Ferill 169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 176  —  169. mál.
Greinargerð.




Frumvarp til laga



um byggingarsjóð Landspítala.



Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir,
Steinunn Þóra Árnadóttir.


1. gr.

    Byggingarsjóður Landspítala er sjálfstæður sjóður í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis, starfræktur í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítala, aðalsjúkrahúss landsins og háskólasjúkrahúss.

2. gr.

    Hlutverk byggingarsjóðs Landspítala er að taka við og eftir atvikum ávaxta markaðar tekjur samkvæmt lögum þessum. Þá er sjóðnum heimilt að taka við frjálsum framlögum enda séu þau afhent sjóðnum kvaðalaust í þeim tilgangi að renna til uppbyggingar Landspítala. Fjármunum úr sjóðnum skal varið til að endurgreiða ríkissjóði útlagðan stofnkostnað vegna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjunar húsakosts Landspítala eftir því sem framkvæmdum vindur fram og fjármunir leyfa.

3. gr.

    Tekjur af auðlegðarskatti samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum um tekjuskatt skulu renna til byggingarsjóðs Landspítala.

4. gr.

    Dugi fjármunir byggingarsjóðs Landspítala ekki til að endurgreiða ríkissjóði útlagðan stofnkostnað vegna þess að stofnkostn­aður hefur tímabundið orðið meiri en vænta mátti þar sem framvinda framkvæmda er hraðari en gert hafði verið ráð fyrir er sjóðnum heimilt að fjármagna endurgreiðslurnar með lántöku. Slíkar lántökur mega þó samtals aldrei nema hærri fjárhæð en 4/ 5 hlutum af áætluðum tekjum sjóðsins skv. 3. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

6. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum:
     a.      Í stað orðanna „og 2011“ og „og 2013“ í inngangsmálslið kemur: 2011, 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018; og: 2013, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019.
     b.      Á eftir a-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Við mat á framtalsskyldum fasteignum, sbr. 1. tölul. 73. gr., sem teljast íbúðarhúsnæði til eigin nota manna sem er skylt að greiða auðlegðarskatt, skal draga 30.000.000 kr. í tilviki skattskylds einstaklings en 40.000.000 kr. samanlagt í tilviki skattskyldra hjóna frá gildandi fasteignamatsverði. Sé fasteignamatsverð ekki fyrir hendi skal draga fjárhæðina af stofnverði, sbr. 2. mgr. 12. gr., að frádregnum fengnum fyrningum, eða áætluðu fasteignamatsverði sambærilegra eigna, hvort sem hærra er.
     c.      Í stað orðanna „og 2013“ í 2. mgr. b-liðar 1. mgr. kemur: 2013, 2015, 2016, 2017, 2018 og 2019.
     d.      Fyrri málsliður c-liðar orðast svo: Auðlegðarskattsstofn er þær eignir sem eftir verða þegar frá verðmæti eigna skv. 73. gr., sbr. a- og c-lið, hafa verið dregnar fjárhæðir skulda og frímark íbúðarhúsnæðis til eigin nota í samræmi við fyrrnefnd ákvæði a- og c-liðar.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „h-lið“ í e- og i-lið og „h-liðar“ í g-lið kemur, í viðeigandi falli: i-lið.
     f.      4. og 5. málsl. h-liðar orðast svo: Auðlegðarskattsstofn vegna áranna 2011, 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2013, 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020 með tilliti til viðbótareignar skv. c-lið. Sá mismunur sem myndast við þann endurreikning og er umfram viðmiðunarmörk 1. málsl. skal skattlagður við álagningu opinberra gjalda 2013, 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020.
     g.      Við ákvæðið bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Skatttekjur sem innheimtast á grundvelli þessa ákvæðis á árunum 2016 til 2020 skulu renna óskiptar til byggingarsjóðs Landspítala.

Greinargerð.

    Ætla verður að þörfin fyrir endurnýjun húsakosts Landspítala sé óumdeild. Mikill undir­búningur hefur staðið yfir undanfarin ár og fyrir liggja fullbúnar áætlanir um nýbyggingar við Hring­braut í Reykjavík fyrir kjarnastarfsemi spítalans auk áforma um endurnýjun þess hluta núverandi húsakosts sem unnt verður að nota áfram. Miðað við núverandi stöðu mála virðist ljóst að framkvæmdir munu frestast nema gripið verði til sérstakra ráðstafana til að tryggja fjármögnun. Fordæmi eru fyrir því að ráðast í slíka sérstaka fjármögnun með mörkuðum tekjustofnum í þágu brýnna og mikilvægra samfélagslegra mála og má nefna Framkvæmdasjóð aldraðra í því sambandi.
    Sameining Landspítalans á einn stað stuðlar ótvírætt að rekstrarhagræði. Hin mikilvæga starfsemi Landspítalans kallar á betri aðbúnað og nútímalegri vinnuaðstæður sem falla að þeim starfsháttum sem nú er beitt og eru slíkar endurbætur í raun nauðsynlegar til að tryggja starfsemina. Þær fela einnig í sér mikilsverð viðbrögð við þeim vanda sem við blasir þegar að því kemur að tryggja mönnun starfseminnar og keppa um hæft starfsfólk við aðrar heilbrigðisstofnanir sem betur eru settar með tilliti til húsakosts og búnaðar.
    Auðlegðarskatturinn, sem hér er lagt til að verði framlengdur eða komið á að nýju, er settur fram í lítillega breyttri mynd. Er það til að mæta þeirri gagnrýni sem færð hefur verið fram þess efnis að skatturinn hafi verið fullíþyngjandi fyrir þá af greiðendum hans sem áttu stóran hluta þeirrar hreinu eignar sem myndaði skattstofninn í formi íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Viðkomandi skattgreiðendur hafi í sumum tilfellum haft takmarkaðar tekjur. Við þessu er nú brugðist með því að sett er inn sérstakt frímark vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, 30.000.000 kr. í tilviki skattskylds einstaklings og 40.000.000 kr. í tilviki skattskyldra hjóna. Ætla má að stór hluti greiðenda auðlegðarskatts búi í skuldlausu eða skuldlitlu eigin húsnæði og muni því stór hluti greiðenda njóta góðs af þessu frímarki. En einkum mun þetta þó létta eða afnema með öllu greiðslur þeirra sem að uppistöðu til áttu eignir sínar bundnar í eigin húsnæði og höfðu litlar tekjur af öðrum eignum sínum. Lauslega áætlað gæti þessi breyting orðið til þess að lækka heildarupphæð skattsins um 1 milljarð kr. Eigi að síður má ætla að árlegar tekjur verði 9–9,5 milljarðar kr., eða á bilinu 45–50 milljarðar kr. yfir fimm ára tímabil. Það nemur svipaðri fjárhæð og byggingarkostn­aður nýrrar meginbyggingar Landspítala, eins og hann er áætlaður.
    Reynt hefur á lögmæti auðlegðarskattsins fyrir dómstólum sem úrskurðuðu hann lögmætan og er ekki ástæða til að ætla annað en þessi tímabundna og skýrt afmarkaða framlenging hans í þágu þess að leysa úr brýnni þörf þjóðarinnar fyrir nýjan Landspítala standist með sama hætti.