Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 268  —  239. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um svæðisbundna fjölmiðla.


Flm.: Bjarkey Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Guðbjartur Hannesson,
Kristján L. Möller, Brynhildur Pétursdóttir, Jón Þór Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu svæðisbundinna fjölmiðla og skili skýrslu um málið eigi síðar en 1. mars 2015. Áhersla verði lögð á að meta rekstrarumhverfi svæðisbundinna fjölmiðla, hlutverk þeirra við upplýsingagjöf til almennings og við eflingu lýðræðislegrar umræðu. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun svæðisfjölmiðlunar undanfarin ár og komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla svæðisbundna fjölmiðlun.

Greinargerð.

    Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að stuðla að því að gerð verði úttekt á stöðu svæðisbundinna fjölmiðla með það að markmiði að skapa umræðu um aðgerðir til að efla þessa gerð fjölmiðlunar. Svæðisbundnir fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu á sínu svæði sem og við dreifingu upplýsinga um málefni sem kunna að varða íbúa viðkomandi svæðis miklu en komast sjaldan að í stærri fjölmiðlum á landsvísu. Þessi hlutverk eru mikilvæg nú sem fyrr og eru horfur á að þörfin fyrir svæðisbundna fjölmiðlun fari vaxandi í framtíðinni. Athugun Birgis Guðmundssonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, sem vísað er til í umsögn háskólans um þingsályktunartillögu um staðbundna fjölmiðla frá 139. löggjafarþingi (107. mál), sýnir að eftirspurn íbúa eftir ritstjórnarefni svæðisbundinna fjölmiðla er meiri en framboðið. Erfiðleikar margra svæðisfjölmiðla við tekjuöflun torvelda þeim hins vegar að veita meiri þjónustu.
    Sameining sveitarfélaga, með fjölgun íbúa og landfræðilega stærri sveitarfélögum, og samdráttur innan stærri fjölmiðla landsins hefur aukið þörf íbúa fyrir svæðisbundna fjölmiðlun sem í senn veitir upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags. Vefsetur sveitarfélaga og stofnana geta ekki nema að litlu leyti komið í stað hefðbundinna fjölmiðla sem stunda sjálfstæða og óháða efnisöflun og kalla eftir upplýsingum og skýringum frá valdhöfum og styðja þannig við gagnsæi og lýðræði. Nauðsynlegt er að gera sérstaka úttekt á stöðu svæðisbundinna miðla til að meta megi þörfina fyrir sérstakar aðgerðir til eflingar þeim.
    Mál af þessum toga hafa tvisvar komið til umfjöllunar á Alþingi á undanförnum áratug án þess að hljóta fullnaðarafgreiðslu þingsins. Tillaga til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla var lögð fram á 131. löggjafarþingi (234. mál). Hún var samþykkt samhljóða að lokinni fyrri umræðu og vísað til menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna málsins vorið 2005. Sex umsagnir bárust sem voru ýmist jákvæðar, neikvæðar eða hlutlausar en málið dagaði uppi fyrir þinglok.
    Þingsályktunartillaga um staðbundna fjölmiðla sem lögð var fram á 139. löggjafarþingi veturinn 2010–2011 (107. mál) hlaut sömu örlög. Í það skipti bárust átta umsagnir um málið sem allar voru jákvæðar í garð þess.
    Í Skýrslu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla frá apríl 2005 kemur fram að sú skylda hvíli á íslenska ríkinu að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun. Skýrslan fjallar nær eingöngu um málefni þeirra fjölmiðla sem hafa útbreiðslu um land allt (landsdekkandi miðla) en að litlu leyti um svæðisbundna fjölmiðla. Þeir standa margir höllum fæti og víða á landsbyggðinni búa íbúar við litla eða mjög takmarkaða upplýsingagjöf og umræðu um málefni síns svæðis. Fámenni á ritstjórnum, kostnaðarhækkanir (t.d. dreifingarkostnaður prentmiðla) og takmarkaðir tekjumöguleikar auka hættuna á að svæðisfjölmiðlar verði um of háðir stærstu auglýsendum sínum eða þeir leggi upp laupana. Lokun svæðisútvarpa RÚV árið 2010 hafði neikvæð áhrif á upplýsingagjöf og innri umræðu um samfélagsmál á þeim svæðum sem nutu útsendinga svæðisstöðvanna.
    Á grundvelli 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um tjáningarfrelsi, hefur Evrópuráðið samþykkt sérstök tilmæli til aðildarríkjanna. Þau taka á ýmsum þáttum í starfsemi fjölmiðla en snúast þó einkum um hvernig tryggja megi tjáningarfrelsi og stuðla að menningarlegri fjölbreytni. Er þar vísað til þess hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Við þessa upptalningu mætti einnig bæta svæðisbundnum netmiðlum. Ýmis skilyrði yrðu lögð til grundvallar slíkum stuðningi, svo sem að ritstjórnarstefna sé sjálfstæð og að fjölmiðill sé ekki rekinn í hagnaðarskyni. Önnur leið til stuðnings svæðisbundnum miðlum væri að settar yrðu reglur varðandi birtingu auglýsinga af hálfu opinberra aðila. Markmið slíkra reglna væri að auglýsingum frá þessum aðilum yrði beint til fjölmiðla sem þjónuðu því svæði sem auglýsingin miðaðist við og birtu ritstjórnarefni frá því svæði. Þessi leið væri til þess fallin að styrkja tekjugrundvöll svæðisbundinna fjölmiðla og efla getu þeirra til að veita íbúum góða þjónustu.
    Að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða skuli miðað við að stuðningur af þessu tagi sé byggður á hlutlægum sjónarmiðum, á grundvelli gegnsærra reglna og málsmeðferðar, sem sæti ytra eftirliti. Ákvarðanir af þessum toga sæti jafnframt reglubundinni endurskoðun til að komast hjá því að þær ýti undir samþjöppun eða óeðlilegan ábata þeirra sem njóta opinbers stuðnings.