Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 270  —  241. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007,
með síðari breytingum (skerðingarhlutfall).


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir.



1. gr.

    Við 2. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu tekjur lífeyrisþega hærri en þau mörk sem greinir í 2. og 3. málsl., sbr. 5. mgr., skal skerða sérstaka framfærsluuppbót um 35% þar til hún fellur niður þegar atvinnutekjur lífeyrisþega hafa náð 600.000 kr. á ársgrundvelli.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.


Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, þess efnis að horfið verði frá skerðingu krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót sem heimilt er að greiða til lífeyrisþega á grundvelli 9. gr. laganna. Í breytingunni felst að vinni lífeyrisþegi sér inn tekjur sem eru hærri en um getur í ákvæðinu skuli skerða sérstaka framfærsluuppbót um 35% þar til hún fellur niður þegar lífeyrisþegi hefur unnið sér inn 600.000 kr. í atvinnutekjur á ársgrundvelli. Með breytingunni eru auknir möguleikar lífeyrisþega til að vinna sér inn tekjur og bæta þannig lífskjör sín án þess að sérstök framfærsluuppbót skerðist að fullu á móti. Samkvæmt gildandi lögum skerðist sérstök framfærsluuppbót krónu á móti krónu þannig að við hverja aukakrónu í tekjur sem lífeyrisþegi fær umfram þau mörk sem greinir í 2. mgr. 9. gr., sama hvaðan þær tekjur koma, skerðist sérstaka framfærsluuppbótin um sömu upphæð.
    Sérstök framfærsluuppbót er hugsuð sem öryggisnet fyrir þá lífeyrisþega sem ekki hafa í gegnum greiðslur almannatryggingakerfisins þær bætur sem taldar eru nægja til lágmarksframfærslu. Uppbótin er þannig hugsuð sem „gólf“ sem þeir lífeyrisþegar sem standa hvað verst í samfélaginu og hafa minnstar ráðstöfunartekjur eiga ekki að fara niður úr. Um heimildarákvæði er að ræða og greiðslur samkvæmt því byggjast á einstaklingsbundnu mati á þörf hvers og eins fyrir sérstaka framfærsluuppbót. Uppbótin virkar þó ekki sem skyldi líkt og margoft hefur verið bent á þar sem allar tekjur sem lífeyrisþegi aflar sér skerða uppbótina að sama marki. Með þessari reglu er því að óbreyttu í raun búin til fátæktargildra sem þeir sem lægstu upphæðirnar hafa sér til framfærslu eiga erfitt með að losna úr.
    Hvatning til aukinnar atvinnuþátttöku lífeyrisþega er afar mikilvæg, félagslega sem fjárhagslega, en því miður verður að segja að skerðingarreglur almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð virka sumar þannig að þær draga algerlega úr hvata lífeyrisþega til atvinnuþátttöku. Aukin atvinnuþátttaka ætti að öllu jöfnu að leiða til aukinna tekna en vegna skerðingarreglna laganna er það oft ekki raunin og sérstaklega ekki þegar um fulla skerðingu, krónu á móti krónu, er að ræða.
    Hafa verður í huga að atvinnuþátttaka krefst oft fjárhagslegra útgjalda, t.d. þarf fólk að koma sér í og úr vinnu og stundum að festa kaup á nýjum fatnaði svo að eitthvað sé nefnt. Aukin atvinnuþátttaka lífeyrisþega getur því við núverandi lagaumgjörð leitt til hærri útgjalda en að tekjur standi í stað svo að lífeyrisþegi stendur fjárhagslega verr eftir en áður. Ljóst er að við slíkar aðstæður er hvati til atvinnuþátttöku enginn. Þá er eðlilegt að atvinna skili tekjum og því er það mikið réttlætismál fyrir þá sem njóta sérstakrar framfærsluuppbótar að auknar tekjur skerði ekki uppbótina að fullu. Fullar skerðingar gera það að verkum að lífeyrisþegar eiga erfitt með að bæta stöðu sína með því að vinna eins og heilsa og geta leyfir. Í núverandi lagaumhverfi þarf lífeyrisþegi sem nýtur sérstakrar framfærsluuppbótar að hafa talsvert miklar tekjur til að bæta hag sinn með atvinnu.
    Núverandi ástand getur ekki talist viðunandi og því mikilvægt að breyta skerðingarreglum laganna og sérstaklega skerðingarreglu sérstakrar framfærsluuppbótar eins og lagt er til í frumvarpi þessu. Með því væri stigið það skref að standa vörð um þann megintilgang framfærsluuppbótarinnar að tryggja kjör verst settu lífeyrisþeganna, en þeim um leið gert mögulegt að bæta stöðu sína með atvinnuþátttöku, að því marki sem þeir geta.