Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 302  —  72. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum,
nr. 61/1999 (innleiðing tilskipunar).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá barst nefndinni ein umsögn um málið frá Samiðn.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, nr. 61/1999, vegna innleiðingar á tilskipun 2009/38/EB, um breytingu og endurútgáfu á tilskipun 94/45/EBE. Í athugasemdum við frumvarpið er vísað til formálsorða tilskipunar 2009/38/EB þar sem fram kemur að það hafi verið talið nauðsynlegt að færa löggjöf Evrópusambandsins um upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð milli landa til nútímahorfs með það að markmiði að tryggja virk réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs milli landa. Einn liður í því er að fjölga evrópskum samstarfsráðum en jafnframt að tryggja áframhaldandi virkni þeirra samninga sem þegar hafa komist á. Helsta breytingin sem felst í frumvarpinu er sú að lögð er til skilgreining á fjölþjóðlegum málefnum í 8. gr. a laganna, sbr. 3. gr. frumvarpsins, en í 2. gr. þess kemur fram að valdsvið samstarfsráða, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn í fyrirtækjum á grundvelli laganna takmarkast við fjölþjóðleg málefni. Nefndin bendir einnig á að á efni tilskipunarinnar hefur ekki reynt hér á landi vegna stærðar fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæða sem þær gilda um en skv. 3. gr. laga nr. 61/1999 gilda þau um fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar um fyrirtækjasamstæðu er að ræða er enn fremur skilyrði að þau hafi fyrirtæki eða starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og 150 starfsmenn í hvoru þeirra. Ekki má því búast við að efni frumvarpsins hafi áhrif hér á landi að svo stöddu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. október 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Björt Ólafsdóttir,
frsm.
Anna María Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Brynjar Níelsson. Guðbjartur Hannesson.
Páll Jóhann Pálsson. Álfheiður Ingadóttir. Óli Björn Kárason.