Ferill 59. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 202  —  59. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um sumardvalarstaði fatlaðra.


     1.      Hversu margir sumardvalarstaðir fyrir fullorðið fatlað fólk voru starfræktir hérlendis sumarið 2014?
    Eins og fram kemur síðar í þessu svari er sumardvalarþjónusta við fatlað fólk ekki leyfisskyld og því er ekki til nákvæm skráning um fjölda slíkra staða hjá velferðarráðuneytinu. Eftir því sem réttindagæslumenn fatlaðs fólks, sem starfa á vegum velferðarráðuneytisins, komast næst voru sjö slíkir staðir starfræktir sumarið 2014. Velferðarráðuneytið sendi hverjum þessara staða fyrirspurn um fjölda dvalargesta í maí, júní, júlí og ágúst 2014. Allir svöruðu fyrirspurninni. Misjafnt var hve lengi sumars hver þeirra starfaði, en það var á bilinu tvær til níu vikur.

     2.      Hversu margir fullorðnir fatlaðir einstaklingar nýttu sér þjónustu þessara staða?
    Alls voru sumardvalargestir þessara staða samkvæmt þessari athugun 191 talsins.

     3.      Er rekstur sumardvalarstaða fyrir fullorðið fatlað fólk leyfisskyld starfsemi og ef svo er, hvaða skilyrði eru sett fyrir starfseminni?
    Rekstur sumardvalarstaðar fyrir fullorðið fatlað fólk er ekki leyfisskyldur samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992. Skv. 9. og 10. gr., sbr. 6. gr. a laganna, eru það aðeins hæfingar- og endurhæfingarstöðvar, dagvistarstofnanir, verndaðir vinnustaðir, skammtímavistanir og húsnæðisúrræði sem gert er ráð fyrir að sæki um starfsleyfi til sveitarfélaga eða þjónustusvæða.
    Um sumardvalarstaði gilda hins vegar sömu reglur og gilda um aðra sambærilega ferðaþjónustu, þar á meðal ákvæði laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/ 2007, m.a. með tilliti til aðbúnaðar og þurfa þeir því að hafa tilskilin leyfi til rekstursins selji þeir gistingu og/eða veitingar.
    Þá hefur réttindavakt ráðuneytisins útbúið gátlista til útfyllingar fyrir rekstraraðila sumardvalarstaða sem þjónustuaðilar, svo sem sveitarfélög, geta haft til hliðsjónar þegar fötluðum einstakling er leiðbeint um val á sumardvalarstað.

     4.      Hvaða skilyrði eiga við um starfsfólk slíkra sumardvalarstaða?
    Í lögum er ekki að finna sérstök skilyrði um starfsfólk sumardvalarstaða en rétt er að benda á að í 43. gr. laga um málefni fatlaðs fólks kemur fram að óheimilt sé að ráða í störf hjá sveitarfélögum, þ.m.t. byggðasamlögum, ríki eða einkaaðilum sem unnin eru í þágu þjónustu við fatlað fólk, þá sem hafa hlotið refsidóma vegna brota á XXII. kafla almennra hegningarlaga, en hann fjallar um kynferðisbrot. Gildir það hvort sem þjónustan er veitt á heimili viðkomandi, á öðrum heimilum eða stofnunum.

     5.      Eru uppi áform um að setja frekari skilyrði fyrir starfrækslu slíkra staða eða breyta skilmálum um starfsemi þeirra og þá með hvaða hætti?

    Nefnd er að störfum um endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Jafnframt hefur verið skipuð nefnd til að skerpa og skýra stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar. Henni hefur verið falið að móta tillögur um stofnun stjórnsýslustofnunar sem meðal annars mun hafa með höndum upplýsingaöflun um þjónustu og skilgreiningu gæðaviðmiða á grundvelli gagnreyndrar þekkingar og upplýsinga, öflun og viðhald bestu þekkingar hverju sinni á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og ýmis stjórnsýsluverkefni, meðal annars þau sem nú eru í umsjón Barnaverndarstofu, Fjölmenningarseturs og réttindagæslumanna fatlaðs fólks. Niðurstöður nefndarstarfa liggur ekki fyrir að svo stöddu.