Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 98  —  98. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku,
með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „notar orku“ kemur: tengist orkunotkun.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin skulu tryggja samræmi í visthönnun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sam­eigin­legum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Lög þessi gilda um vörur sem tengjast orkunotkun og fjalla um hvaða kröfur þær skulu uppfylla svo að setja megi þær á markað og/eða taka í notkun hér á landi og veita lagastoð fyrir nánari reglum sem settar verða svo að vara sem tengist orkunotkun megi fara á markað og vera tekin í notkun hér á landi.
     b.      Í stað orðanna „sem nýta orku“ í 2. mgr. og orðanna „notar orku“ í 3. mgr. kemur: sem tengjast orkunotkun; og: tengist orkunotkun.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Farþega- og vöruflutningar falla utan gildissviðs þessara laga.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: Vara sem tengist orkunotkun: Vara sem er sett á markað og/eða tekin í notkun og nýtir orku til að virka sem skyldi eða hefur áhrif á orkunotkun þegar hún er í notkun. Hér teljast einnig með íhlutir orkutengdrar vöru.
     b.      Í stað orðanna „nota orku“ í b-lið kemur: tengjast orkunotkun.
     c.      Við bætast fjórar nýjar orðskýringar, svohljóðandi:
                  a.      Setja á markað: Að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði á Evrópska efnahagssvæðinu til dreifingar eða til notkunar óháð því hvort varan er seld eða gefin til kynningar.
                  b.      Taka í notkun: Að nota vöru með tilætluðum hætti í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  c.      Um­hverfisálag: Öll áhrif á um­hverfið ein­göngu eða að hluta til vegna vöru í gegnum vistferil hennar.
                  d.      Um­hverfisþáttur: Hluti eða virkni vöru sem hefur áhrif á um­hverfi í gegnum vistferil vörunnar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Öll misnotkun á CE-merkinu, svo og notkun sem getur leitt til ruglings við það merki, er bönnuð.
     b.      Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 3. mgr. kemur: Mannvirkjastofnun.

5. gr.

    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Í samræmisyfirlýsingu skv. 1. mgr. skulu eftirfarandi atriði koma fram:
     1.      Nafn og heimilisfang framleiðanda eða viðurkennds fulltrúa hans.
     2.      Lýsing á vörunni, svo sem vörunúmer eða aðrar upplýsingar sem nægja til að bera kennsl á hana án alls vafa.
     3.      Ef við á, tilvísanir í þá samhæfðu staðla sem notaðir eru.
     4.      Ef við á, aðrir tæknistaðlar og forskriftir sem notaðar eru.
     5.      Ef við á, tilvísun í aðra löggjöf þar sem kveðið er á um áfestingu CE-merkisins sem notast er við.
     6.      Auðkenni og undirskrift þess sem hefur umboð til að skuldbinda framleiðandann eða viðurkenndan fulltrúa hans.
    Mannvirkjastofnun birtir á heimasíðu stofnunarinnar tilvísanir í staðla sem gilda um einstaka vörur eða flokk vara sem tengjast orkunotkun.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Kröfur, sem gerðar eru til einstakra teg­unda eða flokka vara í samræmismati, skulu útfærðar í reglugerðum.
                  Mannvirkjastofnun skal ganga út frá því að stjórnunarkerfi, sem eru skráð og staðfest af löggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu, uppfylli kröfur um stjórnunarkerfi.
     b.      Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 2. mgr. kemur: Mannvirkjastofnun.


7. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist: eða tekin til notkunar.

8. gr.

    Í stað orðanna „notar orku“ í 9. gr. laganna kemur: tengist orkunotkun.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 2. málsl. og „Neytendastofa“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: Mannvirkjastofnunar; og: Mannvirkjastofnun.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framkvæmd og eftirlit.

10. gr.

    Í stað 11. gr. laganna koma fimm nýjar greinar sem orðast svo, ásamt fyrirsögnum, og breytist greinatala samkvæmt því:

    a. (11. gr.)

Markaðseftirlit Mannvirkjastofnunar.

    Mannvirkjastofnun tekur við ábendingum og skal fara með markaðseftirlit í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
    Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort vara sem fellur undir lög þessi uppfylli kröfur laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Um faggildinguna gilda ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Beiting úrræða skv. 13. og 14. gr. skal vera í höndum Mannvirkjastofnunar.
    Innflytjandi, framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans hér á landi skal halda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans.

    b. (12. gr.)

Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.

    Mannvirkjastofnun, eða eftir atvikum faggiltri skoðunarstofu, er heimilt að skoða vöru hjá framleiðanda, viðurkenndum fulltrúa hans, innflytjanda eða seljanda, taka sýnishorn af vöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
    Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ber kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem nauðsynlegur er til að framkvæma rannsókn.
    Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ber allan kostnað af athugun á því hvort vara sé í samræmi við settar reglur, svo sem kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, flutningskostnað, svo og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans greiðir auk þess allan kostnað af tilkynningum sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum.
    Mannvirkjastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingarnar, sem veittar eru við málsmeðferðina, teljist trúnaðargögn þegar slíkt telst réttmætt.
    Mannvirkjastofnun skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA ákvarðanir um bann og afturköllun á vörum.

    c. (13. gr.)

Réttarúrræði Mannvirkjastofnunar

    Mannvirkjastofnun getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru sem tengist orkunotkun ef hún uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, þ.m.t. um merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk.
    Mannvirkjastofnun er heimilt að beita dagsektum, allt að 500.000 kr. á dag, til að knýja á um þær skyldur sem lögin kveða á um eða að látið sé af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
    Ef ákvörðun er skotið til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála liggur fyrir.

    d. (14. gr.)

Viðurlög.

    Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 5 millj. kr. og skulu þær renna í ríkissjóð.

    e. (15. gr.)

Kæra ákvarðana Mannvirkjastofnunar.

    Ákvörðunum sem Mannvirkjastofnun tekur á grundvelli laga þessara má skjóta til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála.
    Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
    Nú vill aðili ekki una úrskurði úrskurðarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar.
    Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.

11. gr.

    Í stað orðanna „notar orku“ í 1. mgr. 12. gr. laganna, sem verður 15. gr., kemur: tengist orkunotkun.

12. gr.

    13. gr. laganna, sem verður 17. gr., orðast svo:
    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur (endurútgefin) eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 67/2011, sem birt var 6. október 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54/2011, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.

13. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Neytendastofu og Mannvirkjastofnun. Frumvarpið byggist á tilskipun 2009/125/EB sem breytir gildissviði fyrri tilskipunar 2005/32/EB. Gildandi lög um visthönnun eru rammalöggjöf sem leggur grundvöll fyrir frekari reglusetningu. Breytingar á lögunum sem felast í þessu frumvarpi eru afar lítilvægar en valda því þó að möguleikar til þess að setja frekari reglur aukast nokkuð.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt, að teknu tilliti til breytinga sem lagðar voru til í nefndaráliti atvinnuveganefndar 5. mars 2014. Frumvarpið tekur mið af frumvarpi allsherjar- og menntamálanefndar um færslu markaðseftirlits með rafföngum frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar sem varð að lögum nr. 39/2014 á 143. löggjafarþingi. Frumvarpið tekur sömuleiðis mið af frumvarpi iðnaðar- og við­skipta­ráðherra um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., með síðari breytingum, sem er nú einnig lagt fram á 144. löggjafarþingi.

2. Tilefni, nauðsyn og meginefni lagasetningar.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða með tilhlýðilegum hætti tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009, um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur (endurútgefin). Gildandi lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB en henni hefur verið breytt í veigamiklum atriðum, aðallega hvað varðar gildissvið, en tilskipun 2009/125/EB tekur til allra orkutengdra vara í stað þess að ná ein­göngu til vara sem nota orku. Margar orkutengdar vörur búa yfir miklum möguleikum til umbóta, t.d. með því að draga úr um­hverfisáhrifum og ná fram orkusparnaði með betri hönnun. Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á um­hverfið. Undir tilskipunina og efni frumvarpsins falla ekki einvörðungu vörur sem nota, framleiða, flytja eða mæla orku heldur gætu ákveðnar orkutengdar vörur fallið þar undir, þ.m.t. vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eins og gluggar, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem ætlaðar eru fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausar eða kranar. Enn fremur er tilskipuninni ætlað að tryggja samræmdar reglur og frjálst flæði slíkra vara á innri markaði Evrópusambandsins. Þannig er ráðgert að vörur tengdar orkunotkun sem uppfylla kröfur varðandi visthönnun skuli merktar með CE-merkinu og þeim fylgi viðeigandi upplýsingar til þess að unnt sé að setja þær á innri markað og tryggja frjálsan flutning þeirra. Lagasetningin er nauðsynleg til þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-rétti um samræmda löggjöf á EES- svæðinu og til að koma í veg fyrir að heimilt verði að flytja til landsins vörur sem tengjast orkunotkun og uppfylla ekki kröfur annars staðar á EES-svæðinu. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efniskröfum um orkunýtingu vara sem nota orku.
    Með frumvarpinu er aukinheldur stefnt að því að auka og skilgreina betur valdheimildir opinberra aðila vegna brota á lögum um visthönnun vöru sem notar orku. Neytendastofa hefur gegnt því hlutverki samkvæmt lögum nr. 42/2009 en í framangreindu nefndaráliti atvinnuveganefndar, dags. 5. mars 2014, var lögð til sú breyting að Mannvirkjastofnun sinni eftirliti á grundvelli laganna. Er þar tekið fram að stofnunin annist nú þegar markaðseftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd mannvirkjum samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Þá er einnig bent á að 14. maí 2014 samþykkti Alþingi lög nr. 39/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar (forræði rafmagnsöryggismála). Frumvarp þetta, eins og það er hér lagt fram, tekur því mið af þessum breytingartillögum atvinnuveganefndar, sem og lögum nr. 39/2014.
    Með frumvarpinu er reynt að tryggja að ákvæði laga nr. 42/2009 varðandi stjórnsýsluúrræði Mannvirkjastofnunar séu þau sömu og stofnunin hefur samkvæmt öðrum lögum sem hún framfylgir. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að mál er varða brot gegn ákvæðum laganna skuli framsend til lögreglu sem getur lagt sektir á viðkomandi. Við undirbúning þessa frumvarps hefur verið bent á að mun eðlilegra sé að málsmeðferð og viðurlög séu í samræmi við sambærilegt eftirlit sem Mannvirkjastofnun hefur með höndum og sé ekki lengur skipt milli Mannvirkjastofnunar, Neytendastofu og lögreglu. Breyting á valdheimildum Mannvirkjastofnunar er tilkomin vegna reynslu af framkvæmd eftirlitsins og er einnig hluti af innleiðingu tilskipunar 2009/125/EB. Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að eftirlit sé skilvirkt, öflugt og hafi nægileg úrræði. Í tilskipun 2009/125/EB er aðildarríkjum veitt ákveðið svigrúm til framsetningar og útfærslu eftirlitsins. Það eftirlit sem mælt er fyrir um í þessum lögum er ekki umfram það sem tilskipun 2009/125/EB mælir fyrir um og felur heldur ekki í sér neinar undanþágur. Ákvarðanir Mannvirkjastofnunar er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála, en það þykir hagkvæmara, m.a. vegna fjölda mála sem Mannvirkjastofnun tekur ákvarðanir um, að fela það slíkri úrskurðarnefnd fremur en að ákvarðanir sæti endurskoðun hjá ráðuneyti eða ráðherra.

3. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi mikil áhrif á íslenska framleiðendur þar sem framleiðsla fárra innlendra framleiðenda fellur undir ákvæði frumvarpsins en það getur haft áhrif á innflytjendur vara sem tengjast orkunotkun þegar varan kemur í fyrsta skipti inn á EES-svæðið. Hins vegar hefur frumvarpið áhrif á neytendur þar sem það leggur ákveðnar kröfur á framleiðendur um orkunýtni sinna framleiðsluvara og upplýsingaskyldu um orkunotkun viðkomandi vöru. Eins og áður kom fram er með frumvarpinu verið að færa gildissvið gildandi laga út þannig að framvegis taki ákvæði þeirra ekki einvörðungu til vistvænnar hönnunar á vöru sem notar orku heldur einnig vöru sem tengist orkunotkun. Ljóst er að ákvæði laga um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun eiga jafnt við innlenda framleiðendur sem aðra framleiðendur sem framleiða og setja vörur á innri markaðinn í Evrópu. Innflytjendur og dreifingaraðilar verða einnig að tryggja að vörur sem þeir selja og markaðssetja séu í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða og staðla sem kunna að gilda um framleiðslu vörunnar hverju sinni. Á heimasíðu Mannvirkjastofnunar er að finna sam­eigin­leg vefsvæði fyrir öll EES-ríki þar sem eru ítarlegar upplýsingar á íslensku um lög, tilskipanir og framleiðsluferla sem gilda um vörur fyrir innri markaðinn, þ.m.t. um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Mikilvægt er að jafnt framleiðendur sem og innflytjendur kynni sér ávallt gildandi reglur sem gilda um framleiðslu á þeim vörum sem ákvæði laganna taka til. Jafnframt ber seljendum að tryggja að neytendur fái ávallt þær upplýsingar sem kveðið er á um í gildandi lögum varðandi orkumerkingar o.fl. Þá hefur frumvarpið áhrif á hlutverk Mannvirkjastofnunar sem hefur eftirlit með fleiri vörum en áður á grundvelli sjónarmiða um visthönnun.
    Frumvarpið breytir hlutverki Mannvirkjastofnunar og felur henni frekari úrræði sem þóttu ekki nægilega viðamikil í gildandi lögum. Þá skerpa lögin á eftirlitinu sem verður hnitmiðaðra og einfaldara vegna þess að ekki er gert ráð fyrir aðkomu lögreglunnar vegna brota á lögum um visthönnun.
4. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Neytendastofu og Mannvirkjastofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á lögunum til að víkka gildissvið laganna, þannig að lögin gildi einnig um vörur sem tengjast orkunotkun í stað þess að ná aðeins til þeirra sem nota orku. Orkutengdar vörur eru vörur sem geta leitt til minni orkuþarfar. Sem dæmi mætti nefna vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eins og glugga, einangrunarefni eða tilteknar vörur sem ætlaðar eru fyrir vatnsnotkun, t.d. sturtuhausa eða krana. Þéttir gluggar geta leitt til þess að minni þörf er á því að hita upp herbergi og þar með sparast orka. Sturtuhausar og kranar sem eru betur hannaðir og sóa ekki eins miklu vatni leiða einnig til betri orkunýtingar.
    Tilgreint er með ítarlegri hætti en áður markmið laganna og tekið fram að eitt af markmiðunum er að tryggja frjálst flæði vara á sam­eigin­legum markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frjálst flæði vöru er ein af meginreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samræmdar reglur á sviði visthönnunar eiga að tryggja að vara sem uppfyllir kröfur tilskipunar 2009/125/EB verði óhindrað flutt milli markaða á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 2. gr.

    Gildissviði laganna er breytt þannig að vörur sem eru tengdar orkunotkun falla undir gildissvið laganna en ekki einvörðungu vörur sem nota orku. Jafnframt er að finna nýja undanþágu frá gildissviði laganna þar sem farþega- og vöruflutningar eru undanþegnir. Við flutninga á farþegum og vörum er notuð orka og því mundi slíkur flutningur falla undir lögin ef ekki væri fyrir þessa undantekningu.

Um 3. gr.

    Skilgreint er á ný hugtakið „vara sem notar orku“, þ.e. „vara sem tengist orkunotkun“ sem er lykilhugtak vegna breytinga á gildissviði laganna; þar sem lögin taka til orkutengdra vara er það grundvallaratriði að hugtakið sé skýrt skilgreint.
    Þá bætast nýjar skilgreiningar við ákvæðið bætast. Mikilvægt er að skilgreina hvenær vara telst vera sett á markað og hvenær hún er fyrst tekin í notkun. Þessi hugtök hafa sérstaka þýðingu og eru notuð í mörgum tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins. Á meginlandi Evrópu eru sam­göngur milli landa greiðari en frá Íslandi til Evrópu og skapast geta mörg álitaefni um það hver beri ábyrgð á vöru, hver beri ábyrgð á því að láta samræmismat skv. 6. gr. fara fram. Þegar stutt er á milli landamæra getur skipt máli hvenær varan var sett á markað eða fyrst notuð við mat á því í hvaða landi samræmismat á að fara fram. Þá er skilgreint nánar til skýringa hvað hugtökin um­hverfisálag og um­hverfisþáttur fela í sér.

Um 4. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem skýrt kemur fram að bannað er að nota CE- merki í andstöðu við gildandi lög og reglur. Auk þess er öll notkun merkisins sem getur leitt til ruglings við það merki bönnuð. CE-merkið er lögverndað merki sem einungis framleiðendur eða viðurkenndir fulltrúar mega setja á vörur sem mega bera slík merki og er tákn og staðfesting þess að vara uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til hennar í lögum og reglum settum samkvæmt þeim.

Um 5. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem tilgreint er hvað eigi að koma fram í samræmisyfirlýsingu. Þá er bætt við nýrri málsgrein sem kveður á um að Mannvirkjastofnun eigi að birta á heimasíðu sinni þá staðla sem gilda um einstaka teg­undir eða flokka vara.

Um 6. gr.

    Reglugerðir sem settar eru skv. 1. mgr. a-liðar skulu settar til að útfæra framkvæmdaráðstafanir frá framkvæmdastjórninni. Tilskipun 2009/125/EB er rammalöggjöf sem gerir ráð fyrir því að framkvæmdastjórnin útfæri nánar kröfur sem gerðar eru um einstakar teg­undir eða flokka vara. Fyrirséð er að þróun verði í tækni og aðferðum við að auka orkunýtni og því er mikilvægt að hægt sé að breyta kröfum og stöðlum snögglega í samræmi við þróun mála. Nauðsynlegt er að innleiða framkvæmdaráðstafanir svo að markmiðum um visthönnun sé náð og auðvelt sé að breyta þeim ef kröfurnar breytast.
    Stjórnunarkerfi fyrirtækja sem taka þátt í um­hverfisstjórnunarkerfi Evrópusambandsins skulu talin uppfylla ákvæði 5. viðauka við tilskipun 2009/125/EC, þannig að ef fyrirtæki er skráð í samræmi við reglugerð (EC) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 761/2001 frá 19. mars 2001, sem heimilar valkvæða þátttöku í um­hverfisstjórnunarkerfi Evrópusambandsins (EMAS), og hönnunarþátturinn er innan gildissviðs skráningarinnar, þá má ætla að stjórnunarkerfi fyrirtækisins uppfylli kröfur 5. viðauka við tilskipun 2009/125. Auk þessa skulu stjórnunarkerfi fyrirtækja, með hönnunarþátt vöru, sem eru útfærð í samræmi við samhæfða staðla (e. harmonised standards) sem hafa tilvísunarnúmer sín birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, vera talin uppfylla ákvæði 5. viðauka við tilskipun 2009/125/EC.

Um 7. gr.

    Í samræmi við markmið laganna og nýjar skilgreiningar er bætt við greinina að CE- samræmismerki skuli vera á vöru þegar hún er tekin til notkunar. Lögin gilda um vörur sem eru settar á markað eða teknar til notkunar og því þótti rétt að árétta að CE-samræmismerki skuli vera á vöru í báðum þessum tilfellum.

Um 8. gr.

    Um greinina vísast til athugasemdar við 1. gr.

Um 9. gr.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlitsákvæðum laganna og af þeirri ástæðu þykir fara betur á því að breyta fyrirsögn10. gr. laganna eins og hér er lagt til.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að felld verði brott gildandi 11. gr. laganna og í stað hennar komi fimm nýjar greinar. Ákvæðin eru svipuð ákvæðum sem sett hafa verið í önnur sérlög þar sem Mannvirkjastofnun eru falin eftirlitshlutverk sem eru sambærileg við þau sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
     Um a-lið (11. gr.).
    Lagt er til að Mannvirkjastofnun verði falið markaðseftirlit samkvæmt lögunum og að heimilt verði að fela faggiltri skoðunarstofu eftirlitið. Er það hliðstætt því sem heimilað er í annarri löggjöf, svo sem lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.
     Um b-lið (12. gr.).
    Í ákvæðinu er kveðið á um heimildir Mannvirkjastofnunar og faggiltrar skoðunarstofu til skoðunar auk skyldu ábyrgðaraðila til að hafa tilteknar upplýsingar tiltækar. Aðilar skulu bera kostnað af sýnatöku hvort sem varan reynist vera í samræmi við lög og reglugerðir eður ei. Gjaldendur skulu standa undir kostnaði af sýnatöku.
     Um c-lið (13. gr.).
    Í ákvæðunum er að finna ítarleg ákvæði um stjórnsýsluúrræði stofnunarinnar gagnvart framleiðendum, innflytjendum og seljendum. Rétt þykir að samræmis sé gætt varðandi valdheimildir og úrræði Mannvirkjastofnunar vegna markaðseftirlits.
    Um d-lið (14. gr.).
    Lagt er til að Mannvirkjastofnun verði veitt heimild til álagningar stjórnvaldssekta og að hámark sekta verði 5 millj. kr. Þannig er lagt til að Mannvirkjastofnun geti beitt stjórnvaldssektum þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum laganna.
     Um e-lið (15. gr.).
    Í þessari grein er nánar kveðið á um með hvaða hætti megi skjóta ákvörðun Mannvirkjastofnunar til æðra stjórnvalds og eftir atvikum til dómstóla. Lagt er til að ákvörðunum Mannvirkjastofnunar megi skjóta til úrskurðarnefndar um­hverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd um­hverfis- og auðlindamála.

Um 11. gr.

    Um greinina vísast til athugasemdar við 1. gr.

Um 12. gr.

    Í greininni er að finna tilvísun í tilskipun 2009/125/EB en skv. 2. mgr. 1. tölul. 23. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríki vísa í hana þegar innleiddar eru reglur á grundvelli tilskipunarinnar.

Um 13. gr.

    Með greininni er lagt til að heiti laganna verði breytt þannig að í stað þess að heiti þeirra verði lög um visthönnun vöru sem notar orku verði það lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Með hliðsjón af breytingum sem í frumvarpinu felast og kveða á um víðtækara gildissvið laganna þykir rétt að leggja til þessa breytingu á heiti þeirra til þess að það endurspegli betur innihald þeirra.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009,
um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum
(innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

    Breytingartillögur frumvarpsins eru að meginstofni af þrennum toga en frumvarpið er nú endurflutt þar sem það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi. Í fyrsta lagi er lagt til að nafni gildandi laga á þessu sviði verði breytt í lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB, um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur. Gildandi lög taka ein­göngu til vara sem nota orku en með breytingunni munu lögin taka til allra orkutengdra vara, þ.m.t. íhlutavara í vörur sem nota orku. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun annist umsýslu og eftirlit á grundvelli laganna í stað Neytendastofu. Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a. um þetta að þegar frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi hafi í nefndaráliti atvinnuveganefndar, dags. 5. mars 2014, verið samþykkt sú breyting að Mannvirkjastofnun skyldi sinna eftirliti á grundvelli laganna. Er þar tekið fram að stofnunin annist nú þegar markaðseftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd mannvirkjum samkvæmt lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Þá er einnig bent á að þann 14. maí 2014 hafi Alþingi samþykkt lög nr. 39/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar (forræði rafmagnsöryggismála). Í þeim lögum var gert ráð fyrir að sá hluti af markaðseftirliti raffanga, sem var undir eftirliti og forræði Neytendastofu, yrði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála yrði framvegis hjá einni stofnun. Frumvarp þetta, eins og það er hér lagt fram, tekur því mið af þessum breytingartillögum atvinnuveganefndar. Í fjórða lagi eru skilgreindar betur valdheimildir Mannvirkjastofnunar vegna eftirlits og brota á lögunum. Með þessum breytingum er verið að tryggja stofnuninni sömu stjórnsýsluúrræði vegna þessara laga og hún hefur samkvæmt öðrum lögum um leið og tryggt er að eftirlitið sé í samræmi við þær kröfur sem leiðir af fyrrgreindri tilskipun.
    Sem fyrr segir er í lögum nr. 39/2014 gert ráð fyrir að sá hluti af markaðseftirliti raffanga, sem var undir eftirliti og forræði Neytendastofu, verði færður til Mannvirkjastofnunar. Í samræmi við þetta er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 gert ráð fyrir að 17,5 m.kr. fjárheimild, sem fjármögnuð er með mörkuðum tekjum af gjaldi fyrir markaðseftirlit með rafföngum, verði flutt frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Í umboði Mannvirkjastofnunar heimsækir faggilt skoðunarstofa árlega hátt í 300 söluaðila raffanga víðs vegar um landið. Í þessum heimsóknum eru allt að 20 þúsund rafföng skimuð eða könnuð. Við flutning á þeim hluta markaðseftirlits raffanga sem var hjá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar mun fjöldi þeirra raffanga sem kannaður verður aukast eitthvað. Heimsóknum til söluaðila mun hins vegar ekki fjölga umtalsvert því um er að ræða sömu söluaðila sem hingað til hafa þurft að sæta tvöföldu markaðseftirliti.
    Verði frumvarp þetta að óbreyttu er ekki gert ráð fyrir að það eigi að leiða til aukinna fjárveitinga úr ríkissjóði umfram það sem þegar hefur verið ákveðið í fjárlögum og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015.