Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 197  —  44. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um þingsályktun nr. 18/143, um aðgerðaáætlun um notkun íslensku
í stafrænni upplýsingatækni.


     1.      Hverju sætir að nefnd hefur ekki verið skipuð í samræmi við þingsályktun nr. 18/143, um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni?
    Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði 9. september sl. eftirtalin í nefnd um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni samkvæmt þingsályktun Alþingis frá 12. maí sl.:
    –        Hrafn Loftsson, formann, dósent við Háskólann í Reykjavík,
    –        Eirík Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands,
    –        Sigrúnu Helgadóttur, verkefnisstjóra hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Þegar Alþingi ákvað lækkun fjárveitinga til mennta- og menningarmálaráðuneytis um 42 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2014, miðað við upphaflegar forsendur í fjárlagafrumvarpi, þurfti í kjölfarið að forgangsraða verkefnum, draga úr sumum verkefnum og hætta öðrum, auk þess sem sömu verkefnum er nú sinnt af færri starfsmönnum en áður. Með hliðsjón af framansögðu hefur tafist að hrinda þingsályktuninni í framkvæmd.

     2.      Hvenær hyggst ráðherra skipa nefndina og hvenær má búast við að áætlun sú sem nefndinni var ætlað að leggja fram í síðasta lagi 1. september sl. líti dagsins ljós?
    Í skipunarbréfi er til þess mælst að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. janúar 2015.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til efnis þingsályktunarinnar og mikilvægis hennar?
    Þingsályktunin sem samþykkt var á Alþingi 12. maí sl. er svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 1. september 2014.“
    Aðalmarkmið íslenskrar málstefnu er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags og því er brýnt að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Væntanlega mun nefnd sérfræðinga um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni skila greinargóðri áætlun um aðgerðir sem hægt verður að ráðast í á næstunni. Mikilvægt er að fjárframlag fylgi þingsályktunum til að standa undir þeim útgjöldum sem fyrirsjáanlega munu hljótast af framkvæmd þeirra. Ef ekki er hugað að þessu við afgreiðslu þingsályktunarinnar sem spurt er um getur það leitt til frekari tafa á framkvæmd hennar.