Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 110  —  7. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Karl F. Jóhannsson og Hermann Aðalgeirsson frá Íbúðalánasjóði, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssambandi lífeyrissjóða, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jónu Björk Guðnadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Vilhjálm Bjarnason og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Umsögn barst frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Með lögum nr. 130/2013 var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög um nauðungarsölu þar sem kveðið var á um að fresta mætti nauðungarsölu fram yfir 1. september 2014 að beiðni gerðarþola. Byggðist sú ráðstöfun á því að kynnt hafði verið aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána en áætlað var að tillögur sem þar voru settar fram yrðu komnar til framkvæmda um mitt ár 2014. Þótti því rétt að nauðungarsölum yrði frestað fram yfir 1. september 2014 svo að skuldurum gæfist tími til að leggja mat á þær aðgerðir sem boðaðar voru og þau áhrif sem þær gætu haft á skuldastöðu viðkomandi.
    Gera má ráð fyrir að niðurstaða útreiknings leiðréttingarinnar liggi fyrir í lok september 2014 en umsækjandi skal samþykkja útreikning og framkvæmd leiðréttingar innan þriggja mánaða frá birtingardegi. Ef umsækjandi samþykkir ekki niðurstöðu ríkisskattstjóra getur hann sótt um leiðréttingu á útreikningi eða kært málið til sérstakrar úrskurðarnefndar innan þriggja mánaða. Fram kom á fundum nefndarinar að niðurstaða í flestum málum er varða leiðréttingu fasteignaveðlána muni liggja fyrir innan sex mánaða frá því að umsóknarfresti um leiðréttingu lauk. Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar gerir því ráð fyrir að heimilt verði að fresta nauðungarsölum fram yfir þann tíma, eða til 1. mars 2015.
    Nefndin vekur athygli á þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér, þ.e. að fyrri stig nauðungarsölu verða látin fara fram nema kröfuhafi óski eftir fresti, en að skuldari geti óskað frests á síðari stigum nauðungarsölu án samþykkis kröfuhafa. Unnt yrði því að hefja vinnslu mála sem eru á fyrri stigum nauðungarsölu og þannig fækka málum sem annars söfnuðust fyrir. Þá er einnig lagt til að heimilt verði að fresta að fengnu samþykki allra gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda frekari vinnslu málsins, hafi uppboði verið lokið en svokallaður samþykkisfrestur, sem sýslumaður ákveður til að taka afstöðu til, sé ekki liðinn. Einnig er gert að skilyrði að skuldari leggi fram staðfestingu á að hann hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Það skilyrði byggist á því sjónarmiði að frestunin er tilkomin vegna hugsanlegra áhrifa leiðréttingar lána á þær skuldir sem liggja til grundvallar nauðungarsölum.
    Við meðferð frumvarpsins fyrir nefndinni var því velt upp hvort rétt væri að takmarka frestun nauðungarsalna við þau tilfelli þar sem viðkomandi hefur fengið samþykkta umsókn sína um leiðréttingu og hvort rétt væri að undanskilja kröfur vegna hússjóðsgjalda sem njóta lögveðsréttar, sbr. ákvæði laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Nefndin telur að ekki sé rétt að takmarka frestunina við að leiðréttingin hafi verið samþykkt. Jafnframt bendir nefndin á að þau tilfelli, þar sem um er að ræða hússjóðsgjöld sem njóta lögveðsréttar, eru hlutfallslega fá og því ekki ástæða til að ráðast í sérstaka útfærslu vegna þessa. Nefndin áréttar mikilvægi þess að hafa þessar aðgerðir sem einfaldastar og skilmerkilegar.
    Fram komu athugasemdir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að áhrif frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga væri ekki kostnaðarmetið eins og lög gera ráð fyrir, auk þess sem ítrekað var það sem fram kom í umsögn sambandsins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, 232. mál á 143. löggjafarþingi. Nefndin tekur undir það sjónarmið að mikilvægt sé að frumvörp séu kostnaðarmetin ef fyrirsjáanlegt er að þau muni hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Einnig kom fram athugasemd frá Íbúðalánasjóði um að fresturinn væri of langur. Í því samhengi ítrekar nefndin að lengd frestsins er miðuð við lok útreiknings og mögulegrar kærumeðferðar fyrir úrskurðarnefnd að höfðu samráði við verkefnastjórn um framkvæmd almennrar höfuðstólslækkunar.
    Nefndin áréttar að framlenging frestsins þjónar því markmiði að gefa skuldurum tíma til að leggja mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og þau áhrif sem þær hafa á skuldastöðu viðkomandi. Að lokum bendir nefndin á að með lögum nr. 23/2009, sem breyttu m.a. ákvæðum laga um nauðungarsölu, var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Þessi frestur var framlengdur með lögum nr. 108/2009 til 28. febrúar 2010. Frumvarpið sem hér um ræðir byggist á þeirri lagaframkvæmd. Nefndin telur einnig rétt að taka fram að sömu skilyrði gilda varðandi þessa frestun og fyrr, þ.e. að gerðarþoli eða gerðarþolar þurfa sjálfir að óska eftir framlengdum fresti og húsnæðið sem um ræðir þarf að vera íbúðarhúsnæði samkvæmt nánari skilgreiningu.
    Fyrirvari Ólínu Þorvarðardóttur: Þingmaðurinn fellst á að lögum nr. 90/1991 sé breytt í því skyni að fresta nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign sem sannarlega er heimili og aðsetur skuldara. Til þessa er gripið nú í tengslum við svonefnda „skuldaleiðréttingaraðgerð“ ríkisstjórnarinnar. Ég tel þó afar ólíklegt að sú aðgerð muni hafa úrslitaáhrif gagnvart þeim sem eiga á hættu að missa heimili sín á nauðungaruppboði, enda er hún líklegri til að nýtast fólki sem ekki er í greiðsluvanda. Þá vek ég athygli á þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi, að þess er skammt að bíða að réttaróvissu um lögmæti annarra lána en verðtryggðra húsnæðislána verði eytt á næsta ári. Mætti í því ljósi, fyrst nú er enn verið að fresta nauðungarsölum, vonum seinna, líta til þess að umtalsverður hópur skuldara á enn á hættu að missa heimili sín vegna neytendalána.
    Fyrirvari Jóns Þórs Ólafssonar: Það eru engin lagaleg rök fyrir því að heimila ekki sömu úrræði og frumvarpið felur í sér til að stöðva líka tímabundið nauðungarsölur þar sem skorið verður úr óvissu um lögmæti flestra neytendalána á fyrri hluta næsta árs. Það væri þá um að ræða sérstakt úrræði vegna þessara óvenjulegu aðstæðna til að meiri hluti heimila landsins geti endurskipulagt fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að eignir þeirra verði seldar nauðungarsölu eins og var nefnt í upphafi greinargerðar með frumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem ástæða fyrir því að stöðva tímabundið nauðungarsölur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 17. september 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Líneik Anna Sævarsdóttir.


Brynhildur Björnsdóttir.



Elsa Lára Arnardóttir.


Ólína Þorvarðardóttir,


með fyrirvara.


Jón Þór Ólafsson,


með fyrirvara.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Bjarkey Gunnarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.