Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 279  —  103. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008, með síðari breytingum (embætti héraðssaksóknara).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað til 1. janúar 2016 en með lögum um meðferð sakamála sem tóku gildi 1. janúar 2009 var gert ráð fyrir því að stofnað yrði embætti héraðssaksóknara sem yrði nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Vegna niðurskurðar hefur stofnun embættisins verið frestað fjórum sinnum, með lögum nr. 156/2008, lögum nr. 123/2009, lögum nr. 168/2011 og lögum nr. 116/2013.
    Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að vinna við endurskoðun ákæruvaldsins standi enn yfir og ekki verði unnt að leggja fram frumvarp um framtíðarskipan þess í tæka tíð og því sé nauðsynlegt að fresta enn gildistöku laganna hvað varðar embætti héraðssaksóknara þar til fyrir liggur niðurstaða um fyrirkomulag ákæruvaldsins. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en áréttar mikilvægi þess að þeirri vinnu verði hraðað svo að ekki komi til frestunar að nýju.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. október 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Bjarkey Gunnarsdóttir.