Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 280  —  250. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um könnun á réttarstöðu með tilliti til gjaldtöku við náttúruvætti.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að láta fara fram könnun á réttarstöðu með tilliti til innheimtu aðgangseyris við náttúruvætti. Niðurstöður liggi fyrir og verði kynntar almenningi ekki síðar en 1. mars 2015.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 143. löggjafarþingi (416. mál) en kom ekki til umræðu. Hún er nú flutt óbreytt að dagsetningunni undanskilinni. Tillögunni fylgdi svofelld greinargerð:
    „Heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands hefur fjölgað mjög undanfarið og mikilvægi ferðaiðnaðarins fyrir þjóðarhag aukist að sama skapi. Afleiðingar vaxandi ferðamennsku eru að flestu leyti jákvæðar fyrir samfélagið í menningarlegu og efnahagslegu tilliti. Ferðaþjónustan skapar landsmönnum tekjur og styður við menningu og skapandi greinar. Flestir þeirra ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands gera það til að njóta náttúru landsins og er það vel. Það er þó á þessum vettvangi sem veikasta hlið íslenskra ferðamála kemur í ljós.
    Bent hefur verið á það af ýmsum aðilum að fjölsóttustu náttúruvætti landsins geti legið undir skemmdum vegna mikils ágangs ferðafólks og allvíða sé þörf á framkvæmdum og fjárfestingum til að unnt sé að veita ferðafólki aðgang að náttúruperlum án þess að stofna umhverfi og lífríki í hættu.
    Undanfarið hefur orðið vart tilrauna landeigenda sem eiga náttúruvætti eða lendur sem liggja að þeim til að taka málin í eigin hendur og krefja ferðamenn um aðgangseyri. Sem stendur er það þó aðeins gert á tveimur stöðum, við Kerið í Grímsnesi og Geysi í Haukadal. Á báðum stöðum er gjaldtakan umdeild og raunar standa mál við Geysi þannig að deilu ríkissjóðs og félags landeigenda við Geysi um gjaldtöku hefur verið skotið til dómstóla.
    Veruleg óvissa ríkir um heimild landeigenda til gjaldtöku af ferðamönnum sem njóta náttúrunnar eins og ágreiningurinn um lögmæti innheimtu aðgangseyris að Geysi sýnir glöggt. Ef heimt er gjald af fólki fyrir það eitt að svipast um og njóta þess að virða fyrir sér það sem fyrir augu ber er það skattheimta. Samkvæmt stjórnarskránni er óheimilt að leggja skatta á nema með lögum og lagasetningarvald hafa landeigendur ekki. Þá er ágreiningur um eignarhald á sumum ferðamannastöðum og síðast en ekki síst hefur almenningur ríkan rétt til ferðafrelsis um landið samkvæmt náttúruverndarlögum.
    Sú þróun sem orðið hefur undanfarið varðandi hugmyndir um gjaldtöku á ferðamannastöðum ber þess vott að mikill vafi leikur á um rétt og skyldur hlutaðeigandi – landeigenda annars vegar og ferðafólks hins vegar – varðandi innheimtu og greiðslu aðgangseyris að náttúruvættum. Mikilvægt er að eyða þessum vafa eins og unnt er þannig að gjaldtaka af ferðamönnum geti komist á í viðunandi horfi og að tryggt verði að það fé sem til fellur verði nýtt til verndar náttúruvættum og til þess að gera þau aðgengileg.“