Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 269  —  240. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra
fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir) .

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þá skal önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr. framkvæmdu frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. og ekki telst til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, dregin frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr.
     b.      Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. og 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við verkefnisstjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar.
    Við yfirferð á þeim margvíslegu gögnum og upplýsingum sem leggja þarf til grundvallar framkvæmd leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána samkvæmt lögum nr. 35/2014 hefur komið í ljós að það getur leitt til ósamræmdrar niðurstöðu að miða niðurfærslur skv. 8. gr. við ákveðnar dagsetningar eða aðferðir. Rétt þykir að bregðast við þessu sérstaklega þar sem mjög óeðlilegt þykir að réttarstaða heimila sem eins er ástatt fyrir sé með gerólíkum hætti allt eftir því til dæmis hvort almenn skuldalækkunarúrræði einstakra lánastofnana í þágu skuldsettra heimila áttu sér stað fyrir eða eftir formlegan staðfestingardag samkomulags þess efnis.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 35/2014 er markmið laganna að leiðrétting verði framkvæmd vegna verðtryggðra íbúðaskulda heimila á árunum 2008 og 2009. Jafnframt að þau úrræði sem þegar hafa verið veitt skuldsettum heimilum fyrir atbeina stjórnvalda komi til frádráttar leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr.
    Í einhverjum tilvikum kann að mega halda því fram að einstakir liðir 1. mgr. 8. gr. hafi ekki verið gerðir fyrir atbeina stjórnvalda þar sem til dæmis fjármálastofnanir hófu beitingu úrræðanna fyrir undirritun viðkomandi samkomulags. Til að bregðast við þessu er talið rétt að lögfesta nýja málsgrein sem tekur af allan vafa um það að sambærileg úrræði leiða til sömu niðurstöðu hvað leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána varðar.
    Með setningu ákvæðis til bráðabirgða XXXVII í lögum nr. 90/2003 var m.a. tekinn af sá vafi að eftirgjöf veðskulda einstaklinga utan atvinnurekstrar teldist almennt ekki til skattskyldra tekna, sem telja verður ríka forsendu fyrir almennri virkni almennra skuldalækkunarúrræða. Til að tryggja enn frekara samræmi í verklagi við frádrátt frá ákvarðaðri leiðréttingu skv. 7. gr. laganna er talið æskilegt að tekinn sé af allur vafi um að allir frádráttarliðir 8. gr. byggjast í grunninn á því að úrræðin sem standa að baki þeim til handa skuldsettum heimilum teljast almennt ekki til tekna samkvæmt lögum nr. 90/2003 og eiga sér því eðlilega samsvörun í frádrætti frá leiðréttingarfjárhæð 7. gr. Nauðsynlegt er þó að halda því til haga að tilvísunin til bráðabirgðaákvæðisins hefur ekki rýmri tilvísun hvað varðar undanþágu frá skattskyldu eftirgjafar veðskulda en varðar úrræði sambærileg þeim sem falla undir aðra stafliði ákvæðis 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og er til að mynda ekki ætlað að taka til eftirgjafar á skuldum vegna bílasamninga, sem ekki væru bundnar fasteignaveðum.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á 8. gr. laga nr. 35/2014, sem fjallar um frádráttarliði, í þeim tilgangi að taka af allan vafa um að samsvarandi skuldalækkunarúrræði leiði til samsvarandi frádráttar frá ákvarðaðri leiðréttingu, óháð fyrirkomulagi eða aðferð einstakra lánveitenda við skuldalækkunina og því hvort hún hafi verið framkvæmd fyrir eða eftir gerð samkomulaganna sem vísað er til í b- og c-lið 8. gr. Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að tryggja að fyllsta samræmis verið gætt við framkvæmd frádráttarliða samkvæmt lögunum.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

V. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við verkefnisstjórn um höfuðstólslækkun íbúðalána og samráðshóp um framkvæmd höfuðstólslækkunar en í honum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóði og ríkisskattstjóra auk fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur ekki í sér eiginlegar breytingar á efnisatriðum laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014. Með frumvarpinu er lagt til að tryggari og skýrari lagastoð verði sett vegna þeirra frádráttarliða sem raktir eru í 8. gr. laganna. Lögfesting þess mun því ekki hafa áhrif á kostnað við leiðréttinguna en hún er líkleg til að stuðla að færri ágreiningsmálum vegna frádráttarliða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í a-lið er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 8. gr. þar sem kveðið er á um að önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem framkvæmd var frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getið er um í b- og c-lið 1. mgr. verði dregin frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. Jafnframt er vísað til þess að beiting úrræðisins hafi ekki haft í för með sér skattskyldu tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Slíkur áskilnaður er talinn stuðla að samræmdu verklagi við framkvæmd leiðréttingar.
    Líkt og kemur fram í almennum athugasemdum er breytingin gerð til þess að taka af allan vafa um að jafnræðis gæti við framkvæmd frádráttar við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þannig að samsvarandi úrræði leiði til sambærilegrar niðurstöðu.
    Í b-lið er lögð til breyting sem leiðir af því að nýrri málsgrein er bætt við 8. gr.

Um 2. gr.


    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu
verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir).

    Í frumvarpinu er lagt til að við 8. gr. laganna, sem fjallar um frádráttarliði við niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána, verði bætt ákvæði sem tryggir að önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna en sú sem þar er talin upp og er sambærileg þeim úrræðum komi til frádráttar ákvarðaðri skuldaleiðréttingu samkvæmt lögunum.
    Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að þessari viðbót sé ætlað að tryggja að fyllsta samræmis verði gætt við framkvæmd frádráttarliða þannig að sambærileg úrræði leiði til sömu niðurstöðu samkvæmt lögunum óháð fyrirkomulagi eða aðferð einstakra lánveitenda við fyrri aðgerðir til lækkunar skulda og því hvort þær hafi verið framkvæmdar fyrir eða eftir gerð samkomulaganna sem vísað er til í lögunum.
    Lögfesting frumvarpsins snýr að því að treysta betur þá framkvæmd sem áformuð var með lögunum og því ætti það ekki að hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá má telja að hún geti stuðlað að færri ágreiningsmálum vegna frádráttarliða og þar með lækkun kostnaðar fjármálastofnana og heimila við úrlausn mála og mögulegan málarekstur í kjölfarið.