í því að fjölga hálaunastörfum í gjaldeyrisskapandi starfsemi.