Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 321  —  271. mál.




Fyrirspurn



til innanríkisráðherra um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar.

Frá Líneik Önnu Sævarsdóttur.


     1.      Hvers vegna er miðað við 15 ára aldur í reglugerð nr. 631/1999 um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar barna?
     2.      Telur ráðherra athugandi að breyta aldursmörkunum, t.d. þannig að börnum verði skylt að nota hlífðarhjálm til loka grunnskóla eða til 18 ára aldurs?
     3.      Telur ráðherra tilefni til að fullorðnum verði einnig gert skylt að nota hlífðarhjálm?
     4.      Hvernig er skyldu til hjálmanotkunar fylgt eftir og hvernig telur ráðherra eðlilegast að fylgja henni eftir?
     5.      Eru til upplýsingar um fjölda slysa þar sem líkur eru á því að hlífðarhjálmur hafi komið í veg fyrir alvarleg slys?
     6.      Eru til upplýsingar um fjölda slysa þar sem líkur eru á því að notkun hlífðarhjálms hafi dregið úr áverkum?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Samkvæmt umferðarlögum getur ráðherra sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar. Í samræmi við það er í reglugerð nr. 631/1999 kveðið á um að barn yngra en 15 ára skuli nota hlífðarhjálm við hjólreiðar. Á vef Samgöngustofu þar sem reglurnar eru kynntar er jafnframt sagt til um að hjálmurinn þurfi að vera í réttri stærð og rétt stilltur og mælt er með að fullorðnir noti einnig hjálm enda mikilvægur öryggisbúnaður.
    Það veldur ákveðnum vandkvæðum við eftirfylgni á skyldu til hjálmanotkunar grunnskólabarna að hluta af efsta bekk grunnskólans sé ekki skylt að nota hjálma.