Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 236  —  65. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Með hliðsjón af dómi þeim sem vísað er til í greinargerð með fyrirspurninni er dregin sú ályktun að með eftirlitsstjórnvaldi eða eftirlitsaðila sé eingöngu átt við stjórnvöld sem hafa eftirlit með athöfnum einstaklinga eða félaga þeirra. Engin stofnun sem heyrir undir utanríkisráðuneytið hefur slíkt hlutverk með höndum.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Umbætur á stjórnarfari almennt heyra undir forsætisráðuneyti, sbr. k-lið 1. tölul. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013. Á vegum þess ráðuneytis hefur nýverið komið út stöðuskýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks. Skýrslan er samin í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið frá 24. maí 2013. Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 14. apríl sl. skipaði forsætisráðherra jafnframt vinnuhóp til að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana og meta hvernig viðmið um vandað regluverk og stjórnsýslu eru uppfyllt, með einföldun, samræmi og skilvirkni að markmiði. Þá hefur forsætisráðherra fyrr á þessu ári skipað starfshóp til að móta stefnu um starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda, en þær hafa margar eftirlit með höndum. Utanríkisráðherra á fulltrúa í síðastnefnda hópnum.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Vísað er til svars við 2. tölul.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?

    Á ekki við, sbr. svar við 1. tölul.