Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 334  —  98. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009,
um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum
(innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Barðadóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Frumvarp sama efnis var til meðferðar á 143. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt að teknu tilliti til breytinga sem atvinnuveganefnd lagði þá til (187. mál). Frumvarpið tekur mið af lögum nr. 39/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar, sem voru samþykkt síðastliðið vor. Frumvarpið tekur sömuleiðis mið af frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. sem er nú til meðferðar í nefndinni (99. mál).
    Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi: Lagt er til að gildissvið laganna verði útvíkkað þannig að þau eigi við um vörur sem tengjast orkunotkun í stað þess að ná aðeins til vara sem nota orku. Vörur sem tengjast orkunotkun eru t.d. gluggar, einangrunarefni og vörur ætlaðar fyrir vatnsnotkun. Hins vegar er einnig lagt til að farþega- og vöruflutningar verði undanskildir lögunum og að heiti laganna breytist þannig að það verði lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun. Lagt er til að eftirlit á grundvelli laganna verði hjá Mannvirkjastofnun í stað Neytendastofu auk þess sem í frumvarpinu eru nokkrar greinar sem varða eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Verði frumvarpið að lögum fær Mannvirkjastofnun heimild til að fela faggiltri löggildingarstofu eftirlit og einnig heimild til að beita stjórnvaldssektum. Ákvörðunum stofnunarinnar verður samkvæmt frumvarpinu unnt að skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en um hana gilda sérstök lög.
    Haraldur Benediktsson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Alþingi, 16. október 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Þorsteinn Sæmundsson,
frsm.
Steingrímur J. Sigfússon.
Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir. Páll Jóhann Pálsson.
Anna María Elíasdóttir.